Sigurvegarar Fjármálaleikanna hringdu Kauphallarbjöllinni
Bjöllum Nasdaq kauphalla var hringt víða um heim í síðustu viku og þar á meðal á Íslandi í tilefni af alþjóðlegri fjárfestaviku 7. til 11. október. Í ár hringdu ungmenni sem unnið hafa Fjármálaleikana, landskeppni grunnskólanna í fjármálalæsi, bjöllunni hér á á landi, en keppnin er haldin af fræðsluvettvanginum Fjármálaviti, sem Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu (SFF) halda úti með stuðningi frá Landssamtökum lífeyrissjóða.
Markmiðið með fjárfestavikunni er að vekja athygli á mikilvægi fjárfestaverndar og fræðslu fyrir almenning um fjárfestingar og sparnað.
Ungmennin voru þau Marinó Máni Harðarson, Dagur Thors, Soffía Hrönn Hafstein og Kristján Oddur Kristjánsson en þau fóru með sigur af hólmi í Fjármálaleikunum síðustu tvö ár og tóku í kjölfarið þátt í Evrópukeppni í fjármálalæsi í Brussel sem haldin er af Evrópsku bankasamtökunum (EBF).
Öll börn eigi rétt á að læra um fjármál
„Það er afar mikilvægt að öllum börnum sé gefinn kostur á að byggja upp heilbrigðan fjárhag. Því höfum við talað fyrir því að kennsla í fjármálum verði hluti af skyldunámi í grunnskólum. Bakland barna eða skólahverfi eiga ekki að ráða hér úrslitum. Öll börn verða að hafa tækifæri til að læra um fjármál,“ segir Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SFF. Heiðrún bendir á að nýleg könnun Gallup sýni að aðeins 11% af ungmennum hefðu fengið fjármálafræðslu í grunnskóla.
„Ungt fólk kallar eftir fræðslu og þekkingu um fjármál. Við skynjum skýrt að upplýsingamiðlun í þeim efnum er þarft og þakklátt verkefni sem við styðjum í verki. Klingjum því klukkum í nafni baráttunnar fyrir því að fjármálafræðsla og fjármálalæsi verði sjálfsögð námskrárefni í grunnskólakerfinu,“ segir Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.
Skilningur á fjármálum fólki mikilvægur
„Góður skilningur á fjármálum getur hjálpað fólki að ná betri tökum á eigin fjárhag og taka upplýstar ákvarðanir um og sparnað,“ segir Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland.
„Verðbréfamarkaðurinn gegnir stóru hlutverki í þessum efnum sem vettvangur sem hefur beint og óbeint áhrif á fjárhag okkar. Aukin þekking á honum leiðir til ígrundaðri fjárfestinga og styrkir atvinnu- og efnahagslífið,” segir Magnús.
Gefið kennurum og nemendum 18 þúsund bækur um fjármál einstaklinga
Markmið Fjármálavits er að stuðla að bættu fjármálalæsi ungmenna og styðja kennara í grunn- og framhaldsskólum í kennslu um fjármál, meðal annars með fríu námsefni og öðrum viðburðum tengdum fjármálalæsi. Á undanförnum árum hefur Fjármálavit gefið kennurum og nemendum sem þess óska um 18.000 bækur um fjármál einstaklinga.