Áfram tækifæri til að auka hagkvæmni og skilvirkni við eftirlit

Rætt er við Heiðrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja, í umfjöllun Viðskiptablaðsins í dag um þá reynslu sem komin er af sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins sem átti sér stað í ársbyrjun 2020.

Þar er bent á í greinargerð með frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra þegar málið var fyrst lagt fram á Alþingi hafi komið fram að ganga mætti út frá því að ýmis tækifæri sköpuðust til hagræðingar í sameinaðri stofnun. Meðal annars ætti slíks að geta gætt fljótlega hvað varðar ýmis gagnaskil frá eftirlitsskyldum aðilum og breytingu á eftirlitsgjaldi.

Einnig er rifjað upp að í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja um frumvarp um sameininguna árið 2019 hafi verið bundnar vonir við að með sameiningunni mætti straumlínulaga gagnaskil og lækka kostnað og þar með eftirlitsgjald sem eftirlitsskyldir aðilar á fjármálamarkaði greiða. „Kostnaður eftirlitsskyldra aðila vegna eftirlits felst ekki einungis í eftirlitsgjaldinu sjálfu heldur fellur síaukinn kostnaður til innan fyrirtækjanna vegna gagnavinnslu og gagnaskila. Því gera samtökin ráð fyrir því að innan skamms muni eftirlitsskyldir aðilar sjá hagræði í þessari sameiningu með einfaldari gagnaskilum og lækkun á eftirlitsgjaldi,“ sagði í umsögn SFF.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Heiðrún að áframhaldandi hækkun eftirlitsgjalds undanfarin ár hafa valdið SFF áhyggjum og að enn væru tækifæri til að einfalda gagnaskil og gagnavinnslu. „Fjármálafyrirtækin hafa ekki orðið vör við að gagnaskil hafi almennt orðið einfaldari jafnvel þó upp hafi verið tekið staðlað evrópsk skýrsluform á sumum sviðum. Við teljum því að þar séu tækifæri til að gera betur og ná fram frekari hagkvæmni og skilvirkni,“ segir Heiðrún.

„Aðildarfélög okkar eru fylgjandi traustu og skilvirku eftirliti. En á sama tíma og fjármálafyrirtækin hafa hagrætt sem hefur leitt til umtalsverðra kostnaðarlækkana, m.a. með fækkun útibúa, fækkun starfsmanna og nýtingu stafrænna lausna, þá virðist slík þróun ekki hafa átt sér stað í sama mæli hjá eftirlitsaðilanum enn sem komið er,“ segir Heiðrún.

Hægt er að lesa umfjöllun Viðskiptablaðsins í hér.