Síbreytilegar áskoranir

Miklar breyt­ingar hafa orðið í íslensku þjóð­fé­lagi og heim­inum und­an­farið ár, á sviði fjár­mála og trygg­inga­starf­semi eru staf­rænar breyt­ingar og þau tæki­færi og þær áskor­anir sem þeim fylgja efst í huga. Við­skipta­vinir banka og trygg­inga­fé­laga hafa tekið þessum breyt­ingum fagn­andi og nýta sér óspart í við­skiptum sín­um. Dæmi um þessa auknu notkun má meðal ann­ars sjá í tölum eins við­skipta­bank­anna frá síð­asta ári þar sem 99% snert­inga við bank­ann voru á raf­rænu formi. Einnig birti eitt vátrygg­inga­fé­lag­anna að 60% tjóna hafi verið til­kynnt með raf­rænum hætti árið 2021. Aukin notkun á raf­rænni þjón­ustu hefur í för með sér tíma­sparnað og betri þjón­ustu. Þá minnkar raf­ræn þjón­usta kolefn­is­spor fjár­mála­geirans, sem aug­ljós­lega verður sífellt mik­il­væg­ara atriði.Íslend­ingar eru afar til­búnir til þess að til­einka sér nýjar leiðir í raf­rænni þjón­ustu, en þess­ari auknu notkun fylgja einnig áskor­anir og þörf á breyt­ingu á reglu­gerð­um. Staf­rænar breyt­ingar kalla á auknar örygg­is­kröfur en ný tækni býr til nýjar leiðir til þess að stunda pen­inga­þvætti og fjár­svik. Um mitt ár voru til að mynda inn­leiddar reglur um sterka auð­kenn­ingu til þess að auka öryggi í raf­rænum við­skiptum og þjón­ustu. Þá hefur áreið­an­leika­könn­unum verið beitt sem lið í því að berj­ast gegn pen­inga­þvætti og stuðla að gagn­sæi í við­skipt­um. Til að koma í veg fyrir pen­inga­þvætti þurfa fjár­mála­fyr­ir­tæki að treysta á sam­vinnu við við­skipta­vini sína. Erfitt er að sníða reglur þannig að allir verði ánægðir og geti nýtt sér nýjar þjón­ustu­leiðir til fulls. Ein­hverjir gætu saknað þess að gera sér ferð hver mán­að­ar­mót í útibú sitt og ekki má gleyma þeim sem ekki geta nýtt sér einir og óstuddir staf­rænar leið­ir. Mik­il­vægt er að tryggja aðgengi allra og eiga SFF nú sam­tal við stjórn­völd um laga­legar úrbætur til að tryggja aðgengi fatl­aðra og ann­arra með færniskerð­ingu sem leiðir til þess að við­kom­andi geta ekki nýtt staf­rænar leiðir í fjár­mála­þjón­ustu óstudd­ir.

Þróun staf­rænnar fjár­mála­þjón­ustu helst í hendur við stefnu stjórn­valda um staf­ræna þjón­ustu hins opin­bera. Þar kemur sú sýn fram að staf­ræn þjón­usta nýt­ist til þess að skapa öfl­ugt sam­fé­lag með auk­inni sam­keppn­is­hæfni sem leiðir til verð­mæta­sköp­unar og myndar grund­völl hag­sæld­ar. SFF taka undir með stjórn­völdum að staf­ræn þjón­usta þarf að vera allt í senn skýr, örugg, ein­föld og hrað­virk. SFF leggja líka ríka áherslu á að staf­ræn þjón­usta þarf að vera ódýr fyrir not­and­ann. Nú tíðkast að við­skipta­vinir feli fjár­mála­fyr­ir­tækj­um, fyrir sína hönd, að sækja gögn til hins opin­bera sem varða fjár­hags­mál­efni þeirra t.d. í tengslum við vinnslu greiðslu­mats fyrir lána­fyr­ir­greiðslu. Í þessu sam­hengi leggja SFF ríka áherslu á að stjórn­völd hefji sem fyrst heild­ar­end­ur­skoðun á fyr­ir­komu­lagi gjald­töku hins opin­bera vegna afhend­ingar staf­rænna gagna frá hinu opin­bera til fjár­mála­fyr­ir­tækja að beiðni viðskipta­vina þeirra. Eðli­legt er að gjald­takan verði löguð að nýjum staf­rænum veru­leika í opin­berri þjón­ustu og fjár­mála­þjón­ustu. Hóf­leg og gagnsæ gjald­taka er leið­ar­stef í þessu sam­bandi. Að mati SFF er eðli­legt að líta svo á að ein­stak­lingar eigi sjálfir sín gögn hjá hinu opin­bera og geti falið fjár­mála­fyr­ir­tækjum að sækja gögnin fyrir sína hönd án þess að það leiði til hærri verð­lagn­ingar af hálfu hins opin­bera en þegar ein­stak­ling­arnir kalla sjálfir eftir gögnum frá hinu opin­bera.

Staf­ræna veg­ferðin mun halda áfram á næstu árum. Fyrstu íbúða­lán­unum var þing­lýst raf­rænt á árinu og munu raf­rænar þing­lýs­ingar halda áfram að þró­ast á næstu miss­er­um. Sam­tökin binda vonir við að á næsta ári líti dags­ins ljós frum­varp um raf­rænar skulda­við­ur­kenn­ingar sem mun búa til lag­ara­mma um lána­skjöl á staf­rænu formi. Mark­miðið er að fá lög­gjöf um nýtt lána­form, raf­rænar skulda­við­ur­kenn­ing­ar, sem veitir sam­bæri­legt rétt­ar­fars­hag­ræði og skulda­bréf, og miðar að því að auka skil­virkni í við­skipt­um, ein­falda lána­um­sýslu, hafa jákvæð umhverf­is­á­hrif og skapa hag­ræði fyrir almenn­ing, lán­veit­endur og opin­bera aðila.

Greinin birtist fyrst í Kjarnanum 29. desember