Greiða árlega margfaldan hvalrekaskatt

Rætt er við Yngva Örn Kristinsson, hagfræðing Samtaka fjármálafyrirtækja, á Innherja, viðskiptavef Vísis, í dag um hugmyndir um viðbótarskatta á banka á Ítalíu, svokallaðan hvalrekaskatt, í samhengi við skattlagningu á íslensk fjármálafyrirtæki. Þar kemur fram að áform Ítala snúist um að leggja einu sinni á sérstakan viðbótarskatt á ítalska banka sem nemi á að hámarki 0,1% af eignum hvers banka fyrir sig. Í greininni er bent á að íslensku kerfislega mikilvægu bankarnir greiði árlega þrjá sérstaka viðbótarskatta sem samsvari um 0,3% af eigum bankanna eða um þrefalt á við það sem ítölsku bankarnir eiga að hámarki að greiða í eitt skipti.

„Staðreyndin er sú að íslensk fjármálafyrirtæki greiða mun hærri skatta en í nágrannalöndunum. Það er vegna þess að hér eru þrír sérskattar. Það er svokallaður bankaskattur sem er 0,145 prósent á skuldir fjármálafyrirtækja. Jafnframt er sérstakur tekjuskattsauki sem nemur sex prósentum á hagnað umfram einn milljarð króna og líta má á sem hvalrekaskatt. Að auki er 5,5 prósenta skattur á launagreiðslur fjármálafyrirtækja,“ segir Yngvi í viðtali við Innherja.

Þá hafi arðsemi íslenskra banka almennt verið lægri en í nágrannalöndunum. „Það er ekki ofurhagnaður hjá íslenskum bönkum og þeir eru skattlagðir í meira mæli en erlendis,“ segir Yngvi í viðtalinu.

Yngvi bendir einnig á að áhrif heimsfaraldursins hafi litað afkomu bankanna síðustu ár. Við upphaf heimsfaraldursins árið 2020 voru færð niður útlán, einna helst tengd ferðaþjónustu. Áhrif faraldursins hafi reynst minni en búist var við og lánasöfnin hafi því verið færð upp á ný árin 2021, 2022 og eitthvað inn á þetta ár sem bætt hafi afkomuna á því tímabili en leitt til lægri afkomu árið 2020. „Það var því verið að færa til baka eignir sem áður var talið að hefðu tapast. Þetta eru einkum lán til fyrirtækja í ferðaþjónustu en þar hefur verið góður gangur,“ segir Yngvi í viðtalinu.

Lesa má grein Innherja í heild sinni hér.