„Verða Facebook og Google keppinautar bankanna?“

Rætt var við Heiðrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra SFF, í tímaritinu Fjármál og ávöxtun undir fyrirsögninni „Verða Facebook og Google keppinautar bankanna?“. Í viðtalinu fer Heiðrún meðal annars yfir starfsumhverfi fjármálaþjónustu hér á landi og áhrif af mikilli grósku hvað varðar nýjar fjártæknilausnir og áhrif þess á fjármálaþjónustu og samkeppnisstöðu innlendra fjármálafyrirtækja.

Heiðrún benti meðal annars á ráðstefnuna Fjármálaþjónustu framtíðarinnar sem SFF hélt með Fjártækniklasanum í janúar þar sem kom fram að íslensk fjármálafyrirtæki væru almennt afar framarlega þegar kemur að tæknilausnum tengdum fjármálaþjónustu. Þá muni tæknin brjóta niður múra og hindranir og auka samkeppnina við fyrirtæki utan hefðbundinna fjármálafyrirtækja.

Tæknirisarnir vilja inn á fjármálamarkað

Heiðrún nefnir meðal annars erindi Benedikts Gíslasonar, bankastjóra Arion banka, á ráðstefnunni sem sagði frá könnun sem gerð var meðal aldamótakynslóðarinnar í Bandaríkjunum þar sem fram kom að stór hluti þeirra væri spenntari fyrir að heimsækja tannlækninn sinn en bankann og nokkur hluti aðspurðra sagðist áhugasamur um að fyrirtæki á borð við Facebook og Google sinntu allri bankaþjónustu fyrir sig. Jafnframt kom fram hjá Benedikt að tæknirisarnir og ný fjártæknifyrirtæki hefðu hug á að hasla sér frekari völl á sviðum sem hefðbundin fjármálafyrirtæki sinntu. Slíkt yrði óhjákvæmilega áskorun fyrir hin hefðbundnari fjármálafyrirtæki sem þyrftu þá að bregðast við með því að sinna núverandi viðskiptavinum enn betur.

Sértækir skattar, eiginfjárkröfur og samkeppnisstaða innlendrar fjármálastarfsemi

„Með aukinni tækni og samkeppni verður ekki komist hjá því að ræða það regluverk sem bankar á Íslandi búa við – eins og varðandi eiginfjárhlutfall – sem og þá sérskatta sem lagðir eru á íslenska fjármálageirann og skekkja samkeppnisstöðuna við útlend fyrirtæki,“ segir Heiðrún.

„Stóra málið er að allar aukaálögur og strangt regluverk á bankana skipta miklu máli þegar horft er til fjármálaþjónustu framtíðarinnar og þeirrar nýju tækni sem mun stórauka samkeppni við fyrirtæki utan hefðbundinna fjármálafyrirtækja – sem búa ekki við sams konar regluverk,“ bendir Heiðrún á viðtalinu.

Heilt yfir standi íslensk fjármálakerfi traustum fótum fjárhagslega. Regluverkið geri kröfu um hátt eiginfjárhlutfall og eigið fé bankanna fjögurra sé í kringum 850 milljarða króna.

110 milljarðar til almennings frá bönkunum

„Það er athyglisvert að sértækir skattar á banka og fjármálastarfsemi hér á landi eru meiri en gengur og gerist erlendis. Alls námu þessir skattar yfir 20 milljörðum króna árið 2023; skattar sem ekki eru lagðir á aðrar atvinnugreinar – og þessi skattar eru um 20% af rekstrarkostnaði bankanna.“

Heiðrún bendir á að hlutdeild fjármálafyrirtækja á almennum vinnumarkaði sé um 2% en hlutdeild þeirra í álögðum sköttum á lögaðila um 15%. „Ég hef bent á að tekjur ríkisins, sveitarfélaga og lífeyrissjóða af rekstri viðskiptabankanna á síðasta ári, þ.e. Íslandsbanka, Landsbankans, Arion banka og Kviku banka, hafi ekki verið undir 110 milljörðum króna miðað við áætlaðar skattgreiðslur vegna reksturs síðasta árs og boðaðan arð til hluthafa og endurkaup hlutabréfa en ríkið og lífeyrissjóðir eiga um 75% hlut í bönkunum. Þannig fer stór hluti arðgreiðslna til almennings með einum eða öðrum hætti. Þá má líka horfa til þess að margir einstaklingar eiga auk þess hlut í bönkunum ýmist beint eða í gegnum félög eða sjóði.“

Mikilvægt að fá snemma góðan grunn í fjármálæsi

Í viðtalinu segir Heiðrún einnig frá fræðsluvettvangnum Fjármálaviti, sem SFF hefur haldið úti með stuðningi Landssambands lífeyrissjóðanna. Lögð hefur verið áherslu á fjármálalæsi ungmenna í grunnskólum til að aðstoða þau við að skilja að allt kostar og mikilvægt sé að hafa aga og skipulag á eigin fjárhag. Fjármálavit hefur undanfarin ár gefið tæplega 19.000 námsbækur til nemenda og kennara sem þess óska. Árlega heldur Fjármálavit svokallaða Fjármálaleika í grunnskólunum og það hafi verið sérlega ánægjulegt að þau sem unnu leikana árið 2023 og 2024 hafi fengið tækifæri til að hringja Kauphallarbjöllunni hjá Nasdaq Iceland í tilefni af Alþjóðlegu fjármálalæsisvikunni sem haldin sé víða um heim. Tilefnið var að vekja athygli á mikilvægi fjárfestaverndar og fræðslu fyrir almenning um fjárfestingar og sparnað.

Tímaritið Fjármál og ávöxtun