Fullyrðingar og staðreyndir um bankakerfið
Með hvítbók stjórnvalda um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið fylgja ítarleg minnisblöð frá Bankasýslu ríkisins þar sem fjallað er um fjölmarga þætti í rekstri íslenskra banka. Það sem er áhugavert við lestur þessara minnisblaða er að þar kemur margt fram sem stangast á við margt af því sem haldið er fram í opinberri umræðu um íslenska fjármálakerfið.Í minnisblöðum Bankasýslunnar er að finna ítarlegan samanburð á rekstri íslensku bankanna annars vegar og sambærilegum bönkum í Norður-Evrópu og Bandaríkjunum. Eins og flestir vita sem fylgjast með dægurmálaumræðunni hér á landi er því oft haldið fram að vaxtamunur íslenskra banka sé sá mesti sem fyrirfinnst á byggðu bóli og að þóknanatekjur sem þeir innheimta séu óeðlilega háar.Samanburður Bankasýslunnar sýnir að slíkar fullyrðingar eiga ekki við rök að styðjast. Samanburðurinn leiðir til að mynda í ljós að munurinn á meðaltalvöxtum á vaxtaberandi eignum og skuldum íslenskra banka er lægri en norður-evrópskra banka að sambærilegri stærðargráðu og bandarískra banka.Það sama er upp á teningnum þegar horft er til mismunar vaxta á út- og innlánum. Vaxtamunurinn er minni hjá íslenskum bönkum en sambærilegum bönkum í Norður-Evrópu og litlu meiri en í bandarískum bönkum en þeir borga alla jafna ekki vexti af innstæðum.Eins og fram kemur í minnisblaðinu námu hreinar þóknanatekjur íslensku bankanna 26,1 af hreinum vaxtatekjum og 17,7% af rekstrartekjum þeirra árið 2017. Er þetta umtalsvert lægra hlutfall en hjá þeim evrópsku bönkum sem voru hafðir til samanburðar. Bankasýslan nefnir að í starfsemi alhliða banka á borð við þá íslensku sé almennt miðað við að sú starfsemi sem aflar þóknana- eða þjónustutekna standi undir launakostnaði. Það er ekki tilfellið hjá íslensku bönkunum en þóknunartekjur þeirra stóðu einungis undir 63,6% af launakostnaði árið 2017. Er það umtalvert lægra hlutfall en hjá þeim bönkum sem voru hafðir til samanburðar.Endurskoðun á opinberum gjöldum getur leitt til lægri vaxtamunarÞað sem einkennir rekstrarumhverfi íslenskra banka í samanburði við aðra banka á Vesturlöndum er fordæmalaus álagning opinberra gjalda. Bankasýslan ber í minnisblaðinu saman opinber gjöld sem íslenskir bankar greiða við sambærilegar greiðslur stórra banka í norðanverðri Evrópu. Niðurstaðan er sláandi: Í öllum tilfellum eru gjöld íslensku bankanna margfalt hærri en þau sem bankar í Evrópu greiða. Gildir einu hvort er um að ræða eftirlitsgjald, tryggingaiðgjald, fjársýsluskatt á laun, skatta á skuldir (bankaskatt) og fjársýsluskatt á hagnað - álagningin er í nánast öllum tilfellum margfalt hærri hér á landi en annars staðar. Eina undantekningin er iðgjald í skilasjóð en það er ekki enn lagt á banka hér á landi þar sem eftir á að stofna slíkan sjóð því ekki er búið að innleiða tilskipun ESB um slit og skil fjármálafyrirtækja að fullu.Bankasýslan bendir í minnisblaði sínu á skilvirkar leiðir til þess að lækka vaxtamun bankanna enn frekar. Þær ríma ágætlega við áherslur Samtaka fjármálafyrirtækja en samtökin hafa bent á að lægri opinber gjöld, lægri eiginfjárkröfur og aukið hagræði meðal annars með auknu samstarfi um rekstur innviða fjármálakerfisins gæti eflt samkeppnisfærni.Samkvæmt greiningu Bankasýslunnar myndi lækkun á eftirlitsgjaldi til FME um 10% ásamt helmingslækkun á fjársýsluskatti á laun annars vegar og hagnað umfram milljarð hins vegar geta lækkað vaxtamun vaxtarberandi eigna og skulda úr 2,6% niður í 2,3%. Þessi útreikningur miðast við að stjórnvöld standi við áform ríkisfjármálaáætlunar um að lækka gjaldhlutfall bankaskattsins úr 0,376 niður í 0,145% í jöfnum skrefum á árunum 2020-2023.Til viðbótar telur Bankasýslan að lækkun eiginfjárkrafna og hagræðing sem skilar sér í lægri rekstrarkostnaði gæti leitt til þess að vaxtamunurinn færi niður í 2,1%.Tryggjum skilvirkni á tímum mikilla breytingaHvítbók stjórnvalda er gagnlegur grunnur að skynsamlegri umræðu um framtíðarskipan fjármálakerfisins. Hún er lögð fram á sama tíma og miklar breytingar eiga sér stað á fjármálamörkuðum. Fjártæknin og framþróun stafrænnar tækni er að leiða grundvallarbreytingar á fjármálaþjónustu. Þessi þróun mun án efa gera það að verkum að fjármálaþjónusta verði ekki jafn staðbundin og áður og viðskiptavinir munu eiga auðveldara með að sækja sér fjármálaþjónustu þvert á landamæri.Þessi mikla deigla kallar á kreddulausa umræðu um stöðu fjármálageirans. Sú umræða ætti að byggja á spurningunni um hvernig við ætlum að gera íslenskum fjármálatækjum kleift að taka þátt í þeirri hörðu samkeppni sem ríkir á fjármálamarkaði - hvernig við getum hagað umhverfi fjármálamarkaða með þeim hætti að hann þjóni neytendum með bestum hætti. Til þess að tryggja að svo verði er nauðsynlegt að endurmeta útfærslu regluverks fjármálamarkaða, draga úr séríslenskum ákvæðum í lögum og móta skattaumhverfið með þeim hætti að það þjóni hagsmunum viðskiptavinanna. Hvítbók stjórnvalda er mikilvægt innlegg í þá umræðu.Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 7. febrúar 2019.