Fjármálalæsi og Pisa-könnunin

Allar götur frá stofnun Samtaka fjármálafyrirtækja hefur efling fjármálalæsis verið eitt af helstu baráttumálunum. Samtökin hafa lagt áherslu á að fjármálafræðsla verði tekin inn í námskrá grunnskólanna og standa jafnframt að fræðsluverkefninu Fjármálavit í samstarfi við Landssamtök lífeyrissjóða. Fjármálavit er námsefni fyrir nemendur á efsta stigi grunnskóla og er tilgangurinn að veita kennurum innblástur í kennslu um fjármál einstaklinga.Stafræna byltingin hefur leitt til byltingar á miðlun fjármálaþjónustu. Ungt fólk getur nú nýtt sér fjölbreytta fjármálaþjónustu með því að styðja á nokkra hnappa í snjalltækjum. Ekki sér fyrir endann á þessari þróun og þar af leiðandi er ákaflega brýnt að vinna markvisst að eflingu fjármálalæsis. Lengi býr að fyrstu gerð og þess vegna þarf slík fræðsla að hefjast í grunnskólum.Það er mikilvægt fyrir alla þá sem vinna að eflingu fjármálalæsis ungmenna að mæla reglulega hvar við stöndum. Þess vegna er nauðsynlegt að stjórnvöld bæti við fjármálalæsishlutanum næst þegar PISA-könnunin verður gerð hér á landi. Samtök fjármálafyrirtækja eru reiðubúin að leggja sín lóð á vogarskálarnar til þess að svo megi verða. Þrátt fyrir að fylgni kunni að vera á milli árangurs í fjármálalæsi og stærðfræðiþáttar PISA-könnunarinnar kallar ör þróun hinnar stafrænu tækni og þess umhverfis sem fólk kemur til með sækja sér fjármálaþjónustu á reglubundnar mælingar.