Samræmd og skjót viðbrögð
Samstaðan sem ríkt hefur um þær nauðsynlegu aðgerðir sem grípa þarf til vegna heimsfaraldursins sem nú geisar hefur sannarlega yljað um hjartarætur og sýnt okkur fram á, með afgerandi hætti, hvað skiptir okkur mestu þegar á hólminn er komið. Í þessari stöðu er enginn eyland. Sérhagsmunir eru lagðir til hliðar og sameiginlega er unnið að aðgerðum til að verja heilsu okkar, störf og lífskjör almennings. Ríkisstjórnin, Alþingi og Seðlabankinn hafa á undanförnum vikum tekið þétt utan um snúna stöðu, sem skapast hefur vegna efnahagslegra áhrifa faraldursins, með markvissum aðgerðum til að draga úr samfélags- og efnahagslegum skaða sem heimsfaraldurinn óhjákvæmilega veldur. Þá er aðdáunarvert að sjá þann kraft sem býr í atvinnulífinu og birtist í þeirri miklu nýsköpun sem fyrirtækin hafa sýnt til að greiða aðgengi að vörum sínum og þjónustu.
Samkomulag um greiðslufrest
Fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir brugðust einnig hratt við og gerðu með sér samkomulag um tímabundinn greiðslufrest á lánum til fyrirtækja. Samkeppniseftirlitið heimilaði þetta samstarf lánveitenda fyrir rétt rúmum þremur vikum. Síðan þá hafa um 63% þeirra 1.205 umsókna um greiðslufrest sem hafa borist þegar verið afgreidd. Þessi aðgerð lánveitenda felur í sér að fyrirtæki sækja um greiðslufrest hjá sínum aðalviðskiptabanka eða sparisjóði sem leggur mat á hvort skilyrði samkomulagsins séu uppfyllt og tilkynnir til annarra lánveitenda fyrirtækisins, sem aðilar eru að samkomulaginu. Séu skilyrði fyrir greiðslufresti uppfyllt, fresta lán-veitendur greiðslum afborgana og vaxta sem leggjast við höfuðstól og lengja samningstímann sem nemur frestuðum greiðslum.
93,1% uppfyllt skilyrði
Af afgreiddum umsóknum fyrirtækja um greiðslufrest hefur 93,1% uppfyllt skilyrði samkomulagsins og fengið frest á sínum lánum til allt að sex mánaða. Skilyrðin eru einföld; fyrirtækið er í heilbrigðum rekstri en verður fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldursins, er ekki með lengri en 60 daga vanskil í lok febrúar og hefur eða mun nýta sér viðeigandi úrræði stjórnvalda. Markmið samkomulagsins er að sem flest fyrirtæki geti komist hratt í skjól með einföldum hætti. Er þetta hluti af viðbrögðum fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða við efnahagsáhrifum heimsfaraldursins og er hugsað sem einföld, skjót og samræmd lausn fyrir fyrirtæki sem sækja um greiðslufrest. Auk þess eru fjármálafyrirtæki hvert um sig að vinna með sínum viðskiptavinum, fyrirtækjum og heimilum, í gegnum óvissuna og hafa t.d. fjölmörg heimili fengið greiðslufrest á húsnæðislánum. Önnur úrræði sem fjármálafyrirtækin koma að eru m.a. útgreiðsla séreignarsparnaðar sem er hafin og viðbótarlán til fyrirtækja sem mælt var fyrir um í lögum sem samþykkt voru á Alþingi nýverið og eru nú í undirbúningi hjá stjórnvöldum.Besta útkoman er að sem allra flestir komist út úr þessu heilir heilsu og að atvinnulífið geti tekið sprettinn að nýju og tryggt þannig afkomu fólks og eflt efnahagslíf
Samhent þjóðfélag
Hlutverk ólíkra aðila í samfélögum heims verða afar skýr á tímum sem þessum. Við sjáum skýrt hversu miklu skiptir að eiga heilbrigðiskerfi sem er sterkt og aðgengilegt öllum óháð efnahag. Við sjáum skýrt hversu miklu skiptir að búa við sterka lýðræðishefð með ríkri upplýsingagjöf og vel smurðu ákvarðanatökuferli. Við sjáum skýrt hvernig öflug verkalýðsbarátta hefur skilað okkur mikilvægum réttindum á vinnumarkaði. Við sjáum skýrt hversu miklu skiptir að hér sé öflugt einkarekið og nýskapandi atvinnulíf. Við sjáum skýrt mikilvægt hlutverk öflugra og vel rekinna fjármálafyrirtækja. Þá sjáum við einnig skýrt hversu miklu opinberir aðilar og samfélagslegir sjóðir skipta. Allt kemur þetta, og meira til, saman í þjóðfélagi þar sem hlutverk og verkefni allra eru skýr.Öll bíðum við eftir að þessu linni, erum á undarlegan hátt að bíða eftir framtíð sem við vitum ekki alveg hvernig verður. Á meðan gerum við okkar besta og erum óhrædd við að endurmeta úrræði út frá stöðunni hverju sinni. Besta útkoman er að sem allra flestir komist út úr þessu heilir heilsu og að atvinnulífið geti tekið sprettinn að nýju og tryggt þannig afkomu fólks og eflt efnahagslíf. Fjármálafyrirtækin eru vel undir það búin að styðja við heimili og atvinnulíf í þeim spretti.
Greinin birtist í Markaði Fréttablaðsins 15.apríl 2020