Vátryggingar

Vátryggingar eru óhjákvæmilegur hluti af fjármálum fólks og fyrirtækja í þróuðum samfélögum í dag bæði vegna lögbundinna skyldutrygginga en einnig valkvæðra trygginga þar sem tryggingartaka er frjálst að velja hvort hann vilji tryggja sig eða ekki. Á vátryggingarmarkaðnum hér á landi starfa nú fjögur innlend frumtryggingafélög, VÍS, TM, Sjóvá og Vörður en auk þess eru erlend tryggingafélög að bjóða upp á vissar tegundir trygginga hér á landi. Alls starfa um 600 manns hjá fyrirtækjunum fjórum. Á Íslandi er einnig til staðar opinber stofnun sem hefur það hlutverk að vátryggja verðmæti gegn náttúruhamförum og heitir hún Náttúruhamfaratrygging Íslands.

Lögmál stóra talna

Í sinni einföldustu mynd starfa vátryggingafélög með því að safna iðgjöldum frá vátryggðum einstaklingum og fyrirtækjum. Þessum iðgjöldum er ætlað að standa straum af útgreiðslu vegna tjóna framtíðarinnar. Vátryggingafélög meta áhættu og ákvarða iðgjaldaupphæðir út frá líkum á því að tjón eigi sér stað. Iðgjöld þurfa því að standa a.m.k. undir væntum tjónum í framtíðinni. Arðsemi tryggingafyrirtækja byggist á því að hagnast á muninum milli innheimtra iðgjalda og greiddra bóta. Því til viðbótar verða til fjárfestingartekjur á milli þess að iðgjöld séu greidd og tjón gerð upp.

Lögmál stórra talna (e. law of large numbers) er lykilatriði í rekstri tryggingafyrirtækja. Það felur í sér að með auknum fjölda vátryggðra einstaklinga eða eigna verður áhættudreifing nákvæmari og spár um tjón verða áreiðanlegri. Þetta lögmál gerir vátryggingafélögum kleift að ákvarða iðgjöld og mögulegt tjón með meiri vísindalegri nákvæmni. Þegar stærri hópur er vátryggður, dreifist áhættan jafnar og óvissuþættir minnka, sem leiðir til stöðugri og hagkvæmari reksturs. Þannig stuðlar lögmál stórra talna að fjárhagslegum stöðugleika og áreiðanleika í vátryggingageiranum, bæði fyrir vátryggingafyrirtæki og viðskiptavini þeirra. Fleiri tryggingartakar eru einnig líklegri til þess að leiða til þess að hver þeirra greiði lægri iðgjöld.

Afkoma tryggingafyrirtækja sveiflast yfir tíma

Afkoma tryggingafyrirtækja sveiflast rétt eins og afkoma í öðrum fyrirtækjarekstri. Það sem helst sveiflar afkomunni er annars vegar samsetning tjóna og iðgjalda og hins vegar afkoma af fjármálaeignum. Ef tjónin eru minni en í meðalári eða góð afkoma er af fjárfestingum s.s. vegna hækkunar á hlutabréfamörkuðum er hagnaður meiri en í meðalári. Ef hins vegar koma vond tjónaár eða afkoma af fjárfestingum er slök t.d. vegna þess að hlutabréfamarkaðir lækka verður afkoman verri en alla jafna.

Sá mælikvarði sem oftast er notaður til að meta afkomu af vátryggingastarfsemi er nefnt samsett hlutfall. Samsett hlutfall er samanlagður tjónakostnaður, endurtryggingakostnaður og rekstrarkostnaður af vátryggingahluta starfseminnar sem hlutfall af iðgjöldum.

Ef samsett hlutfall er undir 100% þá er afgangur af vátryggingarekstrinum en tap ef hlutfallið er yfir 100%.

Tjón geta komið í kippum í stað þess að verða jafnt og þétt. Gott dæmi um þetta eru sveiflur í tjónum vegna ökutækjatrygginga. Þar geta t.d. snjóþungir vetur og mikil hálka leitt til mikilla og umfangsmikilla tjóna en séu veturnir mildari verða tjónin færri og minni. Þá er oft fylgni milli vaxandi efnahagsumsvifa og vaxandi slysatíðni, þannig fjölgar slysum oftar en ekki þegar umferð á vegum eykst í efnahagsuppsveiflu.

