Fleiri og hærri skattar á íslenska banka mannanna verk

Rætt var við Heiðrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu, í Morgunblaðinu, um tekjur ríkis, sveitarfélaga og lífeyrissjóða af rekstri viðskiptabankanna fjögurra á síðasta ári, Arion banka, Íslandsbanka, Landsbankans og Kviku banka. Í fréttinni er vitnað til samantektar SFF þar sem fram kemur fram að tekjur þessara aðila af rekstri bankanna í formi skattgreiðslna síðasta árs og boðaðs arðs og endurkaupa sem renna til ríkisins og lífeyrissjóða næmu ekki undir 110 milljörðum króna.

Heiðrún minnir á  að ríkissjóður og lífeyrissjóðir séu aðaleigendur bankanna og saman eigi þeir yfir 600 milljarða af ríflega 800 milljarðar eigin fé þeirra. Tölurnar sýni að íslensku bankarnir skili umtalsverðum fjárhæðum til samfélagsins, bæði í formi skatta og arðs til eigenda, sem að lokum séu mestu íslenskur almenningur. Heiðrún bendir einnig á að upphaflega hafi verið gert ráð fyrir því að stærsti hluti hinnar sértæku skattlagningar yrði tímabundinn eftir fjármálakreppuna. Hún segir að þessir skattar og gjöld séu bæði fleiri og umfangsmeiri en í nágrannalöndum og nema um 19 milljörðum króna í fyrra sem samsvari um 20% af rekstrarkostnaði bankanna.

Skökk samkeppnisstaða og Íslandsálagið

„Skattarnir skekkja samkeppnisstöðuna gagnvart stærri erlendum fjármálafyrirtækjum sem ekki bera sömu skattbyrði og þar með samkeppnishæfni Íslands,“ segir hún og bætir við að bankarnir keppi einnig innanlands við aðila sem ekki beri sömu skatta. Um leið og íslensku bankarnir búi við þyngri skattbyrði er arðsemi eigin fjár af rekstri íslensku bankanna að jafnaði lægri undanfarin ár en bæði í atvinnulífinu hér á landi almennt og hjá bönkum í flestum öðrum Evrópuríkjum.

Heiðrún bendir á að sértæku skattarnir séu hluti af svokölluðu „Íslandsálagi“, sem fyrst var fjallað um í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið árið 2018. Í Hvítbókinni voru skattarnir, ásamt óhagræði smæðarinnar og háum eiginfjárkröfum, nefndir sem þættir sem stuðli að hærri vaxtamun hér á landi en í nágrannaríkjunum. Í skýrslu Intellecon fyrir SFF var áætlað að „Íslandsálagið“ kynni að nema allt að 0,96-1,15 prósentustigum af algengum lánum. Heiðrún tekur þó fram að þessi tala hefði verið sett fram með þeim fyrirvara að áhrifin kæmu einungis fram í útlánsvöxtum og að ákvörðun um vexti og aðra verðlagningu væri alltaf í höndum hvers lánveitanda fyrir sig. Hún bætir við að áhrifin gætu einnig komið fram með öðrum hætti, t.d. með hagræðingu, lægri arðgreiðslu, samdrætti í þjónustu eða lægri innlánsvöxtum.

„Það eru til leiðir til að lækka skatta. Við ráðum ekki við ýmsa utanaðkomandi þætti, en aðrir þættir eru mannanna verk og hægt að breyta, t.d. með því að færa umhverfi okkar nær því sem gerist í samanburðarlöndunum,“ segir Heiðrún við Morgunblaðið.

Samantekt SFF: 110 milljarðar til ríkis og lífeyrissjóða frá bönkunum

Umfjöllun Morgunblaðsins