Hvítur fíll?

Í samráðsgátt stjórnvalda er nú til umsagnar áformaskjal um löggjöf um innlenda óháða smágreiðslulausn. Stjórnvöld telja nauðsynlegt að tryggja með þróun á nýrri greiðslulausn að smágreiðslumiðlun geti farið fram ef samband rofnar við útlönd eða Ísland verði, af einhverjum ástæðum, útilokað frá aðgangi að alþjóðlegu greiðslukortum.

Áformin hafa verið rökstudd með þjóðaröryggissjónarmiðum þar sem það geti ógnað þjóðaröryggi að heimildargjöf og uppgjör á greiðslukortaviðskiptum fer nú alfarið fram erlendis. Þá er viðbótarmarkmið að draga úr kostnaði samfélagsins af greiðslumiðlun. Innlend greiðslumiðlun er talin dýr og því valdi mikil notkun alþjóðlegra greiðslukorta ekki síst kreditkorta, en um 40% greiðslukortafærslna eru nú með kreditkortum hér á landi en um 60% með debetkortum.

Til þess að ná þessu markmiði telja stjórnvöld nauðsynlegt að þróuð verði „reikning í reikning“ (RÍR) greiðslulausn sem geri greiðendum innanlands kleift að inna af hendi greiðslur með millifærslum milli innlánsreikninga. Í kostnaðarmati í samráðsgáttinni kemur fram að kostnaður ríkissjóðs og Seðlabanka vegna þróunar hinnar nýju smágreiðslulausnar verði óverulegur vegna kostnaðarþátttöku innlánsstofnana.

Núverandi ástand ógnar ekki þjóðaröryggi

Ýmsar spurningar vakna við skoðun á þessum áformum auk þess sem greining á núverandi ástandi hér á landi varðandi þjóðaröryggi er ekki allskostar rétt.

Svo byrjað sé á því seinna má segja að til staðar séu hér tvær greiðslulausnir sem eru innlendar og óháðar. Annars vegar seðlar, lögeyrir í landinu, gefin út af Seðlabanka og á hans kostnað. Mikilvægt er að tryggja að framvegis, og sem verið hefur, verði seðlar til staðar og verði áfram löglegur gjaldmiðill til að inna af hendi allar greiðslur innanlands. Við skilyrði fjármálaóstöðugleika eða alvarlegrar truflunar í raforkukerfi, svo dæmi sé tekið, er mikilvægt að einstaklingar og fyrirtæki hafi greiðan aðgang að seðlum. Hins vegar eru millifærslur milli bankareikninga þar sem viðskiptavinir geta í gegnum netbanka með einföldum hætti innt greiðslur af hendi eins og allir þekkja.

Millifærslur milli bankareikninga voru 50 milljónir á síðasta ári sem svarar til þriðjungi af heildarfjölda færslna með greiðslukortum. Millifærslur eru mikið notuð innlend greiðsluleið. Ókostur millifærslna er að ekki er búnaður á sölustöðum sem gerir millifærslukerfinu kleift að „tala beint“ við afgreiðslutæki, með sama hætti og greiðslukortin. Í dag er þetta leyst með þeim hætti að sýna greiðslumóttakanda síma eða tölvuskjá þar sem sést staðfesting á millifærslu. Eins getur greiðslumóttakandi séð innleggið koma fram í sínum netbanka. Ekki eins þjált og greiðslukortin en vel framkvæmanlegt.

Allt á huldu um kostnað við nýja lausn

Varðandi væntingar um að lækka kostnað við greiðslumiðlun er ekki á vísan að róa. Í fyrsta lagi liggur kostnaðaráætlun ekki fyrir. Jafnvel þótt hún lægi fyrir er óvíst í hvað miklum mæli lausnin verður notuð. Færslugjöld í hinni nýju lausn munu aðallega ráðast af þessum tveimur þáttum. Ef notkun verður lítil gætu færslugjöld orðið há og þá hefur orðið til hvítur fíll. Miklu skiptir við ákvörðun notenda um val á greiðslumiðli hvað notkun hans kostar og þá er fyrst og fremst horft til fasts kostnaðar og færslugjalda sem leggst beint á notendur.

Gagnvart neytenda er beinn færslukostnaður við notkun á kreditkorti enginn innanlands, 20 kr. með debetkorti, en millifærsla í netbanka er ókeypis. Seðlabankinn áætlar að færsla á kreditkorti kosti samfélagið beint og óbeint um 150 krónur en færsla á debetkorti kostar beint og óbeint um 120 krónur. Notendur horfa hins vegar ekki til þessa samfélagslega kostnaðar enda þeim ekki sýnilegur.

Mikil notkun kreditkorta hér samanborið við nágrannalönd skýrist af lágum færslukostnaði þeirra og þeim gjaldfresti sem fólginn er í notkun þeirra. Sá gjaldfrestur er meira virði hér á landi vegna hærri verðbólgu hér en í nágrannalöndum. Ekki er líklegt að breyting verði á þessum þáttum á næstu árum. Reynsla annarra þjóða af notkun og útbreiðslu RÍR greiðslulausna er að notkun þeirra er takmörkuð og í sumum löndum aðallega bundin við millifærslur milli einstaklinga og lítið notaðar á sölustöðum. Hafa þarf jafnframt í huga að einstaklingar og fyrirtæki þurfa áfram að vera með alþjóðleg greiðslukort vegna viðskipta á netinu og ferðalaga og mun það áfram stuðla að almennri útbreiðslu þeirra.

Höfundur er hagfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja. Skoðanir hans endurspegla ekki endilega afstöðu Samtaka fjármálafyrirtækja.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu þann 28. júlí.