Annað árið í röð þar sem vaxtatekjur heimila voru meiri en vaxtagjöld

Vaxtatekjur íslenskra heimila námu á síðasta ári 199,2 milljörðum króna og jukust þær um 59 milljarða króna milli ára eða 42%. Vaxtagjöld þeirra námu hins vegar 120,8 milljörðum króna og jukust um 11,1 milljarð króna milli ára eða 10,1%. Vaxtatekjur jukust því hlutfallslega mun meira en vaxtagjöld. Vaxtatekjur voru 78,3 milljörðum króna meiri en vaxtagjöld og hefur mismunurinn ekki mælst meiri að raunvirði síðan árið 2008 þegar hann var 130,5 milljarðar króna. Árið í fyrra var annað árið í röð þar sem vaxtatekjurnar mældust meiri en vaxtagjöldin en frá og með árinu 2010 til og með 2022 voru vaxtatekjurnar ávallt minni en vaxtagjöldin.
Mismunur á útláns- og innlánsvöxtum dregst saman
Hluti af skýringunni á þessari þróun liggur í því að mismunur á inn- og útlánsvöxtum til íslenskra heimila hefur verið að dragast saman á síðustu árum. Sem dæmi dróst mismunur á útlánsvöxtum og innlánsvöxtum til heimila og fyrirtækja saman um 1,3 prósentustig milli 2019 og 2023 og var það mesti samdrátturinn í Evrópu. Hjá fjölda landa var þessi vaxtamunur að aukast en ekki dragast saman eins og hér á landi. Mismunur á útláns- og innlánsvöxtum nam 2,2% árið 2023 og sé litið til annarra Evrópulanda var einungis hægt að finna tvö lönd, Frakkland og Þýskaland, þar sem mismunurinn var minni.