Austurbæjarskóli sigurvegari Fjármálaleikanna 2023

Austurbæjarskóli er sigurvegari Fjármálaleikanna 2023 og er þetta í annað sinn sem skólinn sigrar keppnina. Um fimmtán hundruð nemendur í 10. bekk í 42 grunnskólum víðs vegar á landinu tóku þátt í leikunum og fær Austurbæjarskóli að senda tvo fulltrúa í  Evrópukeppnina í fjármálalæsi sem haldin verður í Brussel 16. maí næstkomandi. Fjármálaleikarnir, sem er stóðu yfir í tíu daga frá 1. – 10. mars.

Krakkarnir í Austurbæjarskóla unnu leikinn með glæsibrag. Sigrún Lilja Jónasdóttir stærðfræðikennari sigurvegaranna segir að árangurinn hafi m.a náðst með mikilli hvatningu og liðsheild, en hver þátttakandi svaraði 64 fjölbreyttum spurningum í netleik sem hannaður var sérstaklega með þekkingarramma PISA í huga. Spurningarnar snúast m.a um að geta reiknað vexti á lán og sparnað, að vita um hvað tryggingar snúast, þekkja réttindi og skyldur á vinnumarkaði, átta sig á lífeyrissparnaði og kunna ýmislegt um t.d. gengissveiflur og verðlagsþróun.

„Ég tel ástæðuna fyrir góðu gengi skólans í Fjármálaleikunum undanfarin ár vera að í Austurbæjarskóla er snemma lögð áhersla á prósentureikning og þegar komið er í 10. bekk eru krakkarnir komnir með nokkuð góðan grunn“ segir Sigrún Lilja að lokum.

Efstu þrír skólarnir hafa allir verið í verðlaunasætum síðustu árin en í öðru sæti er Grunnskóli Fjallabyggðar sigurvegarinn frá því í fyrra og í þriðja sæti er Tjarnarskóli sem hefur frá upphafi verið í einu af efstu sætunum.

Að sögn Kristínar Lúðvíksdóttur verkefnastjóra Fjármálavits er markmiðið með svona keppni fyrst og fremt að vekja athygli á mikilvægi fjármálalæsis hjá ungu fólki og hvetja kennara og skólastjórnendur áfram í kennslu í fjármálalæsi. „“Fjármálalæsi er víða kennt í grunnskólum landsins, þó mismikið milli skóla og því mætti gera enn betur í því að festa fjármálæsi betur í aðalnámskrá grunnskóla.“ segir Kristín. „Krakkar í dag eru farnir að vinna snemma og þurfa að þekkja grunnatriðin í eigin fjármálum, það er nokkuð ljóst. Þetta snýst ekki bara um að vera góður í að reikna vexti heldur þarf að beita skynsamri hugsun með.“

Þetta er í sjötta sinn sem keppnin er haldin.Fjármálaleikarnir eru hluti af Evrópukeppni í fjármálalæsi á vegum Evrópsku bankasamtakanna (EBF) sem hafa ásamt aðildarsamtökum víða í Evrópu lagt mikla áherslu á mikilvægi þess að efla fjármálalæsi ungmenna. SFF eru þar engin undantekning með fjármálafræðsluverkefnið Fjármálavit í fararbroddi sem unnið er í samvinnu við Landssamtök lífeyrissjóða.

Nánar um Fjármálaleika á vefsíðu Fjármálavits