Einfalt, öruggt, skilvirkt og samkeppnishæft regluverk

Samfélag okkar hefur tekið miklum breytingum undanfarin ár og verða þær sífellt hraðari.

Þegar við horfum til baka hefði verið ómögulegt að sjá allar þessar breytingar fyrir. Eins og gengur taka flestir breytingum vel meðan aðrir sjá gamla tíma í hyllingum og sjá fátt jákvætt í þessu samhengi.

Breytingar hafa ekki síst haft áhrif á unga fólkið, en það eru svo sem engin ný sannindi að ungt fólk er almennt móttækilegra fyrir breytingum en við sem höfum safnað fleiri árum.

Starfsumhverfi fjármálafyrirtækja hefur ekki farið varhluta af breytingum og þá ekki síst á síðastliðnum 5-10 árum. Breytingar sem eru drifnar áfram af tæknilausnum og netvæðingu hafa haft mikil áhrif á allt umhverfi okkar og eru viðskipti við banka og tryggingafélög þar engin undantekning.

Með tæknilausnum og netvæðingu kemur ótvíræður tímasparnaður, aukin þjónusta og sparnaður í rekstri, allt neytendum til góða. Þessi breyting á hegðun okkar í viðskiptum við banka og tryggingafélög hefur eðlilega haft í för með sér að útibúum og afgreiðslustöðum hefur fækkað í samræmi við breytta viðskiptahætti. Vissulega eru ekki allir sáttir við þá þróun, kannski eru einhverjir sem sakna þess að keyra í sitt útibú um mánaðarmót til að greiða reikninga og bíða í löngum biðröðum.

Miklar breytingar á starfsumhverfi munu aldrei vera alveg óumdeildar, en til þess að geta verið í fremstu röð og boðið samkeppnishæf kjör þarf stöðugt að huga að besta mögulega formi á þjónustu. Stærstur hluti aðgerða sem viðskiptavinir banka framkvæma er með rafrænum hætti, tryggingafélögin hafa verið að þróa rafrænar þjónustuleiðir og einnig hafa verið stigin stór og mikilvæg skref á sviði hins opinbera m.a. með rafrænum þinglýsingum.

Ísland er framarlega á þessu sviði og það verður spennandi að sjá þessa þróun halda áfram á næstu árum, viðskiptavinum til hagsbóta. En þessar breytingar í átt að hraðvirkari og skilvirkari viðskiptum og þjónustu hafa einnig nýjar ógnir í för með sér.

Rafræn þjónusta og netöryggi

Mikið hefur verið gert til að auka öryggi í rafrænni þjónustu sem og netöryggi kerfisins í heild. Ekki veitir af því svikatilfelli og árásir verða sífellt skipulagðari og tilraunir til svika þróaðri. En oft er veikasti hlekkurinn við sjálf, þ.e. mannlegi þátturinn. Netöryggi, öryggi fjármálakerfa og fjármálainnviða er eitt af forgangsatriðum komandi ára að mati Evrópsku bankasamtakanna.

Samtök fjármálafyrirtækja leggja mikla áherslu á þennan málaflokk, á sviði fræðslu, samstarfs tæknimanna og með þátttöku í samstarfi við opinbera aðila innanlands sem utan. Mikilvægt er að tryggja áframhaldandi samstarf aðila á þessum markaði.

Þessi vandi er ekki bundinn við Ísland og því mikilvægt að fylgjast vel með og vera í samstarfi við erlenda sérfræðinga á þessu sviði. Verði skemmdir hjá einstökum félögum, einstaka kerfum eða innviðum þarf að tryggja afrit gagna og koma kerfum aftur af stað.

Flækjum ekki málin

Regluverk fjármálafyrirtækja verður sífellt flóknara, enda eru fjármálamarkaðir flóknir og hagsmunir gífurlegir bæði fyrir einstaklinga, fyrirtæki og samfélagið í heild. Í umfangsmiklu regluverki fjármálamarkaða þarf lagaumgjörð þeirra að gera þeim kleift að veita viðskiptavinum örugga og hagkvæma þjónustu. Lagaumhverfið þarf að stuðla að samkeppnishæfni félaga neytendum til góða.

Nauðsynlegt er að tryggja að innlendur fjármálamarkaður starfi eftir alþjóðlega viðurkenndri umgjörð sem er sem líkust því sem gerist í Evrópu og viðskiptalöndum okkar. Við búum í litlu samfélagi og stundum eiga þessar erlendu reglur ekki vel við smæð markaðarins á Íslandi.

Það vill engin sérmeðferð félaga á Íslandi en gæta verður meðalhófs og sanngirni við innleiðingu erlends regluverks umfram skyldu en jafnframt er mikilvægt að íþyngja ekki íslenskum félögum með auka íslenskum reglum sem skekkja samkeppnishæfni þeirra gagnvart erlendum samkeppnisaðilum.

Íslensk fjármálafyrirtæki búa til dæmis við umtalsverða skattlagningu umfram önnur fyrirtæki og samkeppnisaðila, bæði hérlendis og erlendis. Það getur verið nauðsynlegt að sníða séríslenskar reglur en nauðsynlegt er að hafa þær í algjöru lágmarki og gæta meðalhófs við setningu þeirra.Þá er nauðsynlegt að endurskoða reglulega regluverkið og taka út þær reglur sem ekki eiga lengur við. Einfalt, öruggt, skilvirkt og samkeppnishæft regluverk mun alltaf skila sér í betri og öruggari rekstri og því er mikilvægt er að einfalda regluverk án þess að það komi niður á gæðum og öryggi.

Greinin birtist fyrst í áramótablaði Viðskiptablaðsins 28. desember 2022