Úrskurðanefndir
Úrskurðarnefnd um vátryggingamál
Nefndin fjallar um ágreining um bótaskyldu, þar með talið sök og sakarskiptingu milli neytenda og vátryggingafélaga. Félag sem stofnað var af Neytendasamtökunum og SFF árið 2022 heldur utan um nefndina, en áður var nefndin hýst hjá Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands.
Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki
Nefndin fjallar um ágreining viðskiptamanna við lánastofnanir (t.d. viðskiptabanka eða sparisjóð og lífeyrissjóði), verðbréfafyrirtæki, eða dótturfyrirtæki þessara fjármálafyrirtækja. Einnig fjallar nefndin um ágreining um yfirfærslur á milli viðskiptareikninga yfir landamæri. Félag sem stofnað var af Neytendasamtökunum og SFF árið 2022 heldur utan um nefndina, en áður var nefndin hýst hjá Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands.
Tjónanefnd vátryggingafélaga
Tilgangurinn nefndarinnar er að bjóða upp á skjótvirkt úrræði til að fá skorið úr því hvernig skipta beri ábyrgð samkvæmt umferðarlögum þegar ágreiningur rís um málsatvik, sök eða sakarskiptingu í tengslum við umferðaróhöpp. Óski aðili eftir eftir því að fá máli sínu vísað til nefndarinnar sér hlutaðeigandi vátryggingafélag um að vísa málinu til meðferðar sem og að tilkynna aðilum máls um niðurstöðu nefndarinnar. Álit tjónanefndar eru ekki bindandi. Vátryggingafélög skulu vekja athygli málsaðila á því að álit nefndarinnar eru ekki bindandi og að þeir eigi þess kost að skjóta ágreiningsmáli til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum eða eftir atvikum til almennra dómstóla.
Málsmeðferð nefndarinnar tekur að jafnaði ekki lengri tíma en eina viku og er málskot til tjónanefndar endurgjaldslaust. Nefndin starfar á vegum SFF og bera þau vátryggingafélög sem aðild eiga að samtökunum allan kostnað af rekstri hennar.