SFF taka þátt í menntadegi atvinnulífsins sem haldinn verður 28. janúar næstkomandi. Meðal dagskrárliða er sérstök menntastofa þar sem Fjármálavit verður kynnt. Fjármálavit er kennsluefni um fjármál sem SFF hafa þróað í samvinnu við kennara og kennaranema og hefur verið kynnt fyrir ríflega þrjú þúsund grunnskólanemum um land allt í vetur við góðar undirtektir. Á málstofunni munu þátttakendur fá að spreyta sig á sömu verkefnum og þeir nemendur sem hafa fengið kynningu á Fjármálaviti.
Halldóra Gyða Matthíasdóttir útibússtjóri Íslandsbanka í Garðabæ og einn af fjölmörgum leiðbeinendum Fjármálavits, stýrir verkefnavinnunni. Henni til halds og trausts verða tveir nemendur í 10. bekk sem hafa kynnst og leyst verkefni tengdu Fjármálaviti.
Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins. Menntadagurinn er haldinn á Hilton Reykjavík Nordica og er vissara að skrá þátttöku tímanlega til að tryggja sér pláss. Sameiginleg dagskrá er frá kl. 8.30-10 en kl. 10.30- er boðið upp á fjölbreyttar málstofur á borð við þá sem SFF standa að.
Nánari umfjöllun um menntadag atvinnulífsins má finna hér á heimasíðu SA og þar er haldið utan um skráningu.