SAMKEPPNISUMHVERFIÐ Á TRYGGINGAMARKAÐI
Í Viðskiptablaðinu þann 18. águst er að finna fréttaskýringu um hversu fyrirferðamiklir stofnanafjárfestar á borð við lífeyrissjóði eru á íslenska hlutabréfamarkaðnum. Í umfjölluninni er leitt að því líkum að þetta geti bitnað á samkeppni í sölu á vöru og þjónustu og er tryggingamarkaðurinn nefndur í því samhengi.Á einum stað er fullyrt í greininni að samkeppni á þeim markaði hafi minnkað á undanförnum árum. Orðrétt segir í greininni: "Það kann að vera áhyggjuefni að samkeppnin í tryggingabransanum hefur minnkað umtalsvert frá því fyrir tveim árum...“. Höfundur greinarinnar dregur þessa ályktun út frá þeirri staðreynd að á tveggja ára tímabili juku stærstu hluthafar tryggingafélaganna – þar með talið stofnanafjárfestar – við hlut sinn í þeim.Við þessa ályktun er ýmislegt að athuga. Í fyrsta lagi hafa breytingar á samsetningu hluthafa engu breytt um þann virka samkeppnismarkað sem ríkir á tryggingamarkaðnum. Þvert á móti hefur samkeppnin eflst til muna á undanförnum árum. Í því samhengi skiptir sterkari staða neytenda sköpum. Allt fram á síðasta ár gat viðskiptavinur tryggingafélags einungis sagt upp viðskiptum sínum og leitað annað þegar vátryggingasamningur hans rann út. Í dag gildir hins vegar eins mánaðar uppsagnarfrestur og þar af leiðandi eiga viðskiptavinir auðvelt með að beina viðskiptum sínum annað með skjótum hætti fái þeir hagstætt tilboð í sínar tryggingar.Þetta svigrúm hafa viðskiptavinir tryggingafélaga nýtt sér í ríkum mæli rétt eins og nýleg dæmi sanna og ítarlega var greint frá í fjölmiðlum.Annað dæmi sem ætti að sýna hversu hörð samkeppnin á tryggingamarkaðnum er lýtur að umferðartjónum og ökutækjatryggingum. Eins og tölur sem eru aðgengilegar á heimasíðu FME sýna þá hafa heildariðgjöld vegna ökutækjatrygginga nánast staðið í stað að raunvirði á síðustu árum. Sú þróun er að eiga sér stað þrátt fyrir að umferðartjónum hafi fjölgað umfram fjölgun tryggðra ökutækja.Rétt er að líta til staðreynda eins og þessar áður fullyrt er að dregið hafi úr samkeppni á mörkuðum hvað sem eignarhaldi viðkomandi félaga líður. Þegar það er gert kemur ekkert í ljós sem styður við slíkar fullyrðingar.Vissulega er rétt að mikil samþjöppun eignarhalds á skráðum fyrirtækjum getur verið umhugsunarverð. En að sama skapi verður að hafa í huga að fyrirferðamikið eignarhald stofnanafjárfesta á borð lífeyrissjóða á skráðum hlutabréfum er meðal annars til komin vegna þeirra aðstæðna sem hér sköpuðust í kjölfar efnahagskreppunnar sem hófst 2008. Vafalaust mun vægi lífeyrisjóða á hlutabréfamarkaðnum minnka eftir því sem fram sækir þó að hlutverk þeirra verði eftir sem áður mikilvægt. Einnig er rétt að ítreka að þeir sem sitja í stjórnum skráðra félaga er gert að gæta hagsmuna allra hluthafa og fyrirtækisins en ekki einungis þeirra sem þeir sækja umboð sitt til og hér á landi gildir sterk samkeppnislöggjöf sem framfylgt er af öflugu eftirliti.