Fjármálafyrirtæki og Loftslagsvegvísir atvinnulífsins

Markmið íslenskra stjórnvalda er að landið verði kolefnishlutlaust eigi síðar en árið 2040. Til þess að það markmið náist þurfa allir að róa í sömu átt. Atvinnulífið hefur tekið ábyrgð og mun ekki láta sitt eftir liggja þegar kemur að aðgerðum í loftslagsmálum. Loftslagsvegvísir atvinnulífsins er mikilvægt innlegg sem greinir stöðu mismunandi atvinnuvega í loftslagsmálum og bendir á þau tækifæri og þær áskoranir sem hver grein stendur frammi fyrir og vísar vegin áfram.Mismunandi atvinnuvegir hafa mismunandi möguleika til þess að leggja sitt af mörkum. Í tilfelli fjármálafyrirtækja er oft ekki um bein áhrif að ræða sem eru vel greinanleg við fyrstu sýn. Engu að síður spila fjármálafyrirtæki mikilvægt hlutverk í því að samfélagið nái kolefnishlutleysi.Í Loftslagsvegvísi atvinnulífsins er farið yfir stöðu fjármálafyrirtækja í loftslagsmálum og þau markmið sem þau setja sér. Fjármálastarfsemi losar lítið af gróðurhúsalofttegundum ein og sér, skrifstofustarfsemi er almennt ekki stór losunaraðili. Þrátt fyrir að losun starfseminnar sé lítil eru áhrif fjármálastarfsemi mun meiri í heildar samhenginu og mikilvægt er að fjármálafyrirtæki greini áhrif starfseminnar á útblástur kolefnis á Íslandi. Tiltölulega einfalt er að greina beina kolefnislosun á starfsemi fjármálafyrirtækja og gera úrbætur þar á, til dæmis varðandi ferðir starfsmanna ásamt því að huga að innkaupum á vörum og þjónustu. Þær niðurstöður eru birtar af flestum fjármálafyrirtækjum í sjálfbærnisskýrslum. Flóknara er að greina áhrif fjárfestinga og útlánastarfsemi. Sú vinna er þó hafin og verður spennandi að sjá þróun næstu missera við greiningu á afleiddum áhrifum fjármálastarfsemi. Einnig er mikilvægt að greina áhrif fjármálastarfsemi út frá sjónarhóli áhættustýringu þar sem verkefni sem teljast arðbær til skemmri tíma geta haft neikvæð áhrif til lengri tíma í gegnum aðra óskylda þætti. Þörf er á að fjármálafyrirtæki nýti staðlaða aðferðafræði í greinungum á fjárfestingakostum og útlánum sínum til að nýta megi þær greiningar heildstætt fyrir málaflokkinn.Fjármálafyrirtæki í lykilsstöðu í loftslagsmálumGræn fjármögnun og fjárfestingar hafa fengið aukið vægi undanfarin ár, þar er augljósast að nefna græna fjármögnun bíla- og húsnæðislána á hagstæðari kjörum ásamt útgáfum grænna skuldabréfa. Horfa verður á arðsemi slíkra útlána og fjárfestinga en reynslan sýnir að grænar fjárfestingar hafa skilað ekki síðri ávöxtun en hefðbundnar fjárfestingar. Þá hefur fjöldi grænna skuldabréfa og sjóða sem fjárfesta í grænum verkefnum aukist mikið hérlendis og erlendis. Frá sjónarhóli neytenda og fyrirtækja er mikilvægt að aðgangur að grænni fjármögnun og lánum aukist í takt við auknar áherslur viðskiptavina á málaflokkinn. Einnig er mikilvægt að sá rammi og þeir hvatar sem settir eru um slíka starfsemi séu skýrir og skili ábata. Stuðningur, þekking og framboð fjármálafyrirtækja á slíkum vörum mun skipta miklu fyrir getu atvinnulífsins til að taka þátt í breytingunum. Mikilvægt er að stjórnvöld og hagaðilar vinni að skýrri lagaumgjörð og móti þá hvata sem stýrt geta þróuninni. Þörf er á aukinni fjárfestingu í grænum lausnum og nýsköpun. Morgunljóst er að ríkið mun ekki hafa getu til að fjármagna allar þær fjárfestingar sem ráðast þarf í á komandi árum. Þar munu fjármálafyrirtæki koma að ferlinu með auknum hætti.Staðan er því góð og mörg verkefni komin vel á veg hjá fjármálafyrirtækjum, þau eru í lykilstöðu í að tengja fjármagn við verkefni sem leiða samfélagið í átt að kolefnishlutleysi. Ánægjulegt er að sjá þann kraft sem fyrirtækin hafa lagt í málaflokkinn og þá viðhorfsbreytingu sem orðið hefur gagnvart grænum fjárfestingarkostum og mikilvægi fjármálafyrirtækja á undanförnum misserum. Atvinnulífið ætlar að leggja sitt af mörkum til að leysa loftslagsvandann. Til þess að þessi mikilvægu markmið náist er einnig mikilvægt að ríkisvaldið styðji við þróunina með skýru verklagi og hvötum þarf sem við á.Arnar I. Jónsson / Kristín LúðvíksdóttirGreinin birtist fyrst í Markaðnum í Fréttablaðinu 30. júní 2021