Dæmi um hve sveiflukennd vátryggingastarfsemi getur verið má horfa til áranna 2021 og 2022 sem skiluðu annars vegar bestu og hins vegar verstu afkomu af vátryggingastarfsemi hér á landi í yfir áratug. Fyrra árið var hagstætt ár tjónalega séð samhliða uppgangi á verðbréfamörkuðum sem skilaði góðri afkomu af fjárfestingastarfsemi. Þetta snerist svo við árið 2022, þegar verð bæði á hlutabréfum og skuldabréfum lækkaði og tjón jukust samhliða þannig að afkoma tryggingafélaganna á föstu verðlagi hefur ekki verið lægri í 12 ár.

Vátryggingarekstur er því sveiflukenndur og mikilvægt að vátryggingafélög standi vel þannig að þau hafi getu til að styðja við viðskiptavini sína þegar stór áföll dynja á. Íslensk tryggingafélög greiða árlega út umtalsverðar fjárhæðir í tjónabætur til sinna viðskiptavina, en fjárhæðin nam um 65 milljörðum króna árið 2022, samkvæmt gagnagrunni OECD.

Jákvæð áhrif í gegnum fjárfestingar

Vátryggingafélög hafa ekki bara jákvæð áhrif með því að verja fólk og fyrirtæki fyrir skaða heldur hafa þau um leið jákvæð áhrif á efnahaginn í gegnum fjárfestingar sínar. Þau taka þannig þátt í að fjármagna íslenskt atvinnulíf og samfélag í gegnum fjárfestingu í hlutabréfum og skuldabréfum fyrirtækja og hins opinbera. Þá er jákvæð afkoma af fjárfestingum tryggingafélaga alla jafna nátengd farsæld þeirra fyrirtækja sem tryggingafélög hafa fjárfest í. Árið 2024 voru fjárfestingaeignir íslenskra tryggingafélaga alls um um 165 milljarðar króna.

Valkvæðar og lögbundnar tryggingar

Vátryggingar eru ýmist valkvæðar eða lögbundnar. Lögbundnar tryggingar sem snúa að almenningi á Íslandi varða ökutæki og fasteignir. Um er að ræða lögbundna ökutækjatryggingu og brunatryggingu á fasteign en iðgjald til Náttúruhamfaratryggingar Íslands er hluti af iðgjaldi vegna brunatryggingar fasteignar. Þá er slysatrygging launþega lögbundin samkvæmt kjarasamningum en svo má einnig finna tryggingaskyldu vítt og breytt í lögum í tengslum við ýmsa starfsemi. Vátryggingar eru að öðru leyti valkvæðar á Íslandi.

Lögbundnar ökutækjatryggingar eru fyrirferðamestar

Sé litið til upphæðar iðgjalda er stærsti vátryggingarmarkaðurinn hér á landi lögboðnar ökutækjatryggingar. Næststærsti iðgjaldaliðurinn er síðan almennar eignatryggingar og svo kaskótryggingar af ökutækjum. Það að horfa á iðgjöld að frádregnum tjónum segir þó ekki til um afkomu af vátryggingarstarfsemi þar sem eftir á að draga frá allan rekstrarkostnað af starfseminni.

Hlutfall vátrygginga af neysluútgjöldum ekki jafn lágt í 20 ár

Útgjöld íslenskra heimila til trygginga- og tryggingaþjónustu námu 20,1 milljarði króna á árinu 2022 samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands. Það gerir um 1% af heildarneysluútgjöldum íslenskra heimila. Þetta hlutfall hefur legið á mjög þröngu bili síðustu áratugina en frá árinu 1995 hefur þetta hlutfall verið 0,8-1,3%. Það fór hæst í 1,3% 2010 og 2011 eða á fyrstu árunum eftir hrun. Eftir það fór það fljótlega niður í 1,1% og þar um og yfir þangað til árið 2022 þegar hlutfallið fór niður í 1%. Svo lágt hafði það ekki verið í 20 ár en það var 1% árið 2002.

