Hvernig mun fjármálaþjónusta framtíðarinnar líta út?

Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu og Fjártækniklasinn stóðu nýverið fyrir ráðstefnu um Fjármálaþjónustu framtíðarinnar í Hörpu. Yfir 400 manns sóttu ráðstefnuna þar sem markmiðið var að kalla saman forystufólk úr ólíkum áttum til að reyna að ná utan um hvernig fjármálaþjónusta muni koma til með að þróast á komandi árum.
Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, reið á vaðið og fjallaði um ýmsar hliðar hagkerfisins sem myndast hefur innan og utan um tölvuleikinn EVE Onlinesem hann benti á að væri á marga mælikvarða stærri en íslenska hagkerfið. EVE Online heimurinn væri hins vegar í nokkurs konar gjaldeyrishöftum en CCP vinni að þróun nýs tölvuleiks, EVE Frontier, sem að sumu leyti megi líkja við heim án gjaldeyrishafta.
Hjálmar Gíslason, stofnandi og framkvæmdastjóri GRID, var næstur í pontu og fjallað um nýlega þróun á sviði gervigreindar og velti upp því hvert tæknin muni leiða okkur. Hann benti meðal annars á að fjárfesting sem OpenAI, Softbank og samstarfaðilar á sviði gervigreindar hefðu boðað á næstu árum væri tvöfalt hærri en upphæðin sem Bandaríkjamenn vörðu í að koma fyrstu mönnunum á tunglið. Þá hefðu nýlegar fregnir frá Kína um gervigreindarforritið Deepseek bent til þess að kostnaður af notkun og þróun gervigreindar geti verið mun lægri en áður var talið. Fyrsta iðnbyltingin hafi að miklu leyti falist í að vélar leystu vöðvaaflið af hólmi en með gervigreindarbyltingunni væri vélar að leysta hugaraflið af hólmi. Það kunni að hafa mikil áhrif til framtíðar á stóran hluta starfa sem við þekkjum í dag en um leið opna á ýmis ný tækifæri fyrir fyrirtæki.
Ragnhildur Gerisdóttir, forstjóri Reiknistofu bankanna, fjallaði í kjölfarið um greiðslukerfið á Íslandi og hvernig sennileg framtíðarþróun þess yrði og benti á möguleika til framfara í innlendu greiðslukerfi til viðbótar við tækifæri og hættur sem fælust í tækniþróuninni.
Kristján Ingi Mikaelsson, hjá Visku Digital Assets og stjórnarformaður Rafmyntaráðs, fjallaði um svokallaðar stöðugleikamyntir og benti á vaxandi umfang þeirra og tækifæri sem í þeim fælust á sviði greiðslumiðlunar. Þá lýsti Kristján Ingi yfir áhyggjum af umfangi regluverks sem ættað er frá Evrópusambandinu og Íslendingar innleiða í gegnum EES samninginn, til að mynda nýtt regluverk um gervigreind. Regluverkið væri til þess fallið að fæla nýsköpunarfyrirtæki á þessu sviði frá evrópska efnahagssvæðinu, þar með talið Íslandi.
Fyrsti framsögumaður eftir hlé var Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka. Í erindi sínu sagði Benedikt frá könnun sem gerð var meðal aldamótakynslóðarinnar í Bandaríkjunum þar sem fram kom að stór hluti þeirra væri spenntari fyrir að heimsækja tannlækninn sinn en bankann og nokkur hluti aðspurða áhugasöm um að fyrirtæki á borð við Facebook og Google sinnti allri bankaþjónustu fyrir sig.
Benedikt benti jafnframt á að tæknirisarnir og ný fjártæknifyrirtæki hefðu hug á að hasla sér frekar völl á sviðum sem hefðbundin fjármálafyrirtæki sinntu. Slíkt yrði óhjákvæmilega áskorun fyrir hin hefðbundnari fjármálafyrirtæki sem þyrfti að bregðast við með því að sinna núverandi viðskiptavinum enn betur.
Þá fjallaði Hannes Pétursson, tæknistjóri Jiko, um vegferð fyrirtækisins. Jiko rekur banka í Bandaríkjunum en uppbygging á tæknilegri hlið fyrirtækisins hefur verið unnin frá grunni á skrifstofum fyrirtækisins á Íslandi.
Síðust í fyrirlesararöðinni var Jónína Gunnarsdóttir, rekstarstjóri Blikk, sem velti upp hvernig greiðslumiðlun kynni að þróast á næstu árum og sagði frá vegferð fyrirtækisins, en Blikk hóf nýlega að bjóða neytendum og söluaðilum upp á nýja íslenska greiðslulausn.
Að lokum voru pallborðsumræður þar sem tóku þátt Sigríður Dís Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Greiðsluveitunnar, Ólöf Jónsdóttir, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs Íslandsbanka, og Hjálmar Gíslason hjá GRID en Gunnlaugur Jónsson, framkvæmdastjóri Fjártækniklasans, stýrði umræðunum og var einnig fundarstjóri á ráðstefnunni.
Horfa má á ráðstefnuna í heild í spilaranum hér að neðan:
Umfjöllun um ráðstefnuna í fjölmiðlum:
Morgunblaðið: Stöndum framarlega í fjártækni
Morgunblaðið: Næstu skref í fjártækni
Viðskiptablaðið: Myndir: Fjármálaþjónusta framtíðarinnar