Skip to content

VOTTAÐIR FJÁRMÁLARÁÐGJAFAR FÁ ENDURNÝJUN Á VOTTUN

Um áramótin fengu 56 vottaðir fjármálaráðgjafar staðfestingu á að þeir hafi uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru um endurmenntun þeirra. Þeir sem fengu staðfestinguna eru úr hópum fyrstu útskriftarnema úr námi til vottunar fjármálaráðgjafa á árunum 2012 og 2013. Til þess að viðhalda vottuninni þurfa fjármálaráðgjafar að sýna fram á þriggja ára fresti að þeir hafi viðhaldið þekkingu og færni úr náminu með reglulegri endurmenntun. Endurnýjun vottunar þessa hóps gildir í þrjú ár frá ársbyrjun 2017.

Nám til vottunar fjármálaráðgjafa hófst árið 2011 en það var sett á laggirnar til að mæta kröfum viðskiptavina fjármálafyrirtækja um faglega ráðgjöf. Um er að ræða nám í fjármálaráðgjöf og þeir sem standast kröfur þess útskrifast sem vottaðir fjármálaráðgjafar.

Markmið vottunarinnar er að samræma þær kröfur sem eru gerðar til fjármálaráðgjafa og enn fremur að tryggja að þeir búi yfir nauðsynlegri þekkingu og færni í starfi. Verkefnið á sér norska fyrirmynd en slíkt vottunarferli hefur verið að ryðja sér til rúms í nágrannalöndunum á undanförnum árum. Að vottunarnáminu standa SFF, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Háskólinn á Bifröst, viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík og Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja. Frá því að vottunarnámið hófst hafa um 179 fjármálaráðgjafar hlotið vottun.

Deila færslu