Fjármálafræðsla er nauðsynleg

Peningar skipa veigamikinn sess í lífi unglinga líkt og annarra. En kann ungt fólk að fara með peninga? Eru nemendur í grunn- og framhaldsskólum vel læsir á fjármál? Þótt fjármálafræðsla sé ekki sjálfstæð námsgrein í aðalnámskrá grunn- og framhaldsskóla kemur hún við sögu í ýmsum kennslugreinum. En betur má ef duga skal.Á næstu dögum mun hópur starfsmanna aðildarfélaga Samtaka fjármálafyrirtækja heimsækja efstu bekki grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni til þess að kynna Fjármálavit. Fjármálavit er verkefni sem Samtök fjármálafyrirtækja hafa undirbúið í vetur og gengur út á að þróa kennsluefni um fjármál fyrir nemendur í grunnskólum.Við þróun efnisins voru haldnar vinnustofur með nemendum, kennurum og starfsfólki í fjármálafyrirtækjum til að fá fram hvað það er sem skiptir máli þegar kemur að kunnáttu um fjármál. Efnið var svo unnið í samvinnu við kennara og kennaranema. Við vinnslu efnisins var horft til þess að það endurspegli raunverulegt umhverfi ungs fólks og að það veki áhuga þess.Með framtakinu eru samtökin að horfa til systursamtaka sinna í Evrópu, þá sérstaklega í Hollandi, en þar í landi hafa samtök fjármálafyrirtækja undanfarin ár boðið upp á kennsluefni og heimsótt skóla um allt land með fjármálafræðslu við góðar undirtektir nemenda.Kynningin á Fjármálaviti helst í hendur við hina Evrópsku peningaviku sem stendur yfir dagana 9. til 13. mars. Markmiðið með vikunni er að vekja athygli á þörfinni fyrir aukið fjármálalæsi hjá ungu fólki og skapa umræðu.Framtak eins og Fjármálavit er góður vettvangur fyrir samvinnu kennara og starfsmanna fjármálafyrirtækja til að miðla sameiginlegri þekkingu sinni og stuðla að góðu fjármálalæsi unglinga.Samtök fjármálafyrirtækja hafa um árabil lagt mikla áherslu á eflingu fjármálafræðslu hér á landi. Á undanförnum árum hafa samtökin meðal annars fjármagnað tilraunakennslu í fjármálafræðslu í grunn- og framhaldsskólum og tekið virkan þátt í vinnuhópum stjórnvalda um eflingu fjármálalæsis. Það starf hefur varpað ljósi á að mikill áhugi og vilji er á meðal kennara og þeirra sem koma að fræðslumálum að efla fjármálafræðslu.