Sterkari staða neytenda

Á undanförnum árum hefur verið farið í aðgerðir til að styrkja stöðu neytenda á vátryggingarmarkaðnum, t.a.m. með breytingum á lögum um vátryggingasamninga árið 2015. Með breytingunum varð einstaklingum og öðrum vátryggingatökum heimilt að segja upp vátryggingarsamningi með mánaðar fyrirvara sem byrjar að líða næstu mánaðamót eftir að uppsögn barst vátryggingafélagi. Áður þurfti að bíða í heilt ár eftir „glugga“ til að segja upp samningnum en samningar framlengdust þá um eitt ár væri þeim ekki sagt upp a.m.k. mánuði áður en þeir runnu út. Þetta hefur aukið hreyfanleika viðskiptavina vátryggingafélaganna til muna þar sem þeir geta auðveldlega leitað tilboða í tryggingar sínar reglulega og tryggt með því virka samkeppni sér til hagsbóta. Auk þess fól innleiðing Solvency II tilskipunarinnar í sér aukna neytendavernd.

Tjónagrunnur vátryggingafélaga

Heimildir vátryggingafélaganna til að rannsaka og koma upp um vátryggingasvik eru takmarkaðar. Af þeim sökum var settur á stofn tjónagrunnur, að norrænni fyrirmynd. Grunnurinn er mikilvægt verkfæri til að greina óvenjulegar tjónstilkynningar s.s. hvort sama tjón hafi fengist greitt út hjá fleiru en einu tryggingafélagi, en slíkt flokkast sem fjársvik ef ekki er um réttmætar ástæður að ræða. Í grunninn eru skráð þau tjón sem tilkynnt eru til tryggingafélaganna að undanskildum tjónum sem falla undir líf- og sjúkdómatryggingar.

Samtök fjármálafyrirtækja eru rekstraraðili tjónagrunnsins en Creditinfo er vinnsluaðili hans. Þær upplýsingar sem eru skráðar í grunninn eru kennitala tjónþola, númer máls, tegund tryggingar, tegund tjóns, dagsetning tjóns, dagsetning skráningar í grunninn, nafn viðkomandi vátryggingarfélags, staðsetning tjóns og númer hins tryggða, svo sem ef um er að ræða ökutæki. Vel er hugað að réttindi aðila sem skráðir eru í grunninn og getur aðili fengið aðgang að yfirliti yfir uppflettingar um sig í grunninum í gegnum þjónustuvef Creditinfo.  

Algengar spurningar um tjónagrunn

Hver er tilgangur tjónagrunns?

Markmiðið með tjónagrunninum er að berjast gegn skipulögðum vátryggingasvikum hér á landi. Slík svik eru í auknum mæli stunduð með skipulögðum hætti. Sé miðað við áætlaða tíðni tryggingasvika í nágrannalöndum má gera ráð fyrir að svik hér á landi geti numið allt að nokkrum milljörðum króna á ári en erfitt er að fullyrða nákvæmlega um umfangið. Svik sem þessi leiða þó ótvírætt til hárra og óréttmætra útgjalda tryggingafélaga og ber almenningur þannig óbeint skaðann af tryggingasvikum. Vátryggingafélög og viðskiptavinir þeirra hafa því mikla hagsmuni af því að virkt eftirlit sé haft með réttmæti bótagreiðslna.

Vátryggingasvik eru alvarlegt vandamál og í leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins er gert ráð fyrir að vátryggingafélög setji sér verklag til að koma í veg fyrir slík svik. Reynslan af Norðulöndunum sýnir að tjónagrunnar séu eitt af mikilvægustu tækjunum í baráttu við vátryggingasvik en samskonar tjónagrunnur er í notkun í Noregi og Svíþjóð.

Hvaða tryggingafélög eiga aðild að tjónagrunninum?

Sjóvá-Almennar tryggingar, Tryggingamiðstöðin, Vátryggingafélag Íslands og Vörður tryggingar.

Er þetta leyfilegt samkvæmt persónuverndarlögum?

Tjónagrunnurinn er rekinn samkvæmt heimild Persónuverndar. Samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga má vinna með persónuupplýsingar sé það nauðsynlegt til að gæta lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi fólks, sem ber að vernda samkvæmt lögum, vegi þyngra. Að mati Persónuverndar er ljóst að þeir hagsmunir, sem tjónagrunninum er ætlað að þjóna, séu lögmætir.

