FJÁRMÁLAVIT Í FJÖLMIÐLUM

Í morgun mættu þau Kristín Lúðvíksdóttir, verkefnastjóri fjármálafræðslu hjá SFF, og Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaganna, í morgunþáttinn Bítið á Bylgjunni og ræddu um Fjármálavit. Nú er að renna upp þriðja skólaárið þar sem að Fjármálavit er kynnt nemendum í elstu bekkjum grunnskóla landsins og í viðtalinu ræddu Kristín og Óttar um þær góðu viðtökur sem verkefnið hefur fengið og þann árangur sem náðst hefur. Hlusta má á viðtalið hér.Fjármálavit hefur verið áberandi í fjölmiðlum að undanförnu. Á miðvikudaginn í síðustu viku var þátturinn Fólk með Sirrý á sjónvarpsstöðinni Hringbraut helgaður Fjármálaviti og fjármálafræðslu. Í þættinum var rætt við Kristínu, Regínu Björk Jónsdóttur sem starfar í Arion banka og Ómar Örn Magnússon, aðstoðarskólastjóra í Hagaskóla. Hægt er að horfa á þáttinn hér.Fjármálavit er námsefni um fjármál fyrir efstu bekki grunnskóla. Regína og Óttar eru meðal ríflega hundrað starfsmanna fjármálafyrirtækja sem heimsækja nemendur í 10. bekk á öllu landinu og vinna með þeim verkefni úr námsefni Fjármálavits. Mikil ánægja er meðal kennara og nemenda með heimsóknirnar en á síðastliðnu skólaári fengu 3400 nemendur í 92 skólum heimsókn. Þriðja skólaár Fjármálavits er senn að hefjast og hafa margir skólar þegar haft samband og óskað eftir heimsókn í vetur.