Nauðsyn eða val?
Sýrslan Nauðsyn eða val – verðtrygging, vextir og verðbólga var kynnt 10. september 2012. Samtök fjármálafyrirtækja gefur út skýrsluna sem er skrifuð af þeim Ásgeiri Jónssyni, Sigurði Jóhanessyni, Valdimar Ármann auk Brice Benaben og Stefaniu Perrucci. Hér eftir fylgir samantekt skýrsluhöfunda um innihald hennar:
Í fyrra vetur ákvað stjórn Samtaka fjármálafyrirtækja að fá óháða sérfræðinga til að gera fræðilega grein fyrir ástæðum þess að verðtrygging er jafn fyrirferðamikil í íslensku hagkerfi og raun ber vitni, greina hvaða vandamál það hefur í för með sér, bera saman kosti og galla sem verðtryggð og óverðtryggð lánaform hafa í för með sér, gera samanburð á fyrirkomulagi í öðrum ríkjum og meta hvaða leiðir séu færar til umbóta. Með þessu vildi stjórn SFF reyna að stuðla að faglegri umræðu um verðtryggingu sem geti skilað raunhæfum leiðum til úrbóta.
Afrakstur þeirrar vinnu er ítarleg skýrsla um verðtryggingu hérlendis frá sjónarhóli lántaka, lánveitenda og þjóðhagslegum hagsmunum þar sem tekið er á ýmsum af þeim spurningum sem brunnið hafa í almennri umræðu.
Að mati skýrsluhöfunda er vandamálið sem fylgir notkun verðtryggingar hérlendis fjórþætt:
- Veiting Íslandslána, 40 ára verðtryggðra lána, skapar hvata fyrir of mikla skuldsetningu og ýtir undir lánabólur. Jafngreiðslufyrirkomulagið tryggir að nær ekkert er greitt af höfuðstól á fyrri hluta lánstímans
- Fjármögnun Íslandslánanna byggir á ríkisábyrgð er í raun niðurgreiðsla sem hvetur til skuldsetningar, auk þess sem ríkissjóður hefur þegar tekið á sig óhóflega fjárhagslega ábyrgð.
- Heimilin taka á sig of mikla þjóðhagslega áhættu með verðtryggðum lánum þar sem óvæntir verðbólguskellir færast allir á þeirra reikning.
- Verðtrygging hindrar framgang peningamálastefnu Seðlabankans, einkum þó leiðni stýrivaxta.
Til þess að leysa þessi vandamál leggja skýrsluhöfundar eftirfarandi til:
- Aukinn endurgreiðsluhraði fasteignalána.
- Afnám ríkisábyrgðar á lánaviðskiptum.
- Þjóðhagslegar varúðarreglur.
- Aukið vægi breytilegra nafnvaxta (þ.e. óverðtryggðra lána á breytilegum vöxtum).
Eins og fram kemur í skýrslunni þá fela þessar fjórar tillögur hér að ofan fela það í rauninni í sér að veitingu Íslandslána sé hætt. Raunar er líklegt að slíkum lánum sé í raun sjálfhætt að mestu leyti um leið og ríkisábyrgð á fjármögnun þeirra fellur niður þar sem þau fela í sér mikla áhættu bæði fyrir lántaka og lánveitanda, eins og skýrt hefur komið í ljós á síðustu fjórum árum. Að mati höfunda er ekki líklegt að skarð verði fyrir skildi við þeirra brotthvarf. Þegar litið er til framtíðar er mjög líklegt að fjölbreytni í lánakostum eigi eftir að vaxa mikið og fjármálafyrirtæki eigi eftir að leggja áherslu á einstaklingsmiðaðar lausnir í lánamálum, sem jafnframt minnka líkurnar á því að skuldavandræði endurtaki sig hérlendis. Jafnframt telja skýrsluhöfundar nauðsynlegt að taka til endurskoðunar uppgjörsreglur lífeyrissjóðanna, einkum 3,5% tryggingarfræðilegan uppreikning á skuldbindingum þeirra sem á sér litla eða enga stoð í hagrænum rökum.
Um höfundana:
Höfundar eru Ásgeir Jónsson Ph.D., lektor við Hagfræðideild HÍ, Sigurður Jóhannesson Ph.D., sérfræðingur á Hagfræðistofnun og stundakennari við hagfræðideild HÍ, Valdimar Ármann M.Sc., sjóðsstjóri hjá GAMMA og stundakennari við hagfræðideild HÍ, og Brice Benaben M.Sc., fyrrum yfirmaður verðbólgudeildar Deutsche Bank, ásamt Stefaniu Perrucci Ph.D., fyrrum sjóðsstjóra hjá Morgan Stanley.