110 milljarðar til ríkis og lífeyrissjóða frá bönkunum

Tekjur ríkisins, sveitarfélaga og lífeyrissjóða af rekstri viðskiptabankanna á síðasta ári, þ.e. Íslandsbanka, Landsbankanum, Arion banka og Kviku banka námu ekki undir 110 milljörðum króna miðað við áætlaðar skattgreiðslur vegna reksturs síðasta árs og boðaðan arð til hluthafa og endurkaup hlutabréfa en ríkið og lífeyrissjóðir eiga um 75% hlut í bönkunum.
Ríkið og lífeyrissjóðir aðaleigendur bankanna
- Áætla má að tekjur ríkis og sveitarfélaga hafi numið vel yfir 80 milljörðum króna á síðasta ári af rekstri bankanna fjögurra. Þar af nema áætlaðir álagðir skattar á bankanna um 47 milljörðum króna í fyrra, en sértækir skattar og gjöld á bankana fjóra, sem ekki eru lagðir á aðrar atvinnugreinar, nema um 19 milljörðum króna. Við þetta bætast arðgreiðslur og skattar tengdar launagreiðslum til starfsmanna til viðbótar við liði á borð við fasteignagjöld.
- Vænta má þess að íslenska ríkið fái um 24 milljarða í formi arðgreiðslna frá Íslandsbanka og Landsbankanum og lífeyrissjóðir fái um 25 milljarða miðað við boðaðar arðgreiðslur og endurkaup bankanna fjögurra.
- Sé horft í óbeina hlutdeild í hagnaði bankanna í fyrra má áætla að samtals sé hlutur ríkisins og lífeyrissjóða um 72 milljarðar króna. Þar af er hlutur ríkisins um 48 milljarðar og lífeyrissjóða um 24 milljarðar. Hagnaðurinn er þó ekki allur greiddur út til hluthafa enda þurfa bankar til að mynda á eigin fé að halda til að mæta framtíðarútlánavexti og annarri uppbyggingu á rekstrinum.
- Hlutdeild ríkisins í eigin fé Íslandsbanka og Landsbankans er yfir 400 milljarðar og hlutdeild lífeyrissjóðanna í eigin fé bankanna er yfir 200 milljarðar króna. Samtals eiga ríkið og lífeyrissjóðir með yfir 600 milljarðar af um 850 milljarða eigin fé bankanna fjögurra um síðustu áramót. Þá hefur ríkið mótað sér stefnu um hve mikilli arðsemi bankar í eigu ríkisins eigi að skila en arðsemismarkmið banka í ríkiseigu, Íslandsbanka og Landsbankans er 10% á eigin fé.
Fámenn atvinnugrein en háar skatttekjur á starfsmann
- Um fámenna atvinnugrein er að ræða í hlutfalli við hagnað og eignir en starfsmenn bankanna fjögurra eru um 2.700 sem samsvarar rúmlega 1% af störfum á vinnumarkaði eða tæplega 2% af störfum á almennum vinnumarkaði en bankarnir stóðu undir um 15% af álagningu lögaðila árið 2023.
- Beinar tekjur ríkisins af bönkunum deilt niður á hvern starfsmann bankanna nema yfir 30 milljónum króna að meðtöldum arðgreiðslum. Samkvæmt skýrslu sem ráðgjafafyrirtækið Intellecon vann fyrir Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu í fyrra voru tekjur ríkissjóðs á starfsmann banka allt að 5 til 6 sinnum hærri en í ákveðnum innlendum atvinnugreinum.
Hærri skattar en í nágrannaríkjunum en lakari afkoma
- Í skýrslu Intellecon er einnig bent á að skattar á íslenska bankakerfið eru mjög háir hér á landi sé horft til annarra Evrópulanda. Þannig greiddu íslenskir bankar tvö til þrefalt hærri skatta en að meðaltali í ESB og á hinum en Norðurlöndunum sé miðað við skatta í hlutfalli við áhættuvegnar eignir.
- Á sama tíma og íslensku bankarnir búa við hærri skattbyrði leiðir skýrsla Intellecon í ljós að arðsemi eigin fjár íslensku bankanna hafi að jafnaði verið lægri undanfarin ár en gengur og gerist víða í atvinnulífinu hér á landi og hjá bönkum í flestum öðrum Evrópuríkjum.
- Sértækir skattar eru mun umfangsmeiri og víðtækari en í nágrannalöndunum samkvæmt skýrslu Intellecon. Ísland er t.a.m. eitt Norðurlandanna með þrjá sértæka skatta. Danir og Norðmenn eru með tvo sértæka skatta, Svíþjóð einn og FInnland engan.
- Bent hefur verið á að skattarnir skekki samkeppnisstöðu við erlend fjármálafyrirtæki sem ekki búa við sömu skattbyrði og þar með samkeppnisstöðu hagkerfisins og um leið skekki það samkeppnisstöðuna við aðila innanlands sem ekki beri sömu gjöld en mikil samkeppni ríkir t.d. á innlendum húsnæðislánamarkaði þar sem lífeyrissjóðir eru umsvifamiklir.
Sértækir skattar hluti af Íslandsálaginu
- Sértæku skattarnir eru hluti af svokölluðu „Íslandsálagi“ en það hugtak var fyrst kynnt til leiks í Hvítbók um um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið árið 2018. Í skýrslu Intellecon kemur fram að vegna Íslandsálagsins, sem samanstendur af hærri sértækum sköttum, hærri bindiskyldu og hærri eiginfjárkröfum en í nágrannalöndunum kunni útlánsvextir íslenskra viðskiptabanka að vera allt að 0,96-1,15 prósentustigum hærri af algengum lánum en þeir væru ella. Þessi tala er sett fram með þeim fyrirvara að áhrifin komi einungis fram í útlánsvöxtum bankanna og er sú nálgun notuð til að afmarka áhrifin við einn mikilvægan þátt í rekstrinum. Tekið er fram að ákvörðun um vaxtakjör og önnur verðlagning, sé alltaf í höndum hvers lánveitenda fyrir sig. Þá kunni áhrifin að koma fram með öðrum leiðum s.s. niðurskurði kostnaðar eða þjónustu, minni arðgreiðslu til eigenda, lægri innlánsvöxtum og einnig geta áhrifin verið mismikil á útlánakjör einstakra banka. Þannig má ætla að áhrifin skiptist að einhverju leyti milli viðskiptavina fjármálafyrirtækjanna og eigenda þeirra og áhrifin séu ólík hvort sem um er að ræða innlánsvexti, útlánsvexti eða önnur kjör.
- Sé þetta Íslandsálag reiknað miðað við 50 milljóna króna lán kann það að nema allt að 480-575 þúsund krónum á ári.
Innlend fjármálafyrirtæki og eftirlitsskyldir aðilar greiða eftirfarandi sértæka skatta:
- Fjársýsluskattur: 5,5% skattur ofan á laun sem samsvarar því að fjármálafyrirtæki greiði um tvöfalt tryggingagjald.
- Sérstakur fjársýsluskattur: 6% viðbótartekjuskattur af hagnaði umfram einn milljarð króna og kemur til viðbótar við hefðbundinn 20% tekjuskatt.
- Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki: 0,145% skattur ofan á skuldir umfram 50 milljarða króna, sem stundum er nefndur bankaskattur en er í reynd einn af þremur bankasköttum.
- Eftirlitsgjöld til Fjármálaeftirlitsins og gjald vegna rekstrar embættis Umboðsmanns skuldara.