Ísland af gráa listanum
Í dag var Ísland fjarlægt af lista yfir ríki með ófullnægjandi varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, eða hinum svokallaða „gráa lista“. Ákvörðunin var tekin á aðalfundi Financial Action Task Force (FATF) sem er alþjóðlegur fjármálaaðgerðahópur ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.Vettvangsathugun fór fram hér á landi í lok september, þar sem staðfest var af hálfu sérfræðinga á vegum FATF að lokið hefði verið með fullnægjandi hætti við þær aðgerðir sem Íslandi var gert að grípa til í því skyni að komast af umræddum lista. Við sama tilefni var jafnframt staðreynt af hálfu umræddra sérfæðinga að til staðar væri ríkur pólitískur vilji hjá íslenskum stjórnvöldum til að halda áfram vinnu við að styrkja varnir Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.„Stjórnvöld hafa lyft grettistaki í allri umgjörð peningaþvættisvarna sem skilar sér í þessari mikilvægu niðurstöðu FATF í dag. Varnir gegn peningaþvætti hafa um alllangt skeið verið hluti af starfsemi fjármálafyrirtækja og beindust athugasemdir FATF því að öðrum þáttum peningaþvættisvarna hér á landi. Langtímaáhrif grálistunarinnar hefðu þó komið fram í starfsemi fjármálafyrirtækjanna og því er það fagnaðarefni að Ísland sé ekki lengur talið áhættusamt ríki. Þetta er þó stöðug vinna og mikilvægt að stjórnvöld og atvinnulíf gangi í takt og séu áfram á tánum til að varna því að fyrirtæki og félagastarfsemi séu misnotuð í glæpsamlegum tilgangi,“ segir Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, í tilefni áfangans.Sjá má fréttatilkynningu á vef Stjórnarráðsins hér.