Nýr málskotssjóður tengdur úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki
Samtök fjármálafyrirtækja hafa sett á laggirnar sérstakan málskotssjóð í tengslum við úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Er miðað við að Neytendasamtökin geti nýtt fjármuni úr sjóðnum f.h. neytanda sem er eða mun verða aðili að dómsmáli og fengið greiddan kostnað sem hlýst af rekstri dómsmálsins, svo sem kostnað vegna starfa lögmanns neytanda í tengslum við rekstur málsins og þingfestingargjald, þegar:
- Það er mat neytanda og Neytendasamtakanna að einstaka úrskurðir geti haft slík víðtæk áhrif að réttast sé að fá úr málinu skorið fyrir dómstólum. Geta Neytendasamtökin þá óskað eftir greiðslu beins kostnaðar af málarekstrinum f.h. sóknaraðila úr málskotssjóðnum.
- Einstaka fjármálafyrirtæki telja að einstaka úrskurðir, sem fallið hafa gegn því, geti haft slík víðtæk áhrif að réttast sé að fá úr málinu skorið fyrir dómstólum. Geta Neytendasamtökin þá f.h. varnaraðila óskað eftir greiðslu beins kostnaðar hans af málarekstrinum úr málskotssjóðnum.
Heildargreiðslur úr málskotssjóðnum geta að hámarki numið tilgreindri fjárhæð 1.500.000,00 kr. á árinu 2021. Er sjóðurinn settur á laggirnar til reynslu og verður mat lagt á framkvæmd, markmið og umfang í árslok 2021.Samtök fjármálafyrirtækja sendu Neytendasamtökunum bréf þessa efnis fyrr á árinu.