Skip to content

Vörumst svik í sumarfríinu

netsvik

Mörg dæmi er nú um netsvikatilraunir og því biðjum við fólk um að vera á varðbergi. Fólk og fyrirtæki geta verið sérstaklega berskjölduð gagnvart netsvikum þegar slakað er á í sumarfríinu.

Dæmi um nýlegar netsvikatilraunir eru að neytendur fá smáskilaboð um að von sé á pakka frá flutningafyrirtæki sem greiða þurfi fyrir líkt og sjá má hér að neðan:

Mikilvægt er að veita ekki upplýsingar um kortanúmer eða aðgangsupplýsingar tengdum heimabanka í slíkum tilfellum. Hafi fólk veitt slíkar upplýsingar er brýnt að grípa strax til aðgerða til að láta loka greiðslukortum og breyta aðgangsorðum tengdum heimabanka eftir því sem við á.

Á vefnum Taktu tvær má finna frekari upplýsingar hvernig verjast má netsvikum. Á vefnum segir meðal annars:

„Helsta vörnin er að treysta ekki í blindni og bregðast ekki strax við fyrirmælum sem við fáum send. Sama hver aðgerðin er þá borgar sig alltaf að staldra við, taka tvær og fara í gegnum nokkur skref áður en ákvarðanir eru teknar varðandi háar fjárhæðir og viðkvæmar upplýsingar:

  • Skoðaðu vefslóðina í hlekk eða þegar á vefsíðuna er komið. Er slóðin traust? Eru nöfn eða fyrirmæli rétt skrifuð?
  • Sannreyndu greiðsluupplýsingar. Er upphæðin rétt? Er hún í réttum gjaldmiðli? Er hún að fara á réttan stað?
  • Hafðu samband við fyrirtæki eða stofnanir ef að vafi kviknar. Eitt símtal getur sparað þér háar fjárhæðir.
  • Er líklegt að einstaklingurinn, fyrirtækið eða stofnunin hafi samband við þig með þeim aðferðum sem um ræðir?
  • Taktu tvær mínútur og veltu fyrir þér: Er tilboðið of gott til að vera satt?“

Kynna má sér varnir gegn netsvikum á vefnum Taktu tvær.

Deila færslu