Upplýsingum um hina skráðu í tjónagrunninum er haldið í lágmarki. Óheimilt er að skrá viðkvæmar upplýsingar í tjónagrunninn, s.s. um einstök heilsufarsleg atriði í tengslum við líkamstjón. Upplýsingum er kerfisbundið eytt úr tjónagrunninum þegar þeirra gerist ekki lengur þörf, í síðasta lagi þegar 10 ár eru liðin frá skráningu upplýsinganna.

Réttindi þeirra sem skráðir eru í grunninn eru vel tryggð, meðal annars með því að veita fólki aðgang að yfirliti yfir uppflettingar um sig í grunninum í gegnum þjónustuvef Creditinfo. Hægt er að gera athugasemdir við uppflettingar, krefjast leiðréttingar á upplýsingum séu þær ekki réttar eða jafnvel eyða upplýsingum ef málefnalegar ástæður liggja að baki.

Hinum skráða er ávallt tilkynnt um skráningar og uppflettingar og eru þær sýnilegar á þar til gerðum yfirlitum sem sem hinn skráði getur nálgast á sérstöku, öruggu vefsvæði, fengið afhent á skrifstofu Creditinfo eða fengið sent í bréfpósti á lögheimili sitt.

Hverjir geta skoðað upplýsingarnar í tjónagrunninum?

Mjög strangar reglur gilda um grunninn. Allar uppflettingar eru skráðar og rekjanlegar. Tryggt er að einungis þeir starfsmenn sem skrá tjón og vinna að tjónauppgjöri hafi aðgang að honum þegar tjón eru skráð í grunninn, þegar afgreiðslu máls er lokið og komið að því að greiða út bætur og þegar uppfletting er nauðsynleg vegna lögmætra hagsmuna við vinnslu málsins. Þarna geta sérfræðingar sem eru að vinna við úrlausn tjóna fengið aðgang að  einföldum upplýsingum, s.s.  bílnúmerum, dagsetningum tjónatilkynninga, tegund tryggingar og tegund tjóns þegar kennitölu tjónþola er flett upp.

Hvernig tengjast Samtök fjármálafyrirtækja tjónagrunninum?

Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) koma fram fyrir hönd tryggingafélaganna sem sameiginlegur fulltrúi þeirra í tengslum við rekstur tjónagrunnsins og vinnslu upplýsinga. SFF eru samningsaðili við vinnsluaðila grunnsins sem er Creditinfo. Þá hafa SFF séð um samskipti við Persónuvernd fyrir hönd félaganna.

Hvaða upplýsingar verður að finna í tjónagrunninum?

Í grunninn verða skráð tjón sem tilkynnt eru til tryggingafélaganna sem taka þátt í verkefninu, að undanskildum tjónum sem falla undir líf- og sjúkdómatryggingar.

Upplýsingum um hina skráðu í tjónagrunninum verður haldið í lágmarki. Í grunninum verður að finna kennitölu tjónþola, númer máls hjá viðkomandi ábyrgðaraðila, tegund tryggingar, tegund tjóns, dagsetningu tjóns, dagsetningu skráningar í grunninn, nafn viðkomandi vátryggingarfélags, staðsetningu tjóns og númer hins tryggða, svo sem ef um er að ræða ökutæki.

Óheimilt er að skrá frekari upplýsingar í tjónagrunn, s.s. um einstök heilsufarsleg atriði í tengslum við líkamstjón.

Hvað ef rangar upplýsingar rata í tjónagrunninn?

Hægt er að gera athugasemdir við uppflettingar, krefjast leiðréttingar á upplýsingum séu þær ekki réttar eða jafnvel eyðingar upplýsinganna ef málefnalegar ástæður liggja að baki.

Hvað verða upplýsingar lengi í tjónagrunninum?

Upplýsingum verður eytt úr tjónagrunni þegar þeirra gerist ekki lengur þörf í þágu tilgangs vinnslunnar, í síðasta lagi þegar 10 ár eru liðin frá skráningu upplýsinganna. Farið verður yfir grunninn a.m.k. einu sinni á ári í því skyni að eyða upplýsingum úr honum.

Hvernig verða upplýsingarnar aðgengilegar tryggingafélögunum?

