Sóknarfæri í rafrænum viðskiptum
Íslendingar eru sér á báti meðal Evrópuþjóða þegar kemur að notkun netbanka. Samkvæmt könnun Hagstofu Evrópusambandsins (e. Eurostat) notuðu 93% allra Íslendinga netbanka til að sinna bankaviðskiptum árið 2017. Er þetta hæsta hlutfallið í Evrópu en á eftir Íslendingum koma íbúar hinna Norðurlandanna ásamt Hollendingum.Íslendingar hafa verið fljótir að tileinka sér stafrænar lausnir og að mörgu leyti verið í farabroddi í þeim efnum. Þetta sést meðal annars á því að árið 2007 notuðu um helmingur viðskiptavina íslensku bankanna netbanka til þess að greiða reikninga,millifæra og annað sem þar er boðið uppá. Á tíu árum er hlutfallið komið yfir 90%. Helst þessi þróun í hendur við öra þróun netbankanna og tilkomu nýrra lausna á borð við rafrænar undirskriftir. Þetta hefur gert að verkum að viðskiptavinir geta sinnt fjölbreyttari bankaviðskiptum en áður í gegnum netbankana og eiga sífellt sjaldnar erindi í útibú bankana.Þetta hefur leitt til umtalsverðar hagræðingar í fjármálakerfinu. Útibúum hefur þannig fækkað mikið á undanförnum árum og þau sem eftir eru einkennast í auknum mæli af sjálfsafgreiðslu og sjálfvirkni. Ekki sér fyrir endann á þessari þróun enda blasa við straumhvörf í umhverfi fjármálaþjónustu vegna framþróunar hinnar stafrænu byltingar. Miklar breytingar munu verða viðinnleiðingu nýrrar tilskipunar Evrópusambandsins um greiðslumiðlun (PSD II) sem er ætlað að greiða leið tækni- og fjártæknifyrirtæja inn á fjármálamarkaðinn og auka þannig samkeppni um veitingu fjármálaþjónustu og við innleiðingu reglugerðar Evrópusambandsins um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti (eIDAS) sem ætlað er að greiða fyrir rafrænni þjónustu yfir landamæri.Krafa komandi kynslóðaKönnun Eurostat sýnir að yngri kynslóðir á Íslandi nota netbanka í miklum mæli til að sinna bankaviðskiptum. Hér á landi hefur einnig verið ör þróun í nýjum lausnum m.a. með tilkomu smáforrita sem hægt er að nýta til þess að millifæra og greiða fyrir vörur og þjónustu. Þessi þróun endurspeglar þær kröfur sem yngri kynslóðir gera til ennfrekari gagnvirkni ásamt hraðari og skilvirkari afgreiðslu hvenær sem er og hvar sem þau eru stödd. .Þessi kynslóð stendur brátt frammi fyrir þeim stóru fjárhagslegu ákvörðunum sem felast í lífshlaupi hvers og eins – það er að segja kaup á fasteignum, bifreiðum og fleiri meiriháttar fjárfestingum og skuldbindingum sem hafa til þessa kallað á umtalsvert pappírsflóð og allra handa útréttingar. Þessi kynslóð kýs rafræn viðskipti í stað þess að fara í fjölmargar ferðir í bæinn með stresstösku undir hendi þegar kemur að íbúðar- og bílakaupum eða því sem snýr að hinu opinbera. Það eru því ekki bara verslanir og afþreyingarfyrirtæki sem þurfa að vera tilbúin fyrir fólk sem er með tæknina þrædda inn í allan sinn hugmyndaheim, alls óhrædd við að nýta sér hana, heldur allir sem veita einhverja þjónustu.Krafan er ekki eingöngu að hversdagsleg fjármálaþjónusta færist í netbanka og snjalltæki heldur nær hún einnig til flestra sviða samskipta einstaklinga við stofnanir og fyrirtæki. Hið opinbera líkt ogeinkaaðilar á Íslandi hafa alla burði til að koma til móts við þessa kröfu og hafa í raun ekkert val þar um. Í því skipta rafræn skilríki sköpum. Í dag eru um 100 þúsund Íslendingar með slík skilríki og tæplega 200 fyrirtæki, ríkisstofnanir og félagasamtök taka við þeim. Þetta hefur leitt til aukins hagræðis og skilvirkni í samskiptum einstaklinga og lögaðila enda bjóða rafræn skilríki upp á örugga og nútímalega leið til komast að læstum notendasvæðum á borð við netbanka, þjónustusvæði skatta- og tollayfirvalda eða vátryggingafélaga.Kosturinn við rafrænu skilríkin er að þau gefa færi á rafrænni undirskrift sem jafngildir því að pappírsgögn séu undirrituð eigin hendi. Þannig er hægt að undirrita skjöl án þess að mæta á staðinn sem felur í sér mikið hagræði bæði fyrir notendur og veitendur ólíkrar þjónustu.Mikil tækifæri í rafrænum skilríkjumÁrið 2014 undirrituðu Samtök fjármálafyrirtækja og þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra viljayfirlýsingu um stóraukna notkun rafrænna skilríkja. Síðan hafa fá en mikilvæg skref verið stigin til þess að fullnýta kosti rafrænna skilríkja. Eitt af þeim markmiðum sem stjórnvöld settu sér með viljayfirlýsingunni var að gera þinglýsingar veðskuldabréfa rafrænar innan tveggja ára. Á móti settu Samtök fjármálafyrirtækja sér þá stefnu að viðskiptavinir fjármálafyrirtækja gætu undirritað helstu skjöl með rafrænum skilríkum innan tveggja ára. Rafrænu undirskriftirnar voru þannig forsenda áforma um að gera þinglýsingar rafrænar. Hvorugt markmiðið hefur náðst en þó hafa einstök fjármálafyrirtæki nú rafvætt lánaferla sína að töluverðu leyti og er þróunin nú hröð innan fyrirtækjanna í þessa átt. Stjórnvöld vinna nú að undirbúningi lagafrumvarps um rafrænar þinglýsingar en í þeirri vinnu er mikilvægt að löggjafinn hafi skýra framtíðarsýn og hagi lagaumgjörðinni þannig að lánveitendum verði gert kleift að gefa út veðskjöl á rafrænu formi.Rafrænar undirskriftir og rafrænar þinglýsingar geta skilað miklu hagræði á sviði fjármálaþjónustu og annarra sviða samfélagsins. Stjórnvöld hafa áætlað að sparnaður samfélagsins í heild vegna rafrænna þinglýsinga geti numið tæpum 400 milljónum króna á ári hverju. Það hagræði mun skila sér til heimila og fyrirtækja og treysta samkeppnishæfni Íslands. Því er mikilvægt að stjórnvöld leggist á árar með einkageiranum að því marki að auka hagræði og skilvirkni. Það er öllum til hagsbóta og skiptir sköpum við að búa til umhverfi stjórnsýslu og viðskipta sem komandi kynslóðir munu sætta sig við.