170 milljónir greiddar upp á hverjum degi
Hlutdeild bankanna eykst um helming og hlutdeild lífeyrissjóðanna tvöfaldast
Bankarnir hafa aukið hlutdeild sína umtalsvert á húsnæðislánamarkaði undanfarin ár. Árið 2013 var Íbúðalánasjóður stærsti lánveitandi húsnæðislána með 48% hlutdeild. Bankarnir komu þar á eftir með 39% og lífeyrissjóðir með 13%. Gerbreytt staða er nú uppi. Bankarnir hafa aukið sína hlutdeild um helming og lána nú 58% húsnæðislána. Lífeyrissjóðir hafa rúmlega tvöfaldað sína hlutdeild í 29% og hafa vaxið hraðast. Ekkert lát virðist vera á uppgreiðslum Íbúðalánasjóðs. Hlutdeild sjóðsins hefur lækkað um nærri þrjá fjórðu og stendur nú í 12%. Bankarnir bjóða uppá samkeppnishæfustu kjör óverðtryggðra lána sem nú standa til boða. Þá er greiðara aðgengi að húsnæðislánum banka þar sem að lán lífeyrissjóða standa einungis sjóðsfélögum þeirra til boða. Bankarnir bjóða einnig hærra veðhlutfall en lífeyrissjóðir.
Uppgreiðslur Íbúðalánasjóðs nema 471 mö.kr. frá og með árinu 2013
Frá og með árinu 2013 hafa bankarnir aukið húsnæðislán sín um 612 ma.kr. eða um 79% og lífeyrissjóðirnir um 376 ma.kr. eða 158%. Á sama tímabili nema uppgreiðslur hjá Íbúðalánasjóði 471 ma.kr. og hefur húsnæðislánasafn þeirra minnkað um 69%. Á umræddu tímabili eru um 2.770 dagar og nema uppgreiðslur Íbúðalánasjóðs því um 170 milljónum króna á hverjum degi. Uppgreiðslur sjóðsins eru í raun meiri en tölurnar gefa til kynna þar sem að sjóðurinn keypti íbúðalánasafn af Arion banka að andvirði um 50 ma.kr. á haustmánuðum árið 2019. Sá gjörningur fer í bækur Íbúðalánasjóðs sem aukning á húsnæðislánum. Sé leiðrétt fyrir því er óhætt að fullyrða að uppgreiðslur sjóðsins nemi vel yfir 500 mö.kr. tímabilinu. Megnið af útlánum sjóðsins eru verðtryggð og vegnir vextir afar ósamkeppnishæfir eða um 4,4%. Uppgreiðsluálag er á 130 ma.kr. af útlánum sjóðsins sem hefur að öllum líkindum spornað gegn enn hraðari uppgreiðslum.
*Breyting á húsnæðislánum heimila árið 2020 er til og með júlí