Greiða 27% tekjuskatts lögaðila með 4% starfsmanna
Rætt var við Heiðrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja, í Morgunblaðinu í gær um skattgreiðslur fjármálafyrirtækja. Í greininni kemur fram að íslensk fjármála- og vátryggingafyrirtæki hafi við síðustu álagningu greitt um 27% af tekjuskatti allra lögaðila í gegnum almennan tekjuskatt og sértækan tekjuskatt sem einungis er lagður á fjármálafyrirtæki. Til samanburðar starfa um 4% starfsfólks á almennum vinnumarkaði innan fjármálageirans.
Því til viðbótar greiða fjármálafyrirtæki tvo aðra sértæka skatta sem einungis eru lagðir á fjármálafyrirtæki. „Íslenskir bankar greiða nú þegar þrjá skatta um fram önnur fyrirtæki hér á landi. Mesta skattlagningin er á íslensk fjármálafyrirtæki, í samanburði við nágrannalönd Íslands,“ segir Heiðrún í viðtalinu.
„Það væri nær að horfa til þess að lækka sérstaka skatta á íslensk fjármálafyrirtæki til jafns við það sem þekkist t.d. annars staðar á Norðurlöndunum til að gera íslenskum fjármálafyrirtækjum kleift að þjónusta íslenskt samfélag enn betur,“ segir Heiðrún við Morgunblaðið.
Í greininni nefnir Heiðrún að sértækum sköttum á fjármálafyrirtæki hafi verið komið á fyrir rúmum áratug m.a. til að greiða fyrir kostnað sem ríkissjóður varð fyrir vegna fjármálahrunsins. Heiðrún bendir á skýrslu sem Ásgeir Jónsson, nú seðlabankastjóri, og Hersir Sigurgeirsson prófessor unnu árið 2016 fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið, þar sem fram kemur að beinn kostnaður ríkisins af fjármálahruninu hafi þegar verið endurheimtur árið 2016, meðal annars í gegn um sérstaka skatta á fjármálafyrirtæki, stöðugleikaframlög slitabúa og eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum.
Heiðrún vísar einnig til nýlegrar fréttar í Morgunblaðinu þar sem fram kemur að arðsemi íslenskra banka sé undir meðaltali á evrópska efnahagssvæðinu.
Greiða þrjá sérstaka skatta
Þá var rætt við Yngva Örn Kristinsson, hagfræðing Samtaka fjármálafyrirtækja, í morgunútvarpi Rásar 2 á föstudaginn. Þar benti Yngvi á að íslensk fjármálafyrirtæki greiði árlega um tólf milljarða króna í þrjá viðbótarskattana sem ekki eru lagðar á aðrar atvinnugreinar hér á landi og almennt ekki á fjármálafyrirtæki í nágrannalöndum Íslands. „Það er þegar sérstakt kerfi til að fanga arðsemi bankanna og skila tekjum inn í ríkissjóð,“ bendir Yngvi á.
Skattarnir þrír eru lagðir á skuldir bankanna, launagreiðslur auk 6% viðbótar tekjuskatts á hagnað umfram milljarð króna á ári. „Þannig að það er ekki sanngjarnt að lýsa þessu þannig eins og þeir borgi ekkert sérstaklega til samfélagsins. Þeir borga miklu meira heldur en evrópskir bankar,“ segir Yngvi í viðtalinu.Yngvi bendir á að þó hagnaðartölurnar bankanna séu háar fjárhæðir sé hlutfallslegur hagnaður ekki sérlega hár, hvorki í samanburði við aðrar atvinnugreinar á Íslandi né evrópskar bankastofnanir.
Lesa má viðtalið við Heiðrúnu hér.Lesa má viðtalið við Yngva hér.