Sátt Samkeppniseftirlitsins og Samtaka fjármálafyrirtækja

Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) hafa undirritað sátt við Samkeppniseftirlitið vegna skoðunar eftirlitsins á opinberu fyrirsvari samtakanna í tveimur tilvikum á síðasta ári.

Tildrög málsins eru þau að árið 2021 birtust tvær greinar í nafni SFF í kjölfar umræðu um vátryggingariðgjöld. Birtist önnur þeirra á vefsíðu samtakanna og hin á vefmiðli, og var þar fjallað um ýmsa þætti vátryggingamarkaðarins og áhrif þeirra á iðgjöld, auk þess sem reifaðar voru hugmyndir að lagabreytingum sem skapað gætu forsendur til lækkunar iðgjalda hér á landi. Ákvæði samkeppnislaga setja hagsmunasamtökum skorður hvað varðar undirbúning og þátttöku í umræðu um atriði sem áhrif geta haft á verðlagningu og verða samtök fyrirtækja því að stíga varlega til jarðar þegar kemur að umræðu sem gæti haft áhrif á markaðshegðun aðildarfélaga.

Að mati Samkeppniseftirlitsins hafi SFF haldið uppi vörnum um verðlagsstefnu aðildarfélaga sinna. Með því hafi samtökin brotið gegn samkeppnislögum og fyrirmælum eldri ákvörðunar frá árinu 2004, sem beint hafði verið til Sambands íslenskra tryggingarfélaga (sem síðar urðu hluti af SFF) vegna samkeppnislagabrota.

Ekki ætlunin að raska samkeppni

Með sáttinni gangast SFF við að hafa brotið gegn samkeppnislögum og fyrirmælum ákvörðunarinnar frá 2004 og fallast samtökin því á að greiða 20 milljónir króna í stjórnvaldssekt og fara að tilmælum Samkeppniseftirlitsins. SFF skuldbinda sig þannig til að birta upplýsingar um það á heimasíðu sinni til hvaða aðgerða þau hafa gripið til þess að tryggja að farið sé eftir fyrirmælum ákvörðunarinnar frá 2004 og með því komið í veg fyrir að brot endurtaki sig.

Samtök fjármálafyrirtækja lögðu, líkt og fram kemur í sáttinni, áherslu á að með málflutningi sínum hafi ásetningurinn ekki verið að raska samkeppni heldur opna umræðu um mögulegar leiðir sem skapað geta forsendur til lækkunar iðgjalda, líkt og farnar hafa verið annars staðar á Norðurlöndum.

Katrín Júlíusdóttir framkvæmdastjóri SFF:

„Við leggjum mikla áherslu á fylgni við samkeppnislög í öllu okkar starfi. Í umræddum greinum viðurkennum við að hafa mátt gæta okkar betur og í kappinu við að koma okkur inn í umræðu um leiðir sem leitt geta til lækkunar iðgjalda, fórum við lengra í okkar umfjöllun um forsendur verðlagningar en æskilegt er. Þykir okkur þetta afar miður og munum við gæta okkar enn betur framvegis og skerpa á okkar ferlum. Við munum þó halda áfram að vekja athygli á nauðsynlegum lagabreytingum sem við teljum að þurfi að ráðast í og gætu komið markaðnum og ekki síst neytendum til góða innan þess ramma sem okkur er heimilt.“