Há gjöld og heimagerðar sérreglur skerða samkeppnisstöðuna

Guðjón Rúnarsson, framvkæmdastjóri SFF, fór yfir liðið ár í Morgunblaðinu þann 3. janúar.Árið 2014 var á flesta vegu gott fyrir fjármálageirann að mati Guðjóns Rúnarssonar, framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja. „Rekstur stóru bankanna var vel viðunandi en enn eru óreglulegir þættir að hafa áhrif á afkomutölurnar og áríðandi að bæta tiltekna grunnþætti til að tryggja áframhaldandi arðsemi til framtíðar.“Guðjón segir að markverðustu tíðindin á árinu felist meðal annars í því að þrír stærstu viðskiptabankarnir eru á ný komnir með lánshæfiseinkunn frá erlendu matsfyrirtækjunum og séu farnir að ryðja brautina fyrir erlenda skuldabréfafjármögnun. „Tryggingafélögin hafa líka verið í leiðandi hlutverki og eftir síðasta ár eru þrjú stærstu tryggingafélögin öll skráð á hlutabréfamarkaði. Þá hefur verið ánægjulegt að sjá kraftinn í smærri fjármálafyrirtækjum og þá miklu gerjun sem hefur verið á verðbréfamarkaðnum.“

FASTEIGNALÁN OG RAFRÆN SKILRÍKI

Þróun á fasteignalánamarkaðnum árið 2014 var eftirtektarverð að mati Guðjóns. Hann bendir á að í krafti hagstæðra kjara og fjölbreytts vöruúrvals hafi bönkum og sparisjóðum tekist að koma til móts við þarfir viðskiptavina, en mikill meirihluti fasteignalána er veittur af þessum aðilum. Einnig sæti tíðindum krafturinn við innleiðingu rafrænna skilríkja sinni hluta árs, en mikil tækifæri munu felast í þeirri lausn fyrir atvinnulífið og almenning á komandi árum. Þá segir Guðjón tímamótaáfanga hafa falist í samkomulagi sem náðist milli EFTA-ríkjanna og ESB um innleiðingu nýrra reglna um eftirlit á fjármálamarkaði.Guðjón bendir um leið á ýmislegt sem má laga og áskoranir sem bíða fjármálageirans á þessu ári og komandi árum. Fyrst nefnir hann skattahækkanir á greinina: „Sérskattar á fjármálafyrirtæki hafa farið vaxandi sem dregur úr samkeppnisfærni íslenska fjármálageirans. Sama gildir um ýmis gjöld sem greinin þarf að standa straum af, s.s. vegna lögboðins eftirlits. Skýr merki eru um að þessar opinberu álögur séu farnar að hafa áhrif á rekstrarkostnað fjármálafyrirtækja og skaða samkeppnisstöðu geirans. Íslensk fjármálafyrirtæki hafa þannig verið að tapa hlutdeild á útlánamarkaði. Hlutur erlendra aðila í útlánum til íslenskra fyrirtækja var 30% árið 2013 en fór upp í tæp 40% á liðnu ári samkvæmt greiningu efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.“

DALANDI SAMKEPPNISHÆFNI

Að mati Guðjóns er ljóst að fjármálafyrirtækin þurfa að leita leiða til að gera reksturinn straumlínulagaðri en borið saman við nágrannalöndin er fjármálageirinn ekki nægilega skilvirkur. „Til viðbótar við sanngjarnari skattlagningu á greinina væri líka æskilegt ef slakað væri á reglum t.d. um eiginfjárhlutfall en óvíða í heiminum eru gerðar jafnstrangar eiginfjárkröfur til fjármálafyrirtækja og hér á landi. Raunar þarf íslenski fjármálageirinn að búa við ótal sérreglur sem bætast við þann aragrúa reglna sem settar eru um greinina í Brussel og skerðir samkeppnisstöðuna enn frekar.“Guðjón segir eftirvæntingu ríkja á fjármálamarkaðnum um það hvaða útspil stjórnvöld komi með á árinu í tengslum við afnám gjaldeyrishafta. Miklu skipti fyrir fjármálageirann, rétt eins og íslenskt efnahags- og atvinnulíf í heild sinni, að komast út úr höftunum til frambúðar. „Mikil undirbúningsvinna átti sér stað árið 2014 og má reikna fastlega með að stigin verði stór skref á þessu ári. Verkefnið er samt gríðarstórt og margslungið. Þessu tengt má gera ráð fyrir að við losun gjaldeyrishafta verði ráðamönnum auðveldara að selja eignarhlut ríkisins í stóru bönkunum og grynnka þannig á skuldastöðu ríkissjóðs á sama tíma og bönkunum verður tryggt fastara land undir fótum hvað eignarhald varðar.“Árið 2015 gæti líka orðið ár róttækra breytinga á rekstri Íbúðalánasjóðs. „Nefnd á vegum stjórnvalda hefur verið að endurskoða umgjörð íbúðalána í landinu og ljóst að rekstur Íbúðalánasjóðs er orðið þungur baggi á ríkinu, og verður það áfram ef ekkert verður að gert. Það yrði til farsældar fyrir íslenskan almenning til framtíðar að skjóta styrkari stoðum undir þá þróun sem hefur átt sér stað á þessum markaði undanfarin ár,“ segir Guðjón.Hann bætir við að þrátt fyrir að blikur séu á lofti í heimsbúskapnum sé margt jákvætt í kortunum og þá fyrst og fremst krafturinn sem er hlaupinn í bandaríska hagkerfið. „Hér heima hefur myndast ákveðinn stöðugleiki og takist okkur að byggja á honum til frambúðar ættu horfur í íslensku efnahagslífi að vera bjartar. Fjármálageirinn er vel í stakk búinn til styðja við þau sóknarfæri sem eru framundan.“