Fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar
Í dag undirrituðu Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, og aðilar sem fara fyrir hátt í 80% af eignum á íslenskum fjármálamarkaði viljayfirlýsingu um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar. Forsætisráðuneytið, Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni, Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) og Landssamtök lífeyrissjóða (LL) unnu að mótun hennar í víðtæku samráði við fulltrúa helstu aðila á fjármálamarkaði.Æðstu stjórnendur ólíkra fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóða, banka, sparisjóða, vátryggingafélaga og fjárfestingasjóða undirrituðu viljayfirlýsinguna rafrænt. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra undirritaði hana fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar á ríkisstjórnarfundi í Ráðherrabústaðinum í dag.Viljayfirlýsingin er einstakt framtak einkaaðila og stjórnvalda á fordæmalausum tímum. Víðtæk áhrif COVID-19 undirstrika enn betur mikilvægi þess að hafa sjálfbærni til hliðsjónar í því uppbyggingarstarfi sem framundan er. Í viljayfirlýsingunni segir að fjármagnið sé mikilvægt hreyfiafl í mótun atvinnulífs og atvinnusköpunar í þeirri uppbyggingu sem framundan er. Ákvarðanir sem teknar eru í dag munu hafa mikil áhrif á framþróun næstu ára og því mikilvægt að þær séu teknar með sjálfbærni að leiðarljósi. Með því að nýta fjármagn með markvissum aðgerðum er hægt að viðhalda sjálfbærri þróun og á sama tíma að efla samkeppnishæfni þjóða og framtíð komandi kynslóða.„Sjálfbærni og samfélagsleg ábyrgð eru orðin hluti af viðskiptamódeli íslenskra fjármálafyrirtækja. Þannig er sjálfbærni í auknum mæli samofin starfsemi og stefnumótun fjármálafyrirtækjanna. Þá er jafnframt gleðilegt að sjá samkeppni á þessu sviði á milli einstaka fjármálastofnana, en það mun drífa þessa þróun áfram á næstu árum,“ segir Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.Viljayfirlýsinguna í heild sinni ásamt lista yfir undiritunaraðila má nálgast hér:Viljayfirlýsingin í heild sinni