Hvaðan kemur hagnaður bankanna?
Í grein sem birt var 9. september sl. Í Fréttablaðinu velta þau Ásthildur Lóa Þórsdóttir og Ragnar Þór Ingólfsson fyrir sér hvaðan hagnaður íslensku bankanna komi[1]. Þau spyrja í fyrirsögn hvaðan 650 milljarða hagnaður bankanna komi? Efnislega virðist mér mega draga efni greinarinnar saman með eftirgreindum hætti. Þau greina frá upplýsingum um hagnað íslenskra banka frá og með árinu 2009. Þau leggja það mat á hann að hann sé mjög mikill og nota m.a. orðið ofsagróði og telja að hagnaður bankanna hér á landi eigi sér ekki hliðstæðu í vestrænu ríki á þessari öld. Þau telja í greininni að þessi hagnaður sé myndaður alfarið af viðskiptum við heimilin í landinu, sérstaklega það fólk sem missti íbúðir vegna fullnustuaðgerða (nauðungarsölu) í kjölfar fjármálakreppunnar 2008. Þau telja að hagnaður bankanna skaði samfélagið og spyrja hvar er réttlætið, bönkunum hafi verið bjargað en fjölskyldur blæði.Hagnaður bankanna frá 2009Hagnaður íslenskra banka hefur verið um 611 milljarðar króna á tímabilinu 2009 til ársloka 2018. Ef talinn er með sá hagnaður sem fallið hefur til það sem af er árinu 2019 lætur nærri að hagnaður bankanna frá 2009 sé um 650 milljarðar króna. Þetta er há fjárhæð en um er að ræða tíu og hálft ár sem gerir um 60 milljarða króna á ári að jafnaði. Um er að ræða heila atvinnugrein þar sem störf hafa verið á bilinu 3.000 til 4.000 (fækkandi á tímabilinu). Til samanburðar má nefna að hagnaður í sjávarútvegi á tímabilinu 2009 til 2017 var 444 milljarðar króna en á því tímabili var hagnaður bankanna 572 milljarðar króna.Mikið eigið fé er bundið í fjármálastarfsemi og þær kröfur eru lögbundnar ólíkt því sem gildir um aðrar atvinnugreinar. Þessar kröfur hafa verið auknar verulega í ljósi reynslunnar af fjármálakreppunni 2008. Frá árinu 2008 hefur eigið fé sem bundið er í viðskiptabönkunum vaxið úr tæpum 300 milljörðum króna í tæpa 630 ma.kr. í árslok 2018. Engin önnur atvinnugrein hefur viðlíka mikið eigið fé. Varhugavert er því að meta hagnað viðskiptabankanna án þess að skoða hann í hlutfalli við eigið fé sem bundið er í rekstrinum og þeirrar arðsemiskröfu sem gerð er til þess. Arðsemi íslenskra banka, þ.e. hagnaður í hlutfalli við eigið fé hefur verið rúm 11% að meðaltali á tímabilinu 2009 til 2018. Sú arðsemi er í takt við þá arðsemiskröfu sem Bankasýsla ríkisins gerir, sem fer með hlutafjáreign ríkisins í fjármálafyrirtækjum[2]. Hæst var arðsemin tæp 16% árin 2010 og 2015 en undanfarin ár hefur hún farið lækkandi og hefur verið 6% – 7%. Bankasýslan, sem fer með eignarhluti ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum, hefur lýst áhyggjum að slakri arðsemi banka undanfarin ár og sama hefur t.d. matsfyrirtækið S&P gert, það hefur fært horfur íslensku bankanna úr stöðugum í neikvæðar ekki síst vegna fyrirsjáanlegra afkomu þeirra á næstu árum.
Arðsemi íslenskra banka hefur verið betri á tímabilinu 2009 til 2018 en banka í Evrópusambandinu. Meðaltal arðsemi banka í ESB var 6,1% á þessu tímabili en rúm 11% hér á landi eins og áður segir. Að stórum hluta skýrist þessi munur á því hvernig brugðist var við fjármálakreppunni með mismunandi hætti hér og annars staðar í Evrópu. Hér urðu bankarnir gjaldþrota en í Evrópu hafa bankarnir þraukað og útlánatöpin komið fram á lengra tímabili. Sé borið saman við Noreg og Svíþjóð þar sem fjármálakreppan fór fyrir neðan garð þá er meðaltal arðsemi banka í báðum ríkjum 9,6% á sama tímabili, ekki ósvipuð arðsemi íslenskra banka.
