Betur má ef duga skal
Íslensk fjármálafyrirtæki búa við umtalsverða skattlagningu umfram önnur fyrirtæki í landinu. Þrír sérstakir skattar eru lagðir á fjármálafyrirtækin sem hvorki eiga sér samsvörun hjá samkeppnisaðilum í nágrannalöndum né eru lagðir á helstu samkeppnisaðila fjármálafyrirtækja á lánamarkaðnum, lífeyrissjóðina. Það eru bankaskattur, fjársýsluskattur og sérstakur fjársýsluskattur. Að auki eru gjöld vegna fjármálaeftirlits og innstæðutrygginga með hæsta móti hlutfallslega hér á landi.
Undanfarin ár hafa sérstakir skattar á fjármálafyrirtæki numið um 16 milljörðum króna á ári og starfstengd gjöld um 4 milljörðum króna ári. Helstu starfstengdu gjöldin eru iðgjald vegna innstæðutryggingar, eftirlitsgjald vegna fjármálaeftirlits og gjald vegna starfsemi Umboðsmanns skuldara. Þessir sérstöku skattar og gjöld koma til viðbótar öðrum sköttum fjármálafyrirtækja og í heild hafa aðildarfyrirtæki Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) verið að greiða um 35-40 milljarða í skatta og gjöld til opinberra aðila undanfarin ár. Til samanburðar má nefna að launagjöld banka og sparisjóða voru á síðasta ári röskir 40 milljarðar króna og sérstakir skattar og gjöld því um helmingur af þeirri fjárhæð.
Skekkir samkeppnisstöðu
Þessir skattar veikja samkeppnisstöðu innlendra fjármálafyrirtækja en stór hluti af lánum til innlendra fyrirtækja er veittur af erlendum samkeppnisaðilum. Þá skekkir þessi skattlagning samkeppnisstöðu á innlendum lánamarkaði. Loks hefur skattlagningin áhrif á fjármálafyrirtækin sem fjárfestingarkost í samanburði við önnur fyrirtæki og rýrir meðal annars eignarhlut ríkisins í bönkunum.Þessir sérstöku skattar hér á landi eru nokkurs konar minnisvarði um hugmyndir sem komið hafa fram á alþjóðavettvangi í kjölfar fjármálakreppunnar 2008 sem hafa aðeins að mjög takmörkuðu leyti komið til framkvæmda annars staðar en hér. Eini skatturinn sem náði einhverri fótfestu erlendis var bankaskatturinn, skattur á skuldir fjármálafyrirtækja, en í flestum EES ríkjum hefur hann nú breyst í gjald í skilasjóð vegna skilameðferðar fjármálafyrirtækja.
Mikilvæg skref verið stigin
Mikilsverð skref hafa þó verið tekin á því kjörtímabili sem er að ljúka til lækkunar á þessum gjöldum. Iðgjöld vegna innstæðutrygginga hafa verið lækkuð og sérstakur bankaskattur sem er einn þessara skatta hefur verið lækkaður. Samtals gætu áhrif þessara breytinga numið um 7 milljörðum króna þegar áhrifin eru komin fram.Áfram standa óhreyfðir tveir sérstakir skattar á fjármálafyrirtæki, fjársýsluskattur og sérstakur fjársýsluskattur. Sá fyrri er í raun sérstakur launaskattur, reiknast sem 5,5% af heildarlaunagreiðslum. Og kemur til viðbótar tryggingagjaldinu sem öll fyrirtæki greiða (6,1%). Hinn seinni er viðbótartekjuskattur, sérstakt 6% tekjuskattsþrep á fjármálafyrirtæki á tekjur umfram 1 milljarð króna. Samtals hafa tekjur ríkissjóðs vegna þessara skattar numið um 6 milljörðum króna á ári undanfarin ár.
Engin rök fyrir sérstökum launaskatti
Rökstuðningur fyrir þessum sérstöku sköttum hefur einkum verið það tjón sem fjármálahrunið olli samfélaginu. Þá hefur einnig verið stuðst við rök sem felast í því að skattlagningin muni hefta vöxt eða áhættusækni fjármálafyrirtækjanna. Ljóst er að innheimtir skattar og stöðugleikaframlög fjármálafyrirtækja, starfandi og fallinna, eru löngu búin að mæta útgjöldum ríkissjóðs vegna fjármálahrunins. Fjársýsluskatturinn var á sínum tíma rökstuddur með tilvísun til alþjóðlegra áforma um að skattleggja laun og hagnað fjármálafyrirtækja (financial activity tax) en ekkert varð af þeim áformum erlendis. Engin sérstök rök eru fyrir sérstaka fjársýsluskattinum önnur en að afla tekna.Engin ástæða er fyrir því að fjármálafyrirtæki ein séu með sérstakt hátekjuskattþrep. Íslensk fjármálaþjónusta getur ekki til lengri tíma búið við mun meira íþyngjandi skattaumhverfi en önnur íslensk fyrirtæki eða erlendir samkeppnisaðilar. Þá er alveg ljóst að engin rök eru fyrir því að skattleggja starfsmannahald á fjármálamörkuðum sérstaklega, umfram önnur fyrirtæki í landinu. Því er mikilvægt að stíga sem fyrst næstu skref í lækkun og afnámi sértækra skatta á fjármálastarfsemi og jafna samkeppnisstöðuna, neytendum til hagsbóta.
Greinin birtist fyrst í Markaðnum í Fréttablaðinu 2.júní 2021