Fjármálaþjónusta

Tilvist skilvirks fjármálageira er lykilþáttur í farsælli efnahagsstarfsemi og lífskjörum hverrar þjóðar. Hlutverki fjármálafyrirtækja í efnahagslífinu má að einhverju leyti líkja við starfsemi hjartans sem dælir súrefni til allra líkamshluta svo þeir starfi sem best.

Fjármálafyrirtæki sjá um að taka við fé og deila því út til allra kima efnahagslífsins þar sem þess er þörf. Þannig stuðla þau að því að hámarka skilvirkni í hagkerfinu svo það gangi sem best og lífskjör aukist yfir tíma. Aðildarfélög SFF eru af ólíkum stærðum og gerðum og sinna margskonar nauðsynlegri fjármálaþjónustu. Þar má nefna banka, félög í greiðslumiðlun, verðbréfafyrirtæki, tryggingafélög, sparisjóði, lánastarfsemi, eignastýringu og bakvinnslu. SFF hafa ásamt sínum aðildarfélögum og stjórnvöldum reynt að stuðla að því að umgjörð fjármálastarfsemi hér á landi leiði til að fjármálakerfið sé hagkvæmt, skilvirkt og traust.

Greiðslumiðlun

SFF halda utan um nokkra þætti greiðslumiðlunar hér á landi:

European Payments Council (EPC)

SFF eiga aðild að European Payment Council (EPC) sem eru alþjóðleg Samtök um 75 aðila sem aðallega eru bankar eða samtök banka í Evrópu. Hlutverk EPC er að stuðla að stuðla að samþættingu og þróun öruggrar greiðslumiðlunar í Evrópu. EPC stendur m.a. fyrir SEPA verkefninu (Single Euro Payments Area) sem miðar að því að gera greiðslumiðlun með evrur yfir landamæri innan Evrópu skilvirka og ódýra. Þótt SEPA snúist um greiðslur í evrum hafa bankar utan evrusvæðis einnig tekið þátt í verkefninu til að tryggja örugga greiðslumiðlun með evrur á öllu EES-svæðinu auk Sviss.

SWIFT

Samskiptakerfi fjármálastofnanna og fyrirtækja fyrir stöðluð og örugg fyrirmæli um allar tegundir bankaviðskipta. Fjármálastofnanir sem gerast notendur að SWIFT kerfinu geta einnig orðið hluthafar í fyrirtækinu. Markmiðið var að koma á sameiginlegri alþjóðlegri gagnavinnslu og samskiptagrunni fyrir alþjóðlegar fjármálastofnanir. Í dag eru eftirtalin fjármálafyrirtæki á Íslandi aðilar að SWIFT: Arion banki hf., Íslandsbanki hf, Kvika banki hf., Landsbankinn hf., Seðlabanki Íslands og einnig kortafyrirtækin Borgun hf. og Valitor hf. Fulltrúar frá þessum aðilum sitja í Lands- og Notendanefnd SWIFT  ( National Member and User Group). Þessi nefnd starfar samkvæmt reglum SWIFT. Landsnefnd starfar sem fulltrúi íslenskra SWIFT hluthafa gagnvart SWIFT og er einnig vettvangur fyrir umræður og samstarf með SWIFT. Notendanefnd er samstarfsnefnd íslenskra SWIFT notenda. Umsókn um aðild að SWIFT fer fram í gegnum heimasíðu SWIFT.

Umgjörð og Íslandsálag

Á undanförnum árum hafa verið gerðar grundvallarbreytingar á öllu regluverki sem gildir um fjármálastarfsemi hér á landi líkt og í öðrum ríkjum Evrópu, enda er ramminn utan um hana að mestu innleiddur í gegnum EES samninginn.

Eftir standa þó nokkur sérkenni um umgjörð fjármálaþjónustu hér á landi eins og hún hefur þróast á undanförnum árum. Í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið frá árinu 2018 voru þrjú atriði nefnd sérstaklega og kölluð einu nafni Íslandsálagið.

Í fyrsta lagi er það smæð hagkerfisins og íslenskra fjármálafyrirtækja sem takmarki möguleika til stærðarhagkvæmni innlendra fjármálafyrirtækja til jafns við það sem viðgengst í fjölmennari ríkjum. Í öðru lagi eru hér á landi mun hærri sértækir skattar á fjármálafyrirtæki en í nágrannalöndunum sem hækka kostnað við að veita fjármálaþjónustu hér á landi og draga úr samkeppnishæfni. Í þriðja lagi hafa verulega háar eiginfjárkröfur í för með sér að eiginfjárhlutfall íslenskra banka er það hæsta í Evrópu. „Þessir þættir eru hluti af ytra umhverfi bankanna og því hafa þeir verið nefndir „Íslandsálag“ og hafa ekkert með skilvirkni í rekstri bankanna að gera,“ segir í Hvítbókinni.

