Ör tækniþróun í greiðslumiðlun og gjöld lækkað um 24% að raunvirði

Rætt var við Ingvar Haraldsson, greininga- og samskiptastjóra Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu, í kvöldfréttum RÚV nýverið um þróun mála í greiðslumiðlun hér á landi. Þar benti Ingvar á að valkostum í greiðslumiðlun hefði farið fjölgandi á undanförnum árum og sennilegt væri að þróunin myndi halda áfram miðað við þær fjártæknilausnir sem væru í þróun og hefðu þegar verið gefnar út, bæði hér á landi og alþjóðlega. „Miðað við tækniþróunina þá myndi maður halda að það væri líklegt að markaðurinn muni stuðla að því að þessum lausnum fjölgi á næstu árum.“
Ingvar benti á að þessi þróun ætti að stuðla að sterkari stöðu neytenda og raunar séu þegar ýmsar vísbendingar þess efnis.
Mikilvægt að markmið um öryggi og hagkvæmni náist
Þá var einnig komið inn á svokallað nýja innlenda greiðslulausn sem hefur verið til skoðunar af svokölluðum Framtíðarvettvangi, sem er á forræði Seðlabankans en er einnig skipaður fulltrúum fjármálafyrirtækja. Seðlabankinn hefur talið að slík lausn kynni að lækka kostnað og vera innlend varaleið í greiðslumiðlun. „Við deilum því með Seðlabankanum að öryggi og hagkvæmni í greiðslumiðlun séu mjög mikilvæg markmið,“ segir Ingvar í viðtalinu.
„Varðandi þessa lausn sem þú nefnir þá eru menn einmitt að vanda sig að greiningarvinnan sé áreiðanleg og að þessi markmið náist bæði um öryggi og hagkvæmni. Og sú vinna er, eftir því sem ég best veit, bara enn í gangi því það væri óheppilegt ef þau markmið nást ekki,“ segir Ingvar í viðtalinu.
Í því samhengi hefur verið bent á að það séu að lokum neytendur sem ráði með hvaða greiðsluleið þeir kjósi að nota í hvert skipti. Þá muni ný alfarið innlend greiðslulausn milli innlendra aðila ekki leysa núverandi alþjóðleg greiðslukort af hólmi. Íslendingar muni að óbreyttu áfram þurfa að nota alþjóðleg greiðslukort á ferðalögum erlendis og í viðskiptum við erlendar netverslanir og þá muni ferðamenn áfram nota alþjóðleg greiðslukort í viðskiptum hér á landi. Þá séu nokkrar innlendar varaleiðir þegar til staðar og hafi þeim fjölgað að undanförnu.
Gjöld vegna greiðslukorta lækkað um 24% að raunvirði
Í skýrslu starfshóps viðskiptaráðherra um gjaldtöku og arðsemi íslensku bankanna frá árinu 2023 kom fram að gjöld sem neytendur greiddu vegna greiðslukorta hefðu lækkað um 17% að raunvirði frá árinu 2018 samkvæmt mælingu Hagstofunnar og verð á bankaþjónustu lækkað um 15% að raunvirði á sama tímabili. Sú þróun hefur haldið áfram samkvæmt gögnum frá Hagstofunni og nemur lækkunin árin 2018-2024 um 24% að raunvirði þegar kemur að greiðslukortum og 18% að raunvirði þegar kemur að bankaþjónustu.
Innlendum og erlendum aðilum í greiðslumiðlun fjölgað nokkuð
Þá var bent á í nýjustu útgáfu ritsins Fjármálastöðugleiki, sem Seðlabankinn gefur út, hvernig bæði innlendum og erlendum aðilum á sviðum greiðslumiðlunar hefði farið fjölgandi hér á landi að undanförnu. Slíkt væri til þess fallið að auka samkeppni og bæta hag neytenda að mati Seðlabankans en um leið þyrfti að tryggja gegnsæi og öryggi í greiðslumiðlun.
„Á síðustu misserum hefur fyrirtækjum í greiðslumiðlun hér á landi fjölgað og erlendir aðilar hafa í auknum mæli komið inn á markaðinn. Lengi vel störfuðu hér aðeins tveir innlendir færsluhirðar sem lutu eftirliti hér á landi en nú eru þeir fjórir: Straumur í eigu Kviku, Landsbankinn, Rapyd og Teya. Einnig starfa nokkrir erlendir færsluhirðar hér á landi, m.a. Nets, Planet og InterCard sem lúta eftirliti í heimaríkjum sínum,“ sagði í riti Seðlabankans , og um leið bent á að fleiri erlend fyrirtæki veita líka aðra rafræna greiðsluþjónustu hérlendis s.s. Paypal, Revolut, Alipay, N26 og Euronet.
„Sú þróun að fleiri fyrirtæki starfi á innlendum greiðslumarkaði eykur samkeppni og getur haft jákvæð áhrif á hag neytenda s.s. með meiri fjölbreytileika og lægri kostnað,“ segir í Fjármálastöðugleika Seðlabankans.