Lægri arðsemi og tækifæri til að lækka Íslandsálagið

Rætt var við Heiðrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu, um afkomu íslensku viðskiptabankanna í Morgunblaðinu nýverið. Í frétt Morgunblaðsins kom fram að arðsemi eigin fjár íslensku bankanna hafi verið sú fimmta lægst meðal þrjátíu Evrópuþjóða í nýlegri samantekt frá Evrópska bankaeftirlitinu EBA. Heiðrún segir við Morgunblaðið að tölurnar sýni að afkoman hafi verið lakari en almennt viðgengst í bankarekstri í Evrópu, eins og raunin hafi verið undanfarin ár. Það hafi verið áskorun fyrir bankana að skila ávöxtun í samræmi við það eigið fé sem bundið er í rekstrinum og þá áhættu sem fylgir rekstrinum.

„Heilt yfir má þó segja að afkoma íslensku bankanna að undanförnu hafi verið viðunandi og í takt við markmið eigenda bankanna sem eru að stærstum hluta íslenska ríkið og lífeyrissjóðir. Það hefur verið vöxtur í útlánum til fyrirtækja enda fjölmörg tækifæri til fjárfestinga og uppbyggingar atvinnuvega hér á landi. Staða heimilanna hefur reynst sterkari en margir væntu á tíma hárra vaxta,“ segir Heiðrún og bætir við að það hafi verið jákvæð tíðindi að vextir væru teknir að lækka samhliða lægri verðbólgu en benda megi á að vanskil hafa verið minni en þau voru fyrir heimsfaraldurinn í gegnum allt hávaxtatímabilið.

Bankarnir að mestu í eigu almennings

Þá bendir Heiðrún á að þó umræðan um afkomu bankanna sé um margt skiljanleg í ljósi þess að um háar fjárhæðir sé að ræða þurfi að horfa á það í samhengi við það hve mikið eigið fé sé bundið í rekstri banka lögum samkvæmt. „Eigið fé viðskiptabankanna þriggja er yfir 700 milljarðar og þar af tilheyra yfir 500 milljarðar ríkinu og lífeyrissjóðum í gegnum eignarhald þeirra. Arðgreiðslur bankanna renna því að stærstum hluta til ríkisins annars vegar og lífeyrissjóðanna hins vegar,“ segir Heiðrún.

Sótt að hefðbundnu viðskiptalíkani banka

Heiðrún nefndi um leið á sótt sé að hefðbundnu viðskiptalíkani banka úr nokkrum áttum, eins og fjallað var um á ráðstefnu sem SFF héldu í nýlega með Fjártækniklasanum undir yfirskriftinni Fjármálaþjónusta framtíðarinnar. „Þar var bent á hvernig bæði ný fjártæknifyrirtæki og stóru erlendu tæknirisarnir sæktu nú að ýmsum þáttum fjármálaþjónustu sem bankar hefðu í gegnum tíðina sinnt. Það stuðlar að aukinni samkeppni og auknum fjölbreytileika í þjónustu sem eru góðar fréttir fyrir neytendur. Samkvæmt mælingum er hreyfanleiki íslenskra neytenda á fjármálamarkaði einna mestur hér í evrópskum samanburði sem er vísbending um mikla samkeppni og upplýsta neytendur,“ segir Heiðrún.

Tækifæri til að draga úr Íslandsálaginu

Þá birtist sérstaða Íslands þegar kemur að bankarekstri að nokkru leyti í svokölluðu Íslandsálagi sem fjallað var um í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið frá árinu 2018. Í skýrslu sem ráðgjafarfyrirtækið Intellecon vann á síðasta ári fyrir SFF kom fram að Íslandsálagið kynni að valda því að útlánsvextir hér á landi væru allt að 0,96%-1,15% hærri en ella miðað við gefnar forsendur. Ákvörðun um vexti væri þó ávallt í höndum hvers og eins lánveitanda og væri breytileg t.d. milli tegunda lána og yfir tíma. Í úttekt Intellecon er jafnframt tekið fram að áhrifin kunni einnig að koma fram með öðrum leiðum s.s. niðurskurði kostnaðar eða þjónustu, minni arðgreiðslu til eigenda, lægri innlánsvöxtum og einnig geti áhrifin verið mismikil milli einstakra banka sem taki hver fyrir sig ákvörðun um vaxtakjör á hverjum tíma. Í hinu svokallaða Íslandsálagi felast mun hærri sértækir skattar á banka en í nágrannalöndunum, hærri óvaxtaberandi bindiskylda og hærri eiginfjárkröfur, eins og fjallað er um í skýrslu Intellecon.

„Ný ríkisstjórn horfir til þess að færa Ísland nær Evrópusambandinu. Þá gefur augaleið að starfsumhverfi fjármálafyrirtækja hér á landi þarf að vera sambærilegt við það sem gerist í nágrannalöndum okkar. Stjórnvöld hafa nú þegar ýmis tækifæri til að stíga skref í þá átt með því að draga úr Íslandsálaginu og færa með því umgjörð fjármálaþjónustu hér á landi nær því sem tíðkast innan ríkja Evrópusambandsins,“ segir Heiðrún að lokum við Morgunblaðið.

Umfjöllun Morgunblaðsins:

Bankakerfið með eina minnstu arðsemi í Evrópu

Sótt að hefðbundu viðskiptalíkani banka