Punktar um breytileg starfskjör
Allir geta verið sammála um að óhóf hafi einkennt kaupaukagreiðslur fjármálafyrirtækja áður en fjármálakreppan skall á, bæði hér á landi og erlendis. Á árum áður voru ekki gildi neinar reglur á fjármálamörkuðum Evrópu og Bandaríkjanna um slíkar greiðslur. Nú er það breytt. Sérfræðingar og stefnusmiðir beggja vegna Atlantsála hafa dregið lærdóm af fjármálakreppunni. Sá lærdómur hefur verið nýttur til gagngerra breytinga á lögum og reglum sem gilda um fjármálamarkaði.Meðal breytinga sem gerðar hafa verið má nefna að sett hefur verið þak á breytileg ístarfskjör fjármálageiranum og girt fyrir óeðlileg tengsl slíkra greiðslna og áhættusamrar útlánastarfsemi.Samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins, sem verið er að innleiða hér á landi, getur hlutfall breytilegra starfskjara verið 100% af föstum árslaunum en 200% ef meirihluti hluthafa samþykkir það. Hins vegar er kveðið skýrt á um það hvernig beri að standa að breytilegum starfskjörum til að tryggja langtímahagsmuni fyrirtækja, viðskiptavina og samfélagsins alls. Ákvæði eru um að hluti breytilegra starfskjara komi ekki til greiðslu strax, heldur að þremur árum liðnum, að hluti þeirra sé í hlutafé, að heimilt sé að fella niður kaupauka sem áður hafði verið tekin ákvörðun um slík kjör og jafnvel endurkrefja um slíkar greiðslur.Á Íslandi hafa stjórnvöld lagt fram frumvarp sem felur í sér innleiðingu á ofangreindri tilskipun, nema hvað gengið er mun lengra hér á landi en þekkist í Evrópu, þ.á m. hjá nágrannaþjóðum, þegar kemur að takmörkunum á breytilegum starfskjörum. Samkvæmt frumvarpinu mega breytileg starfskjör ekki vera meiri en sem nemur fjórðungi árslauna. Athugasemdir Samtaka fjármálafyrirtækja við frumvarpið snúa ekki að hlutfallinu sjálfu, heldur að því að færa eigi í lög sérreglur fyrir íslensk fjármálafyrirtæki sem eru í samkeppni við önnur evrópsk fjármálafyrirtæki. Samtökin vilja einfaldlega að starfsskilyrði íslenskra fjármálafyrirtækja séu hin sömu og annarra fyrirtækja í Evrópu. Danir, Norðmenn og Svíar hafa ekki séð ástæðu til að setja strangari reglur en kveðið er á um í regluverki Evrópusambandsins.Hverju skiptir þetta allt, því íslensk fjármálafyrirtæki eru ekki í neinni samkeppni við erlend fjármálafyrirtæki gæti einhver spurt. Veruleikinn er á hinn bóginn sá að samkeppnin er hörð og fer harðnandi. Um 40% allra lána til íslenskra fyrirtækja eru veitt af erlendum lánastofnunum og hefur markaðshlutdeild þeirra aukist hratt á undanförnum árum. Full ástæða er til að fagna þessari samkeppni en á sama tíma er rétt að benda á að sanngjarnt sé að hún fari fram á jafnréttisgrundvelli. Norsk fjármálafyrirtæki hafa t.d. markvisst unnið að því á síðustu árum að auka hlutdeild sína í íslenskum fyrirtækjalánum í samkeppni við íslensk fjármálafyrirtæki.Rekstur fjármálafyrirtækja getur verið sveiflukenndur eins og alkunna er, og almennt hefur þótt eðlilegt að hafa hluta launagreiðslna tengdan afkomu. Þetta heldur niður fastakostnaði þegar illa gengur og dregur úr rekstraráhættu og er reyndar mjög vel þekkt í sveiflukenndum rekstri hér á landi, t.d. í sjávarútvegi, fiskvinnslu, áliðnaði og byggingastarfsemi svo dæmi séu tekin.Fullyrt hefur verið að sérstaða fjármálafyrirtækja og mikilvægi sé slíkt að aðrar reglur eigi að gilda um launakjör starfsmanna þeirra en starfsmanna annarra fyrirtækja. Þessi fullyrðing er meðal annars rökstudd með því að vísa til þess kostnaðar sem skattgreiðendur geta þurft að bera fari fjármálafyrirtæki í þrot. Þær breytingar sem hafa verið gerðar á regluverki fjármálafyrirtækja í Evrópu miða hins vegar að því að eyða þeirri áhættu: Innstæður eru forgangskröfur og rambi fjármálafyrirtæki á barmi gjaldþrots eru nú til staðar tól og tæki til að leysa þann vanda án þess skattfé komi við sögu. Þá má benda á að hinar nýju reglur gera ráð fyrir að ef fjármálafyrirtæki uppfyllir ekki kröfu eftirlitsaðila um fjárhagsstyrk sé óheimilt að greiða út þegar ákvörðuð breytileg starfskjör. Sama á við ef fjármálafyrirtæki er veitt þrautvaralán frá seðlabanka eða fjárhagsaðstoð frá stjórnvöldum.Of ofansögðu má vera ljóst að miklar breytingar hafa verið gerðar á regluverki fjármálafyrirtækja á hinum sameiginlega markaði í Evrópu á undanförnum árum og eru þær almennt til mikilla bóta. Allar hníga þær í sömu átt, að draga úr áhættu og sveiflum. Áhrif þessara breytinga munu verða umtalsverð þegar fram í sækir, ekki síst hér á landi. Á Íslandi gilda sömu reglur og í Evrópu á fjármálamarkaði og Samtök fjármálafyrirtækja telja vanhugsað að smíða sérstakar reglur hér á landi um einstaka hluti starfsemi fjármálafyrirtækja. Þau breytilegu starfskjör sem nú eru til umræðu byggjast á allt öðrum viðmiðum en áður var og nauðsynlegt að skoða þær í því ljósi.