Sterk staða neytenda á fjármálamarkaði

Í Viðskiptablaðinu 12. janúar var umfjöllun um fákeppni í fjármálakerfinu hér á landi. Útgangspunkturinn var sú staðreynd að fjármálafyrirtækjum hefur fækkað umtalsvert undanfarinn áratug samhliða mikilli minnkun fjármálakerfisins.Þegar kemur að þróuninni á framboði viðskiptabankaþjónustu munar mestu um að starfandi sparisjóðum hefur fækkað úr 25 um aldamótin í fjóra. Viðskiptabankarnir eru eftir sem áður fjórir. Að sama skapi hefur öðrum eftirlitsskyldum fjármálafyrirtækjum fækkað og það sama gildir um lífeyrissjóði, sem einnig stunda lánastarfsemi. Um þessar staðreyndir verður ekki deilt enda ljóst að miklar umbreytingar hafa átt sér stað í fjármálakerfi sem fer úr því að vera tíföld landsframleiðsla niður í að vera um 150% af landsframleiðslu. Um það verður ekki deilt.„Hvað hefur breyst?“Í umfjölluninni kemur jafnframt eftirfarandi fullyrðing fram: „Ein birtingarmynd þeirrar fákeppni sem ríkir á bankamarkaði er sá mikli kostnaður og fyrirhöfn sem fylgir fyrir viðskiptavini að skipta um banka, sem dregur úr aðhaldi og valfrelsi til þjónustu.“Í samantekt Samtaka fjármálafyrirtækja sem ber heitið „Hvað hefur breyst?“ má finna umfjöllun um þær viðamiklu breytingar sem orðið hafa á íslenskum fjármálamarkaði á undanförnum árum. Lagabreytingar og breytingar á starfsháttum fjármálafyrirtækja og tryggingafélaga eru í mótsögn við ofangreinda fullyrðingu í umfjöllun blaðsins.Veigamikill hluti af þeim umbótum sem gerðar hafa verið á fjármálamörkuðum á undanförnum árum snýr að eflingu neytendaverndar og aðgerðum sem styrkt hafa samkeppnisumhverfið. Þannig er nú mun einfaldara fyrir neytendur að beina viðskiptum sínum frá einu fjármálafyrirtæki til annars en nokkurn tíma áður.Með setningu laga um neytendalán og fasteignalán til neytenda voru settar takmarkanir á uppgreiðslugjöld og fjármálafyrirtækjum gert óheimilt að fara fram á kaup á annarri þjónustu þegar fasteignalán eru tekin eins og algengt var á árum áður. Þá leiddi afnám stimpilgjalda á almennum lánaskjölum til þess að mun ódýrara varð endurfjármagna óhagstæð lán.Aukið valfrelsi viðskiptavinaÞetta þýðir með öðrum orðum að kostnaður viðskiptavina fjármálafyrirtækja við að færa sig frá einu fyrirtæki til annars í leit sinni að sem hagstæðustu kjörum og þeirri þjónustu sem hentar þeim hefur hingað til ekki verði lægri. Þá hafa aðildarfélög SFF einnig brugðist við þessum breytingum með því að efla veitta þjónustu og mætt kröfum viðskiptavina um aukið vöruúrval þegar kemur að lánum og sparnaði.Sama þróunin hefur átt sér stað á vátryggingamarkaði. Með breytingum á lögum um vátryggingasamninga geta viðskiptavinir nú sagt upp tryggingasamningi með mánaðar fyrirvara í stað 12 mánaða áður. Þetta hafa viðskiptavinir vátryggingafélaganna nýtt sér í miklu mæli enda lítil fyrirhöfn í því að leita tilboða reglulega. Það endurspeglast í þróuninni á markaðshlutdeild á vátryggingamarkaði.Sterkari samkeppnisgrundvöllur á fjármálamarkaðiÞessar breytingar hafa styrkt samkeppnisgrundvöllinn á fjármálamarkaði. Þetta sést meðal annars á fasteignamarkaðnum þar sem markaðshlutdeild lífeyrissjóðanna hefur vaxið jafnt og þétt á undanförnum árum. Eins og bent er á í umfjölluninni byggir sókn lífeyrissjóðanna meðal annars á ójafnri samkeppnisstöðu en lífeyrissjóðirnir þurfa hvorki að greiða bankaskatt né fjársýsluskatt og þurfa jafnframt ekki að uppfylla lágmarkskvaðir um eigið fé og laust fé.Samtök fjármálafyrirtækja leggja mikla áherslu á að samkeppnsumhverfi fjármálamarkaða sé traust og að keppt sé á jafnréttisgrundvelli þegar kemur að lögum og reglum. Samtökin fagna jafnframt þeirri þróun sem hefur átt sér stað á undanförnum árum sem hefur styrkt stöðu neytenda á markaði. Hún hefur skapað frjóan jarðveg fyrir öflugri samkeppni á fjármálamarkaði og þannig styrkt stöðu viðskiptavina fjármálafyrirtækja með auknu framboði ólíkra leiða og auknum sveigjanleika til að færa sig um set.Greinin birtist upphaflega í Viðskiptablaðinu 19. janúar 2017.