Hik er betra en tap
Fyrsti stóri netverslunardagurinn í aðdraganda jóla er liðinn og næstir á dagskrá eru Black Friday og Cyber Monday. Ómissandi tilboð streyma á vefinn og neytendur taka þeim opnum örmum. Eðlilega. Leiðinlegur fylgikvilli þessara tækniframfara eru netsvindl.
Ófáir sitja eftir með óbragð í munni eftir að hafa fallið fyrir einhverri af þeim fjölmörgu leiðum sem netglæpamenn nota til að hafa fé af grunlausum neytendum. Með aukinni netverslun á afsláttardögum fjölgar tilraunum glæpamanna til að svíkja fé af neytendum.
Dulbúnir netglæpamenn
Illa orðaðir og hlægilegir tölvupóstar eða smáskilaboð sem biðja viðtakandann um smáar fjárhæðir vegna sendinga er ekki eina tegund netglæpa. Netglæpamenn dulbúast oft sem yfirmenn sem biðja starfsmenn fyrirtækja um greiðslu reikninga og við fyrstu sýn er ekki að sjá neinn mun á póstum þeirra og þeim fyrirmælum sem venjulega berast. Undanfarið hefur orðið vart við mikla aukningu í messenger svindli. Fólk fær þá skilaboð á messenger frá einhverjum sem lítur út fyrir að vera facebook vinur viðkomandi en oftast er um gervireikning að ræða. Svindlarinn biður um símanúmer viðtakandans og i kjölfarið er óskað eftir að hann taki þátt í „sms-leik“ og hann hvattur til að birta skjáskot af greiðslukortum eða kortaupplýsingum. Glæpamennirnir verða sífellt klókari og því er mikilvægt að við höfum alltaf varann á, staðreynum tölvupóstföng, hleypum aldrei öðrum inn á heimabanka, sendum aldrei lykilorð yfir netið og sendum aldrei myndir af kortum eða skilríkjum. Við þurfum að taka okkur smátíma, ekki ýta strax á hlekki sem berast eða senda umbeðnar upplýsingar án þess að hika. Í þessu tilviki er hik ekki sama og tap heldur þvert á móti.
Það hafa margir stigið fram að undanförnu og tjáð sig um netglæpi. Því meira sem við tölum um þessi mál því meiri líkur eru á því að við munum eftir skilaboðunum þegar á hólminn er komið. Hvetjum endilega fólk til að tala um svindl eða tilraunir til svindls sem það hefur lent í og reynum að fræða þá sem eru í kringum okkur um hætturnar sem geta leynst. Við þurfum að tala um vandamálið en ekki skammast okkar þegar við verðum fyrir barðinu á því.
Smellum ekki á vafasama hlekki
Netglæpir fara vaxandi og kosta samfélagið hundruð milljóna króna á ári. Starfsmenn fyrirtækja og stofnana vinna gott starf sem miðar að því að lágmarka skaðann sem þessir glæpamenn valda, hvort sem um er að ræða stórar árásir á fyrirtæki og innviði eða minni glæpi sem beinast beint að venjulegum neytendum. Þrátt fyrir þrotlaust starf tæknimanna til að koma í veg fyrir tölvuglæpi af fjölbreyttum toga er ein leið sem þeir geta ekki komið í veg fyrir. Það er því miður þannig að auðveldasta leið netglæpamanna í veski okkar eða inn í tölvukerfi fyrirtækja og stofnana er í gegnum einstaklinginn. Það er því mjög mikilvægt að smella ekki á vafasama hlekki, hleypa ekki einhverjum inn á tölvu, senda ekki myndir af viðkvæmum skjölum eða staðfesta greiðslur í flýti. Því betur upplýstur sem endanotandinn er, því minni líkur eru á að glæpamenn komist yfir fé eða upplýsingar sem hægt er að misnota.
Tökum smá tíma í aðdraganda jóla til að ganga úr skugga um að ekkert óeðlilegt sé á seyði, tvær mínútur geta sparað stórar fjárhæðir. Netverslun er þægileg og sparar bæði tíma og fyrirhöfn, en á sama tíma er gríðarlega mikilvægt að við séum á varðbergi og viðhöfum heilbrigða tortryggni í athöfnum okkar á netinu. Jólin eru mikill gleðitími og fátt skemmtilegra en að gefa þeim sem manni þykir vænt um góðar gjafir. Reynum að sleppa því að gefa netglæpamönnum veglega gjöf þessi jól.
Við hvetjum alla til að skoða vefinn taktutvær.is og kynna sér málefnið.
Heiðrún Björk Gísladóttir, verkefnastjóri á samkeppnishæfnisviði Samtaka atvinnulífsins
Arnar I. Jónsson, sérfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja.
Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu