Kallað eftir aukinni kennslu í fjármálalæsi
Verkefnastjóri hjá SFF segir kallað eftir meiri kennslu í fjármálalæsi í grunnskólum. Nemendur í 10. bekk í Áslandsskóla unnu nýlega Fjármálaleikana og hlutu 150 þúsund krónur í verðlaun, helminginn gáfu þau til góðgerðarmála.Nemendur í 10. bekk í Áslandsskóla í Hafnarfirði báru sigur úr býtum í Fjármálaleikum Fjármálavits á dögunum. Keppnin er haldin í tengslum við alþjóðlega fjármálalæsisviku sem hófst í gær. Þar er keppt í fjármálalæsi og segir Kristín Lúðvíksdóttir, verkefnastjóri fjármálafræðslu hjá Samtökum fjármálafyrirtækja, eftirspurn eftir kennslu í fjármálalæsi að aukast.„Þetta var í fjórða skipti sem leikarnir eru haldnir og við finnum að nemendur, kennarar og foreldrar eru að kalla eftir aukinni kennslu um fjármál,“ segir Kristín. Í ár tóku 750 nemendur í 10. bekk úr 35 grunnskólum þátt í leikunum.Kristín segir það sjást skýrt á úrslitum síðustu ára að með betri kennslu náist betri árangur.„Við höfum gefið um sjö til átta þúsund kennslubækur um fjármálalæsi inn í skólana, allir grunnskólar fá bækur og þeir kennarar sem vilja nýta þær geta gert það. Við sjáum að nemendum í þeim skólum þar sem fjármálalæsi er kennt gengur markvisst betur í Fjármálaleikunum,“ bætir Kristín við. Þá segir hún krakkana hafa sýnt mikinn áhuga og keppnisanda.„Þetta er rafrænn spurningaleikur sem þau svara sem einstaklingar í tölvu eða símanum sínum en það er meðaltal skólans sem gildir svo það skiptir máli að allir standi sig.“Leikurinn byggir á spurningum sem snúa að hinum ýmsu þáttum fjármála, svo sem heimilisbókhaldi, eigin fjármálum og launum. Spurningarnar eru misflóknar, til að mynda: Hver er munurinn á debet- og kreditkorti? Hvað kostar að leigja íbúð? Og hvað þarf að greiða mikið í lífeyrissjóð?Verðlaunafé fyrir sigurliðið í ár var 150 þúsund krónur, helmingur þess rennur til 10. bekkjar í Áslandsskóla en hinn helmingurinn rann til góðgerðarmála sem nemendur völdu. „Þau völdu að gefa Alzheimer-samtökunum helminginn og hinn helminginn ætla þau að nota í tíundabekkjarferð sem þau stefna að.“Frá stofnun SFF hefur efling fjármálalæsis verið eitt af helstu baráttumálum samtakanna og hefur verið lögð áhersla á að fjármálalæsi verði tekið inn í námskrá grunnskólanna. Kristín segir alþjóðlegu fjármálavikuna sem hófst í gær hugsaða til þess að vekja athygli á mikilvægi fjármálalæsis fyrir ungt fólk.„Það er mjög greinilegt að áhugi nemenda á því að læra fjármálalæsi er mikill og kennarar hafa einnig sýnt því mikinn áhuga að kenna þeim það. Nemendurnir í Áslandsskóla voru virkilega stolt af sinni frammistöðu og það sást vel á þeim frábæru móttökum sem þau veittu menntamálaráðherra þegar hún veitt þeim verðlaunin.“Frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. mars 2021