Arðsemi banka í Evrópuríkjum (ESB) er mjög mismunandi, eins og sést á meðfylgjandi línuriti, og langt er því frá að arðsemi íslenskra banka skeri sig sérstaklega úr. Þannig eru nokkur ríki þar sem arðsemi banka er á bilinu 13% til 16% eins og hún hefur farið hæst hér á landi eftir árið 2008.Staðhæfingar um að arðsemi banka hér á landi sé óeðlilega há, bankarnir séu með ofsagróða og arðsemi þeirra sé meiri en í nokkru vestrænu ríki á þessari öld eiga því ekki við rök að styðjast. Hið rétta er að arðsemi íslenskra banka var ásættanleg fram til ársins 2016 en síðan þá hefur hún verið lægri en Bankasýslan, sem fer með eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum, gerir kröfu um.Er hagnaður bankanna myndaður af viðskiptum við heimili.Fjölbreyttur hópur á í viðskiptum við banka og fjármálafyrirtæki. Heimilin eða réttar sagt einstaklingar eru mikilvægur viðskiptamannahópur en alls ekki eina uppspretta hagnaðar viðskiptabankanna. Viðskipti við fyrirtæki og aðra lögaðila, þar með talið opinbera aðila, eru einnig mikilvæg uppspretta vaxta- og þjónustutekna. Í ársreikningum banka má frá árinu 2010 sjá greiningu á hagnaði fyrir skatt eftir viðskiptamannahópum eða starfsþáttum. Reyndar flokka sumir bankanna viðskipti við einstaklinga með öðrum viðskiptum útibúa, þ.e. eru með smásöluviðskipti sem sérstakan flokk. Sé það notað sem mælikvarði á einstaklingsviðskipti er það ofmat þar sem viðskipti við minni og meðalstór fyrirtæki teljast þar einnig með. Þessi mælikvarði gefur til kynna að rúman þriðjung af hagnaði áranna 2009 – 2018 megi rekja til einstaklinga. Sé litið til skiptingar hagnaðar hjá þeim bönkum sem flokka einstaklinga sérstaklega er hlutfallið mun lægra, eða á bilinu 14% til 26%. Samkvæmt þessu má að hámarki rekja um þriðjung af 650 milljarða króna hagnaði viðskiptabankanna á árunum 2009-2019 til einstaklinga eða um röska 200 milljarða króna. Líklegt er þó að þessi fjárhæð sé lægri, sennilega einhvers staðar á bilinu 100 – 200 milljarðar króna.Er endurmat eigna frá föllnu bönkunum stór þáttur í hagnaði bankanna frá hruni?Þegar „gömlu bankarnir“ féllu og nýju bankarnir voru stofnaðir voru innlán og kröfur (þ.m.t.) útlán til innlendra aðila[3] færð til nýju bankanna frá þeim gömlu. Nýju bankarnir tóku við innlánaskuldbingum föllnu bankanna og fengu eignir, aðallega útlán sem greiðslu fyrir. Ríkissjóður og kröfuhafar lögðu nýju bönkunum til eigið fé til að uppfylla kröfur eftirlitsaðilans. Útlán voru flutt yfir á matsvirði, þ.e. lagt var mat á líklegar endurheimtur lánanna[4]. Matið var framkvæmt á fyrri hluta árs 2009. Bankarnir birta upplýsingar um virðisbreytingar útlána í ársreikningum sínum, þ.e. endurmat á því hvort útlán muni heimtast eða ekki. Samkvæmt þeim upplýsingum er samtala virðisbreytinga útlána um 90 milljarðar króna á árunum 2009 til 2018, samanlagt fyrir öll árin. Það bendir til þess að matið sem gert var á árinu 2009 hafist tekist nokkuð vel. [5]Þessar virðisbreytingar eru bæði vegna breytinga á mati á lánum til einstaklinga og fyrirtækja. Í ársreikningum bankanna er flokkun á virðisbreytingum milli einstaklinga og fyrirtækja nema einn banki hefur ekki birt þessa sundurliðun fyrir árin 2009 og 2010. Miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir virðast heimtur á lánum til einstaklinga vera ívið lakari en reiknað var með en endurheimtur á lánum til fyrirtækja talsvert betri. Lauslegt mat bendir til þess að heimtur á lánum heimila hafi verið 30 milljörðum króna lakari en metið hafði verið en lán til fyrirtækja um 120 milljörðum króna betri en áætlað var.Endurmat á virði útlána eða heimtur þeirra eru því ekki afgerandi þáttur í afkomu bankanna á þessu tímabili. Af rúmlega 600 milljarða króna hagnaði skýrast um 90 milljarðar króna af endurmati á heimtum útlána. Endurmat yfirtekinna lána til einstaklinga (heimila eða fjölskyldna) frá föllnu bönkunum hefur ekki skilað bönkunum tekjum á árunum sem liðið hafa frá fjármálakreppunni, þvert á móti.Engum bönkum hér á landi var bjargað eins og sagt er í grein Ásthildar og Ragnars sbr. það sem fram er komið hér að ofan. „Gömlu bankarnir“ fóru í þrot, hluthafar þeirra glötuðu alfarið eign í þeim. Ríkissjóður og kröfuhafar lögðu nýju bönkunum til eigið fé og eignuðust þá að fullu.Fjöldi heimila sem misstu íbúðir í nauðungarsöluFjallað er í greininni um fjölda þeirra sem misstu íbúðir og heimili sín í nauðungarsölu. Slegið er fram þeirri tölu að um 15 þúsund fjölskyldur hafi misst heimili sín.Samkvæmt svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni þingmanni[6] voru nauðungarsölur fasteigna (íbúðir, sumarbústaðir, lóðir og jarðir) alls um 13.400 á árunum 2000 til 2018, þar af voru um 5.400 vegna lögaðila en einstaklingar voru gerðarþolar (eða meðal gerðarþola) í um 8.000 nauðungarsölum. Þar af fóru 5.700 fram eftir 2008. Fyrir liggur að samkvæmt ársreikningum Íbúðalánasjóðs þá leysti sjóðurinn til sín tæplega 4.300 íbúðir á þessu tímabili. Líklegt er því að bankar, aðrir lánveitendur íbúðalána og aðrir kröfuhafar þ.m.t. opinberir aðilar, hafa því leyst til sín um 1.400 íbúðir á þessu tímabili.