Háir sértækir skattar

Í kjölfar fjármálahrunsins voru lagðir á nokkrir sérstakir skattar á innlend fjármálafyrirtæki, einkum þó banka. Upphaflega stóð til að skattarnir yrðu tímabundnir og var markmið þeirra m.a. að fjármálafyrirtæki tækju þátt í kostnaði hins opinbera við endurreisn fjármálakerfisins. Þeirri endurreisn lauk fyrir fjölda ára síðan og eiga þau rök því ekki lengur við. Skattarnir hafa fest sig í sessi og eru mun hærri en í nágrannaríkjum Íslands en í því samhengi má benda á að fjöldi ríkja leggja enga sérstaka skatta á banka. Sérstakir skattar á fjármálafyrirtæki hér á landi eru þrír:

  • Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki sem nemur 0,145% af skuldum þeirra umfram 50 milljarða króna, en sá skattur er jafnan nefndur bankaskattur.
  • Fjársýsluskattur sem nemur 5,5% af launagreiðslum fjármálafyrirtækja.
  • Sérstakur fjársýsluskattur sem nemur 6% af hagnaði fjármálafyrirtækja umfram 1 milljarð króna á ári.
  • Því til viðbótar greiða fjármálafyrirtæki og aðrir eftirlitsskyldir aðilar árlega gjald fyrir rekstur Fjármálaeftirlitsins (tæpir 3 milljarðar á ári) og þá greiða fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir einnig fyrir rekstur Umboðsmanns skuldara (um 300 milljónir á ári).

Skattarnir hafa ýmsar neikvæðar hliðarafleiðingar í för með sér. Fyrir viðskiptabankana hafa viðbótarskattarnir numið sem samsvarar um 20% af rekstrarkostnaði þeirra á ári en þar að auki greiða fjármálafyrirtæki aðra skatta líkt og önnur fyrirtæki hér á landi á borð við hefðbundinn tekjuskatt og tryggingagjald.

Þessir sérstöku skattar og gjöld leggjast ofan á annan rekstrarkostnað við að veita íslenskum almenningi og fyrirtækjum fjármálaþjónustu. Til viðbótar skekkja þessir skattar samkeppnisstöðu innlendra fjármálafyrirtækja gagnvart erlendri samkeppni og innlendum aðilum sem ekki búa við sömu skattbyrði og lúta ekki sömu kröfum um eftirlit. Þá rýra sérstakir skattar virði innlendra banka, sem eru nú að langmestu leyti í beinni og óbeinni eigu almennings í gegnum eignarhluti ríkisins og íslenskra lífeyrissjóða.

Nánar má lesa um áhrif sérstaka skatta á fjármálafyrirtæki hér:

Hnotskurn: Sérstakir skattar á íslensk fjármálafyrirtæki

Afkoma bankanna í evrópsku samhengi

Umræða um afkomu bankanna hefur um of tekið mið af hagnaði þeirra í krónum talið án þess að taka tillit til eigna, skulda og eigin fjár sem liggja að baki rekstrinum. Hagnaður í krónum segir oft takmarkaða sögu ef hann er ekki settur í samhengi við undirliggjandi starfsemi. Erfitt er t.d. að segja mikið til um hvort rekstur fyrirtækis sem skilar 100 milljón króna hagnaði gangi vel eða illa án þess að hafa meiri upplýsingar. Ef um fámennan vinnustað er að ræða kann afkoman að vera með ágætum en þætti sennilega fremur döpur hjá stóru alþjóðlegu fyrirtæki. Sú leið sem alla jafna er notuð til að bera saman afkomu fyrirtækja, sér í lagi banka, er að skoða arðsemi eigin fjár, þ.e. hagnaður ársins í hlutfalli við það eigið fé sem hluthafar hafa bundið í rekstrinum. Með því móti má þannig taka tillit til umfangs rekstrar og bera saman afkomu milli bæði atvinnugreina og landa.

Arðsemi eigin fjár undir meðaltali Evrópu

Sé arðsemi eigin fjár íslenska bankakerfisins borin saman við önnur Evrópulönd sést að arðsemin hér á landi hefur verið undir meðaltali Evrópu undanfarin ár.

Arðsemi íslenska bankakerfisins var að meðaltali 7,8% á árunum 2018-2023 en 9,2% að meðaltali í 28 Evrópulöndum samkvæmt gögnum Evrópska bankaeftirlitsins EBA. Af þessum 28 löndum var Ísland í 17. sæti. Eigendur íslenskra banka báru því minna úr býtum en eigendur banka í Evrópu að meðaltali.

Raunarðsemin ein sú lægsta í Evrópu

Arðsemin hér að ofan tekur þó ekki tillits til ólíks verðbólgustigs milli landa sem hefur áhrif á raunarðsemi sem er þegar öllu er á botninn hvolft sú arðsemi skiptir viðkomandi hluthafa máli. Ef arðsemi eigin fjár er 10% á ári en verðbólga er einnig 10% fæst engin raunávöxtun. Ef arðsemi eigin fjár er 10% en verðbólga einungis 2% fær hlutafjáreigandinn eitthvað sem kalla má haldbæra arðsemi eða raunarðsemi upp á 8%.

Sé raunarðsemi íslenska bankakerfisins borin saman við raunarðsemi bankakerfa annarra Evrópulanda kemur íslenska bankakerfið enn verr út en ef horft er til nafnarðsemi. Á árunum 2018 til 2023 var Ísland í 25. sæti af 28 löndum og því einungis bankakerfi þriggja landa með verri raunarðsemi en Ísland. Raunarðsemi íslenska bankakerfisins var að meðaltali 2,5% en 5% að meðaltali hjá Evrópulöndunum 28.

Ljóst er að verulega stór hluti af skýringunni á minni arðsemi hér á landi en í Evrópu má rekja til bæði hærri sértækra bankaskatta hér á landi og strangari eiginfjárkrafna en gengur og gerist að jafnaði í Evrópu.