Skýrsla um úrbætur á brunavörnum í húsnæði þar sem fólk hefur búsetu

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun tillögur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) að úrbótum í brunavörnum í íbúðum og öðru húsnæði þar sem fólk hefur búsetu sem unnar voru í samráði við hagaðila. Ráðherra fól HMS að gera tillögur að úrbótum í málaflokknum í kjölfarið á brunanum við Bræðraborgarstíg í júní 2020, og byggja tillögurnar á niðurstöðum rannsóknar HMS á brunanum, niðurstöðu vinnuhóps á vegum HMS um óleyfisbúsetu og vinnu samráðsvettvangs um brunavarnir. Ráðherra hyggst skipa stýrihóp til þess að fylgja eftir þeim tillögunum sem komu út úr þessari vinnu.Í samráðsvettvangi HMS um brunavarnir áttu fulltrúa; Alþýðusamband Íslands, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningarmanna, Félag slökkviliðsstjóra á Íslandi, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Samband íslenskra sveitarfélaga, Félag byggingarfulltrúa, byggingarfulltrúaembætti Reykjavíkurborgar, skipulagsfulltrúaembætti Akureyrarbæjar, Þjóðskrá Íslands og Samtök fjármálafyrirtækja vegna vátryggingarfélaga auk Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem jafnframt stýrði vinnu samráðsvettvangsins.SFF lögðu áherslu á að endurskoða þyrfti lög um brunatryggingar sem fjalla meðal annars um forsendur brunabótamats en einnig þarf að tengja brunatryggingar betur við brunavarnir, veita vátryggingafélögum sem bestar upplýsingar um notkun húsnæðis og brunavarnir allan líftíma þess og auka auka heimildir vátryggingafélaga til að skerða bætur ef brunavörnum er ekki sinnt. Tillaga þessa efnis er ein af tillögum skýrslunnar.

Allar tillögurnar má finna í skýrslu um úrbætur á brunavörnum í húsnæði þar sem fólk hefur búsetu.Lesa má fréttina á vef Stjórnarráðsins í heild sinni hér.