Fjármálavit í Vísindaskóla unga fólksins á Akureyri

Fjármálavit tók nýlega þátt í Vísindaskóla unga fólksins á Akureyri þar sem áhugasöm og fróðleiksfús börn á aldrinum 11 – 14 ára fá fjölbreytta fræðslu í heila viku. „Fjármálavit og réttur barna“ var eitt af fimm þemum skólans í ár og voru það starfsmenn á vegum Fjármálavits sem fræddu börnin um fjármál og skoðuðu m.a. hvað það kostar að reka eitt stykki ungling, sem mörgum fannst ansi dýrt. Að auki fóru starfsmenn frá Umboðsmanni barna yfir Barnasáttmálann og helstu réttindi barna. Önnur þemu í Vísindaskólanum voru fræðsla um skóginn, hreyfingu, málnotkun og myndir og allt um flug og flugvélar.

Vísindaskólinn hefur verið starfsræktur undanfarin sumur og er markmið hans að bjóða upp á fræðandi og skemmtilega afþreyingu þar sem ungmenni fá að kynnast fjölbreyttum þemum er endurspegla námsframboð háskóla.

Á myndinni eru Linda Ívarsdóttir sérfræðingur í Íslandsbanka, Anna Soffía Víkingsdóttir verkefnastjóri Vísindaskólans, Guðríður Bolladóttir sérfræðingur hjá Umboðsmanni barna, Sigrún Stefánsdóttir skólastjóri Vísindaskólans, Kristín Lúðvíksdóttir verkefnastjóri Fjármálavits, Eðvald Einar Stefánsson sérfræðingur hjá Umboðsmanni barna, Kristín Hilmarsdóttir sérfræðingur hjá Stapa lífeyrissjóði.