31 úrbótatillaga í átt að grænni framtíð

Ellefu atvinnugreinar afhentu Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra 332 tillögur að aðgerðum sem stuðla eiga að auknum samdrætti í losun atvinnugreina. Afhendingin fór fram á Grænþingi í Hörpu í gær, í tengslum við útgáfu Loftslagsvegvísa atvinnulífsins (LVA).  LVA er samstarfsverkefni atvinnulífs og stjórnvalda og var vinnan unnin á forsendum fyrirtækja í íslensku atvinnulífi með stuðningi frá vinnuteymi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.  

Samtök fjármálafyrirtækja ásamt aðildarfyrirtækjum okkar tóku þátt í vinnu við gerð Loftslagsvegvísis atvinnulífsins. Enda gegna fjármálafyrirtæki lykilhlutverki í loftslagsmálum út frá þeim óbeinu áhrifum sem starfsemi þeirra getur haft á atvinnulífið í tengslum við lánveitingar, fjárfestingar, vátryggingar og fleiri þætti.

Í loftslagsvegvísinum eru tilgreindar fjórar áskoranir sem fjármálafyrirtæki standa frammi sem stuðlað geta að því að markmið Íslands um 55% samdrátt í losun náist fyrir árið 2030. Áskoranirnar eru eftirfarandi:

  1. Samræma mat á fjármagnaðri losun og auka grænar lánveitingar og fjárfestingar
  2. Aukning forvarna gegn tjónum og hringrás tjónamuna
  3. Mat á áhættu tengdri loftslagsbreytingum
  4. Aukin fræðsla um loftslagsmál og græn fjármál

Alls er 31 úrbótatillaga nefnd sem fjármálafyrirtæki og stjórnvöld geta bæði hvort um sig og í sameiningu unnið að sem tengjast áskornunum fjórum.

Hægt er að kynna sér Loftslagsvegvísi atvinnulífsins og hlutverk fjármálafyrirtækja í vegvísinum hér.