RÚV: Börn læri fjármálalæsi eins og umferðareglurnar
Rætt var við Heiðrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra SFF, í hádegis- og kvöldfréttum RÚV, nýverið um fjármálalæsi. Í fréttum RÚV var vitnað til könnunar sem Gallup vann fyrir SFF þar sem fram kom að um 10% aðspurðra teldu sig hafa lært um fjármál í grunnskóla á meðan um 90% aðspurða hefðu viljað læra meira um fjármál í grunnskóla.
Í könnun Gallup fyrir SFF kom einnig fram að 74% aðspurðra teldu að best færi á því að fólk lærði fjármálalæsi í grunn- og framhaldsskóla. Hins vegar sögðust flestir hafa lært um fjármál af foreldrum sínum og svo á samfélagsmiðlum, fjölmiðlum eða netinu. Þá voru samkvæmt könnuninni þeir sem voru með minna fjármálalæsi væru líklegri til að safna skuldum og lenda í vanskilum en aðrir.
Heiðrún benti á að nú fái mörg ungmenni senn sína fyrstu launaseðla og þá komi þeim til góða að kunna að lesa úr slíkum launaseðlum til viðbótar við aðra grunnþekkingu á fjármálum einstaklinga. „Þetta er bara það sama og þú setur ekki börnin út í umferðina án þess að kenna þeim umferðarreglurnar,“ sagði Heiðrún.
Í fréttinni kom fram að misjafnt sé milli skóla hvort nemendur fái kennslu í fjármálalæsi og þá í hve miklum mæli. Heiðrún sagði brýnt að jafna þessa stöðu. Það ætti ekki að skipta máli hver bakgrunnur barna væri eða í hvaða skólakerfi það byggi hvort það fengi tækifæri til að læra grundvallaratriði í fjármálum einstaklingsins áður en það færi af stað út í lífið.