Félögin fá aðgang að upplýsingunum í tjónagrunninum í gegnum þar til gerðan þjónustuvef sem rekinn er af Creditinfo. Öll gögn eru vistuð hjá Creditinfo en ekki tryggingarfélögunum.

Getur hvaða starfsmaður tryggingafélags sem er flett upp fólki í tjónagrunninum?

Með sérstakri aðgangsstýringu verður tryggt að eingöngu þeir starfsmenn tryggingafélaganna sem starfa að tjónauppgjöri hafi aðgang að grunninum. Í hvert skipti sem starfsmennirnir fletta upp upplýsingum í grunninum þurfa þeir að gefa upp tilefni uppflettingarinnar. Hægt verður að rekja allar aðgerðir í grunninum til einstakra starfsmanna félaganna.

Hvað ef starfsmaður verður uppvís að misnotkun upplýsinga úr tjónagrunninum?

Kveðið er á um í samningi á milli SFF, fyrir hönd tryggingafélaganna, og Creditinfo til hvaða viðurlaga verður gripið. Sé brotið metið léttvægt verður lokað á aðgang starfsmannsins en teljist það alvarlegt kann samningi um aðgang vátryggingafélagsins í heild sinni að tjónagrunninum að vera rift.

Hvernig veit fólk hvað verður skráð um það í grunninn?

Vátryggingatakar verða upplýstir í vátryggingaskilmálum um vinnslu persónuupplýsinga í tjónagrunni, þ.e. hverjir bera ábyrgð á vinnslunni, hver tilgangur hennar er, hvaða upplýsingar eru færðar í grunninn, hverjir hafa aðgang að þeim og hversu lengi upplýsingarnar verða varðveittar.

Sjá tryggingafélögin um að reka tjónagrunninn?

SFF bera ábyrgð á rekstri grunnsins en Creditinfo rekur grunninn og vinnur með upplýsingarnar samkvæmt leyfi frá Persónuvernd. Öll gögn eru vistuð hjá Creditinfo en ekki tryggingarfélögunum. Grunnurinn verður aðskilinn frá öðrum rekstri Creditinfo og er fyrirtækinu óheimilt að nýta sér upplýsingar úr honum í öðrum tilgangi en að stemma stigu við tryggingasvikum.

Hvernig er öryggi upplýsinganna tryggt?

Tryggingafélögin munu gera viðeigandi öryggisráðstafanir í samræmi við reglur um öryggi persónuupplýsinga og niðurstöður áhættumats. Félögin munu halda skrár yfir áhættumat og öryggisráðstafanir sem fram hafa farið og hefur Persónuvernd aðgang að þeim.

Er þessum upplýsingum miðlað í aðra grunna?

Nei, upplýsingarnar eru eingöngu geymdar í tjónagrunninum og verður þeim eytt úr honum þegar þeirra er ekki lengur þörf, í síðasta lagi innan tíu ára.

Hvernig er farið með upplýsingarnar innan tryggingafélaganna eftir að þær hafa verið sóttar í tjónagrunninn?

Upplýsingarnar eru eitt af mörgu sem skoðað er þegar ákvörðun er tekin um hvort ástæða sé til að kanna réttmæti ákveðins tjóns nánar. Til dæmis með því að sjá hvort sama tjón hafi verið tilkynnt til annars tryggingafélags. Einungis grunnupplýsingar koma fram í grunninum, s.s. kennitala, tegund tryggingar, tegund og dagsetning tjóns og nafn viðkomandi vátryggingafélags. Óheimilt er að skrá einstök heilsufarsleg atriði í tengslum við líkamstjón. Samkvæmt lögum er tryggingafélögunum óheimilt að nota upplýsingarnar úr tjónagrunninum frekar í öðrum tilgangi. Komi í ljós að upplýsingar úr grunninum séu misnotaðar á viðkomandi starfsmaður eða tryggingafélagið í heild sinni á hættu að lokað verði fyrir aðgang að grunninum.

Geta tryggingafélög flett fólki upp í grunninum þegar fólk íhugar að koma með viðskipti sín yfir til þeirra?

Nei, það er óheimilt að nota grunninn í markaðslegum tilgangi. Aðeins starfsfólk á tjónasviði tryggingarfélaganna hefur aðgang að grunninum og er því aðeins heimilt að fletta fólki upp í tengslum við tilkynningar á tjóni