Fjármálaleikarnir farnir af stað - um tvö þúsund nemendur keppa í fjármálalæsi

Fjármálaleikarnir, landskeppni grunnskóla í fjármálalæsi, hófust í gær og standa til 24. mars næstkomandi. Hátt í tvö þúsund nemendur í grunnskólum um land allt hafa undanfarin ár keppt í Fjármáleikunum sem haldnir eru í áttunda sinn í ár. Fræðsluvettvangurinn Fjármálavit, sem SFF heldur úti með stuðningi Landssamtaka lífeyrissjóða, stendur fyrir keppninni. Sigurskólinn mun senda tvo nemendur og kennara í Evrópukeppnina í fjármálalæsi sem fram fer í Brussel í maí.
Af því tilefni var rætt við Kristínu Lúðvíksdóttur, verkefnastjóra Fjármálavits, á Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær. Kristín benti á að keppnin hafi reynst góð leið til að vekja áhuga ungs fólks á sínum persónulegu fjármálum. Það skipti máli enda hafi rannsóknir til að mynda sýnt að ungt fólk með skilning á grunnhugtökum fjármála sé ólíklegra en ella til að lenda í fjárhagsvandræðum og safna upp skuldum. Þá skipti hugarfarið einnig máli en ekki bara skilningur á helstu hugtökum, til að mynda að beita skynsemi í sínum fjármálum.
Í dag sé misjafnt hve mikið pláss fjármálalæsi fær í skólum landsins. Kristín minnti þó á að kennarar um land allt vinni mjög gott starf á sviði kennslu í fjármálalæsi. Fjármálavit hafi reynt að gera það sem það geti til að styðja við kennsluna með því að gefa námsbækur, námsefni og halda námskeið fyrir kennara. Það sem oftar en ekki sé nefnt sem standi því fyrir þrifum að bjóða nemendum kennslu í fjármálalæsi sé tímaskortur, til að mynda að fjármálalæsi fái ekki nægt pláss í aðalnámskrá.
Kristín og Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SFF, skrifuðu einnig pistil á Vísi nýlega í tilefni af leikunum og hvöttu um leið til þess að fjármálalæsi fengi meira pláss í skólakerfinu. „Það að skiptir máli enda reynir á þekkingu á fjármálum þegar farið er út í lífið, til að mynda þegar kemur að launum, sparnaði, lántöku, tryggingum eða kaupum á húsnæði. Mistök snemma í fjármálum geta verið dýr og reynst erfitt að vinna sig út úr, því er mikilvægt að ungt fólk læri snemma um fjármál“ bentu Heiðrún og Kristín á.