ÍSLAND EITT EES-RÍKJANNA SEM Á EFTIR AÐ SAMÞYKKJA

Íslenska þingið á nú eitt EES-ríkjanna eftir að samþykkja fyrirhugaðar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn um að fella inn í samninginn gerðir og samning um breytingu á samningi milli EES-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls um hlutverk og valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði fjármálaeftirlits.Þingsályktunartillaga hefur verið lögð fram þar sem lagt er til að stjórnskipulegum fyrirvara verði aflétt fyrir fram um 31 gerð. Með tillögunni verður leitað eftir heimild Alþingis til að samþykkja 9 ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar er varðar eftirlit með fjármálamörkuðum en upptaka þeirra í EES-samninginn er forsenda áframhaldandi virkrar þátttöku EFTA-ríkjanna innan EES á innri markaðnum með fjármálaþjónustu. Vonir standa til að þingsályktunartillagan verði samþykkt í ágúst þegar þingið kemur saman. Norska ríkið samþykkti í gær fyrirhugaðar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um ofangreint en þingið í Liechtenstein hafði áður samþykkt þær í maí.