Metaðsókn í óverðtryggð húsnæðislán á breytilegum kjörum

Mikil aukning hefur orðið í endurfjármögnun á húsnæðislánum það sem af er ári og færa heimilin sig nú úr lánum með föstum vöxtum yfir í lán með breytilegum vaxtakjörum. Á fyrstu fjórum mánuðum ársins veittu innlánastofnanir um 44,5 milljarða í ný húsnæðislán a.t.t.t. uppgreiðslna. Þar af nema ný óverðtryggð húsnæðislán með breytilegum vaxtakjörum 48 milljörðum króna. Þetta er met á umræddu tímabili, svo langt aftur sem gögn Seðlabankans ná, og er fjárhæðin til að mynda rúmlega fjórfalt hærri en á sama tímabili árið 2019. Aðsókn í óverðtryggð húsnæðislán á breytilegum kjörum hefur því aldrei verið meiri en nú.Á sama tímabili áttu sér stað tæplega 9 milljarða króna uppgreiðslur á húsnæðislánum á föstum vaxtakjörum. Þar er um að ræða algjöran viðsnúning á þróun slíkra húsnæðislána sem jukust til að mynda meira en húsnæðislán á breytilegum vaxtakjörum á sama tímabili í fyrra.

Verðtrygging aldrei haft minna vægi í skuldsetningu heimilanna

Óverðtryggð húsnæðislán á breytilegum kjörum er um þessar mundir langvinsælasta lánaformið og voru slík lán um 90% af nýjum húsnæðislánum innlánastofnana á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Þá hafa óverðtryggð húsnæðislán aldrei verið meiri sem hlutfall af húsnæðislánum heimilanna í heild. Af því leiðir að vægi verðtryggðra lána í heildarskuldum heimilanna hefur aldrei verið minna. Umtalsverð lækkun vaxta undanfarin misseri hefur gert fleirum kleift að taka óverðtryggð lán en greiðslubyrði slíkra lána er hærri en á verðtryggðum lánum fyrst um sinn og því t.d. erfiðara fyrir lánþega að standast greiðslumat vilji hann taka óverðtryggt lán.

Óverðtryggð kjör húsnæðislána innlánastofnana á meðal þeirra hagstæðustu sem völ er á

Innlánastofnanir bjóða uppá samkeppnishæfustu kjör óverðtryggðra lána sem standa til boða um þessar mundir, að Birtu lífeyrissjóði undanskildum miðað við upplýsingar á vefsíðunni www.aurbjorg.is. Þá er aðgengi almennings einnig greiðara að húsnæðislánum hjá innlánastofnunum en hjá lífeyrissjóðum þar sem að húsnæðislán lífeyrissjóða standa einungis sjóðsfélögum til boða. Innlánastofnanir bjóða þar að auki lánþegum hærra veðhlutfall en lífeyrissjóðir í flestum tilfellum.

Lífeyrissjóðirnir á bremsunni en innlánastofnanir á bensíngjöfinni

Lífeyrissjóðir hafa rúmlega tvöfaldað umsvif sín í útlánum til heimila á tæplega fjórum árum. Síðastliðin tvö ár hefur hægt á útlánaaukningu lífeyrissjóðanna sem nemur nú um 20% á ársgrundvelli. Til samanburðar nam útlánavöxtur lífeyrissjóðanna til heimila um 30% árið 2018 og um 40% árið 2017.Útlánavöxtur húsnæðislána innlánastofnana er alfarið bundinn við óverðtryggð lán þar sem vöxturinn hefur verið um 26% á ársgrundvelli það sem af er ári. Samdráttur hefur verið á öðrum húsnæðislánaformum innlánastofnana allt frá því í október á síðastliðnu ári. Líklegt verður að teljast að vinsældir óverðtryggðra húsnæðislána á breytilegum kjörum haldi áfram. Má því gera ráð fyrir að bankakerfið auki hlutdeild sína á húsnæðislánamarkaði á næstu misserum.

Heimildir: Seðlabanki Íslands og www.aurbjorg.is