Fjöður verður að fimm hænum

Í fjölmiðlum undanfarna daga hefur verið umræða um þau  biðlán sem fyrirtæki fengu samkvæmt „Beinu brautinni svokölluðu“  og hugsanlega erfiðleika fyritækjanna til axla þau lán þegar að gjalddaga þeirra kemur. Í þessu eins og oft í opinberri umræðum um skuldamál hefur ein fjöður orðið að fimm hænum.Rifjum aðeins upp efnisatriði málsins.  Í desember 2010 gerðu stjórnvöld, fjármálafyrirtæki og hagsmunasamtök atvinnulífsins samkomulag um skuldaúrræði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Úrræðið var í kynningarskyni nefnt „Beina brautin“.Miðað var við að  fyrirtækin sem úrræðið næði til væru með skuldir á bilinu 10 – 1000 m.kr.  Í grófum dráttum fólst úrræðið í því að rekstrarskuldir fyrirtækjanna væru færðar niður í 70% af virði þeirra en lán sem svaraði til allt að 30% af virði fyrirtækisins væri sett á óverðtryggt biðlán til þriggja ára með lágum vöxtum.  Lánið var án greiðslna á lánstímanum og algengt var að vextir væru 2%.  Eigendur fyrirtækjanna höfðu heimild til þess að greiða upp lánið á lánstímanum með verulegum afslætti sem endurspeglaði mismun á vöxtum biðlánsins og almennum  útlánsvöxtum.   Samkomulaginu fylgdi tímasett áætlun um úrvinnslu skuldamála þessara fyrirtækja og var miðað við að fyrirtækin fengju tilboð um fjárhagslega endurskipulagningu fyrir júní 2011.  Þessi áform gengu í meginatriðum eftir.

Samkomulagið eyddi óvissu um hvaða leiðir yrðu farnar í skuldamálum fyrirtækja og stuðlaði að því að skriður komst almennt á fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja  á árinu 2011.  Þrátt fyrir að samkomulagið næði formlega aðeins til afmarkaðs hluta fyrirtækja varð það eins og kemur fram í skýrslum eftirlitsnefndar Alþingis með sértækri skuldaaðlögum að sniðmáta sem var notaður almennt við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja, það er að segja  annarra en stærstu fyrirtækjanna.  Formlega fóru um 700 fyrirtæki gegnum Beinu brautina en rúmlega 2000 lítil og meðalstór fyrirtæki fóru aðrar leiðir.  Algengast var að þar væri um að ræða eitthvert form á endurútreikningi gengislána, ýmist endurútreikning ólögmætra lána eða tilboð frá fjármálafyrirtækjum um höfuðstólslækkanir.  Einnig var í öðrum leiðum um að ræða útfærslur á Beinu brautinni.Samkomulagið um Beinu brautina fjallaði ekki um hvað tæki við þegar að gjalddaga biðlánanna kæmi. Gert var ráð fyrir því að fjármálafyrirtæki tækju á því hvert með sínum hætti og fyrirtæki og fjármálafyrirtæki semdu í hverju tilviki um greiðslu eða endurfjármögnun biðlánsins eftir aðstæðum hvers fyrirtækis.  Fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækjanna byggði eðli máls samkvæmt á áætlunum um rekstur þeirra á samningstímanum.  Skuldsetning miðaðist við áætlað virði fyrirtæksins sem í mörgum tilvikum grundvallaðist á núvirtu sjóðstreymi þess.  Eðli máls samkvæmt var og er mikil óvissa við slíka áætlunargerð og ólíklegt að allar þessar áætlanir gangi upp.  Óhjákvæmilegt má telja að í einhverjum tilvikum muni fyrirtækin eiga erfitt með að mæta endurgreiðslum eða endursemja um biðlánið.  Þá reynir á getu fyrirtækjanna til að afla nýs eiginfjár.

Eins og áður segir voru biðlánin til þriggja ára. Fyrstu lánin koma því á gjalddaga seint á þessu ári, en gjalddagar flestra lánanna dreifast á árin 2014 og 2015.  Of snemmt er að segja um hvernig staða fyrirtækjanna verður þegar að því kemur.  Samkvæmt upplýsingum frá stóru bönkunum þremur sem málið snýr aðallega að eru vanskil rekstrarlána fyrirtækja sem hafa gengið í gegnum fjárhagslega endurskipulagning almennt lág.  Slíkt er vísbending um að geta þeirra til þess að greiða eða semja um framhald biðlánsins verði almennt góð.  Í einhverjum tilvika hafa fyrirtæki þegar nýtt heimild til uppgreislu biðlánsins og í einhverjum tilvikum hafa fyrirtæki þegar farið í þrot þrátt fyrir fjárhagslaga endurskipulagningu.  Í heild eins og staðan er núna virðist sem góðar líkur séu á því að rekstur yfirgnæfandi þeirra fyrirtækja sem hafa verið fjárhagslega endurskipulögð geti staðið undir þeim skuldbindingum sem á þeim hvíla.