Samandregið virðast því um 5.700 fjölskyldur hafa misst fasteignir sínar eftir fjármálakreppuna 2009 en ekki 15 þúsund og voru 1400 af þeim í viðskiptum við bankana meðan að hinar voru með lán frá Íbúðalánasjóði. Einhver hluti þeirra nauðungarsala er vegna annarra fasteigna en íbúða. Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hve stór hluti það er.Skuldastaða heimila núAðgerðir sem gripið var til á árunum 2010 – 2013 til að lækka skuldir heimila og fyrirtækja hafa umtalsverð áhrif til þess að lækka skuldir. Nefna má 110% leiðréttingu, sértæka skuldaaðlögun og höfuðstólsleiðréttingu verðtryggðra íbúðalána vegna lána heimila. Hjá minni fyrirtækjum var stuðst við staðlaða aðferð um fjárhagslega endurskipulagningu, svokallaða „beina braut“. Þá höfðu dómar varðandi gengisbundin lán, einstaklinga og fyrirtækja umtalsverð áhrif til lækkunar skulda. Bætt efnahagsástand, auknar tekjur og aukin velta hefur jafnframt aukið getu heimila og fyrirtækja til þess að greiða niður skuldir undanfarin ár.
Hlutfall skulda heimila af ráðstöfunartekjum hefur af þessum sökum farið lækkandi undanfarin ár og er nú svipað og það var á árunum 2000 – 2003, þannig að sú aukna skuldsetning sem varð á árunum 2004 til 2010 er að fullu gengin baka.
[1] Sjá: https://www.visir.is/g/2019190908763/hvadan-komu-650-thusund-milljonir-
[2] Bankasýslan gerir kröfu um 5,25% ávöxtun ofan á áhættulausa vexti, en áhættulausir miðast við innstæðuvexti viðskiptareikninga lánastofnana í Seðlabanka. Meðaltal þeirra vaxta hefur verið 5,35% árin 2009 – 2018. Samtals hefur þá arðsemiskrafa Bankasýslunnar verið um 10,6% að meðaltali. Sjá t.d. samning Bankasýslu ríkisins við Íslandsbanka um almenn og sértæk markmið í rekstri; vefslóð: http://bankasysla.is/files/Samningur%20vi%C3%B0%20ISB_undirrita%C3%B0_284275714.pdf
[3] Aðeins hluti innlendra útlána var fluttur til nýju bankanna, almennt var verið að flytja lán einstaklinga og fyrirtækja í rekstri yfir til nýju bankanna. Til dæmis voru útlán til fallinna eða fallandi eignarhaldsfélaga fjármálafyrirtækja skilin eftir í þrotabúum gömlu bankanna. Sömuleiðis lán til erlendra aðila.
[4] Fyrirtækin Deloitte&Touche í London og Oliver Wyman í Stokkhólmi önnuðust matið.
[5] Virðismatið sem gert var 2009 samanstóð af tveimur þáttum. Annars vegar á líkum á endurheimt kröfunnar (útlánsins) og hins vegar mati á því hvenær krafan (útlánið) kæmist í skil. Vegna seinni þáttarins var endurgreiðslan núvirt m.v. vexti eins og þeir voru á fyrri hluta árs 2009. Endurheimtur geta því breyst vegna þriggja þátta, þ.e. breytingu á endurheimtu, breytingu á því hvenær krafan var greidd og breytingu á vöxtum fram til þess tíma að krafa er greidd.
[6] Þingskjal 1638, mál nr. 818